Forseti UNR: Saman erum við sterkari

11.05.20 | Fréttir
Nicholas Kujala

Nicholas Kujala ved Nordisk Råds session.

Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Nú er lag fyrir norrænt samstarf að koma upp skilvirkum neyðarviðbúnaði. Það er álit Nicholas Kujala, forseta Norðurlandaráðs æskunnar (UNR). Hann sér tækifæri í annars erfiðum kringumstæðum.

Í COVID-19-faraldrinum sem nú stendur yfir, hafa ýmsir norrænir stjórnmálamenn hvatt til aukins norræns samstarfs á erfiðleikatímum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, reið á vaðið í mars og sagði „norrænt samstarf og alþjóðlegt samstarf opna á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna.“

Í lok mars sendi forsætisnefnd Norðurlandaráðs svo bréf til norrænu forsætisráðherranna þar sem hvatt var til aukins norræns samstarfs á erfiðleikatímum, nú og til framtíðar.

Nú í lok apríl sagði svo Sven-Erik Bucht, fyrrverandi ráðherra (og jafnframt fulltrúi í norræna Stjórnsýsluhindranaráðinu), að norrænu ríkin þurfi að setja saman áætlun um hættustjórnun, svo að hægt verði að bregðast við kreppum framtíðar.

Nú tekur Nicholas Kujala, forseti Norðurlandaráðs æskunnar, í sama streng. Kujala sér nefnilega á þessum erfiðu tímum tækifæri til að efla samnorrænan neyðarviðbúnað.

Við getum líklega ekki skorið úr um það strax hvaða aðgerðir reynast best gegn kreppunni. Helsti lærdómurinn sem við ættum að draga af þessu er þó sá að við erum sterkari sameinuð.

Nicholas Kujala, forseti Norðurlandaráðs æskunnar (UNR)

Saman erum við sterkari

Nicholas Kujala hefur fullan skilning á því að norrænu ríkin hafi tekið ákvarðanir hvert um sig í COVID-19-faraldrinum. Samhæfingin hefði þó getað verið betri og hann kallar eftir umbótum.

- Mér finnst að viðbrögð Norðurlanda hefðu átt að vera samhæfðari. Hvert ríki tók ákvarðanir fyrir sig og það er auðvitað ásættanlegt, en það er ekki ákjósanlegt. Ég tel okkur hafa tækifæri núna til að meta hvernig neyðarviðbúnað við ættum að hafa, sem samþætt svæði, segir ungi stjórnmálamaðurinn og bætir við:

- Við getum líklega ekki skorið úr um það strax hvaða aðgerðir reynast best gegn kreppunni. Helsti lærdómurinn sem við ættum að draga af þessu er þó sá að við erum sterkari sameinuð. Norrænu ríkin þurfa að samhæfa betur innkaup og jafnframt varðveita samþættingu samfélaga okkar eins og hægt er á erfiðum tímum.

Þörf á aðgerðum – nú og til framtíðar

Nicholas Kujala er ánægður með áðurnefnt bréf til norrænu forsætisráðherranna og telur að næstum öllum norrænu ríkjunum hafi tekist að stöðva eða halda í skefjum yfirstandandi faraldri. Nú einblínir forseti Norðurlandaráðs æskunnar fyrst og fremst á tvennt: hvernig verða endurreisnaráætlanir norrænu ríkjanna? Og hvernig tryggjum við okkur best gegn kreppum framtíðar?

- Við verðum að búa okkur undir það ólíklega. Eitt er að ræða stríðsógnir en samfélög okkar eru líka gríðarlega berskjölduð fyrir öðrum ógnum, til dæmis af völdum loftslagsbreytinga og samfélagslegs ójöfnuðar, segir Nicholas Kujala og bætir við:

- Það er einungis með víðtækum viðbúnaði sem við getum byggt upp öflugri Norðurlönd.

Norðurlandaráð æskunnar er vettvangur stjórnmálasamtaka ungs fólks á Norðurlöndum. Nicholas Kujala tók við sem forseti samtakann á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 2019.