Norrænar loftslagslausnir

23.07.18 | Verkefni
Energy day at COP22
Photographer
©Foto Terje Heiestad 2016
Norræna ráðherranefndin hefur hleypt tveimur verkefnum af stokkunum undir yfirskriftinni Norrænar loftslagslausnir. Annað verkefnið fjallar um breytingar á niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis (Fossil Fuel Subsidy Reform, FFSR) en hitt um að útfæra norrænar loftslagslausnir á stærri skala (Nordic Green to Scale).

Upplýsingar

Dates
01.01.2017 - 31.12.2019

Verkefnið um jarðefnaeldsneyti byggir áfram á þekkingu og reynslu af verkefni ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt, en þar var kannað hvernig löndin gætu breytt niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Gerð hefur verið hagkvæmnisathugun og tilgreind hugsanleg samstarfsríki við innleiðingu breytinga auk þess sem gert var yfirlit yfir bestu starfshætti við niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Nýja verkefnið um niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis byggir á því norræna starfi sem nefnt var hér að framan sem og öðrum alþjóðlegum aðgerðum. Markmiðið er að knýja fram breytingar af frjálsum vilja, einkum með nýrri nálgun, til dæmis verðlagningu kolefnis og að verja því fé sem sparast í aðgerðir sem draga úr loftslagsbreytingum, svo eitthvað sé nefnt. Myndi það auðvelda samstarfsríkjunum að draga úr losun og vonandi hvetja önnur þróunarlönd til dáða, sem búa við svipaðar aðstæður og hafa sama metnað.

Verkefnið Nordic Green to Scale felst í að útfæra 15 norrænar loftslagslausnir á stærri skala fyrir árið 2030, að önnur lönd heims nái eins langt og eitt eða fleiri Norðurlandanna. Með því að beita 15 norrænum loftslagslausnum á stærri skala í sambærilegum löndum mætti draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 4,1 gígatonn fyrir árið 2030. Margar lausnanna eru einnig fjárhagslega fýsilegar. Nýtingin yrði jafnvel enn meiri ef löndin héldu áfram á sömu braut og færu fram úr Norðurlöndum eftir 2030. Þá væri búið að fínpússa lausnirnar, þær orðnar ódýrari og nýjar lausnir komnar fram á sjónarsviðið. Allt myndi þetta stuðla að frekari útbreiðslu norrænna lausna víða um heim.

Í verkefni forsætisráðherranna verður Nordic Green to Scale notað til hvatningar löndunum til að fylgja landsmarkmiðum sínum í loftslagsmálum eftir með beinum aðgerðum og skipta yfir í lágkolefnissamfélag. Verkefnin tvö eiga að greiða fyrir dreifingu fjármagns til grænna fjárfestinga í stað niðurgreiðslu. Sem dæmi má nefna að kostnaður við að útfæra 15 norrænar loftslagslausnir fyrir árið 2030 næmi því sama og niðurgreiðsla jarðefnaeldsneytis um heim allan í níu daga.

Skýrslur

Tenglar