Fyrirheit leiðtoga Norðurlanda um sjálfbærasta svæði í heimi 2030

24.09.19 | Fréttir
Iceland's Prime Minister Katrin Jakobsdottir at UN Climate Action Summit 2019

Iceland's Prime Minister Katrin Jakobsdottir at UN Climate Action Summit 2019

Ljósmyndari
Scanpix

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2019

„Við höfum sett okkur mjög háleitt markmið en við viljum fara á undan með góðu fordæmi. Það er ekki nóg að setja sér markmið, það sem skiptir máli er að ná þeim,“ sagði Sauli Niinistö, forseti Finnlands, á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Í sama streng tóku forsætisráðherrar Norðurlandanna sem kynntu áætlanir um að auka framlög sín til þess að ná markmiðum Parísarsamningsins.

Ríkisstjórn okkar ætlar sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2035. Fljótlega eftir það stefnum við að því að verða fyrsta kolefnisneikvæða iðnaðarhagkerfi heims. Þetta er mjög háleitt markmið en við viljum fara á undan með góðu fordæmi. Við verðum að draga hraðar úr útblæstri og efla kolefnisviðtaka,“ sagði Sauli Niinistö er hann ávarpaði fundinn. Hann bætti því við að Finnland hyggist banna kolanotkun við orkuframleiðslu fyrir árið 2029 og notkun jarðefnaeldsneytis til upphitunar fyrir árið 2030.

Ríkisstjórn okkar ætlar sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2035. Fljótlega eftir það stefnum við að því að verða fyrsta kolefnisneikvæða iðnaðarhagkerfi heims.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands

Finnland og Síle áttu frumkvæðið að samstarfi fjármálaráðherra um kolefnishagstjórn sem 40 lönd taka þátt í og sem er í anda Helsinki-yfirlýsingarinnar.

„Loftslagsaðgerðir krefjast allra þeirra úrræða sem fjármálaráðherrarnir ráða yfir. Skattlagning og fjárlagagerð, opinberar fjárfestingar og innkaup. Ef við nýtum þessi úrræði svo þau vinni með okkur er kolefnishlutlaus veröld möguleg,“ sagði Niinistö.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, greindi frá því að Svíar ætli sér að tvöfalda framlag sitt til Græna loftslagssjóðsins. Í samstarfi við Indverja munu Svíar hrinda af stokkunum leiðtogahópi um umskipti í iðnaði til að flýta fyrir umskiptum yfir í jarðefnaeldsneytislausan þungaiðnað.

Markmið loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2019 er að hækka metnaðarstig á heimsvísu til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Takmarkið er að þjóðir heims hækki landsákvarðað framlag sitt á COP25 árið 2019 til að tryggja að lotfslagsbreytingar verði vel innan við 2°C, eða helst 1,5°C. Þetta felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu um 45 prósent á næstu tíu árum og ná kolefnisjafnvægi fyrir 2050.

UN Climate Action Summit 2019

From left: From left: President of Finland Sauli Niinistö, Prime Minister of Denmark Mette Frederiksen, Prime Minister of Iceland Katrin Jakobsdottir, Prime Minister of Sweden Stefan Löfven

Ljósmyndari
Johannes Berg / Norden.org

Náttúran nýtt til fulls við lotfslagsaðgerðir

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði Norðmenn bregðast við með auknum metnaði og aðgerðum til að ná sjálfbærnimarkmiðum SÞ og markmiðum Parísarsamningsins.

„Við munum hækka landsákvarðað framlag okkar samkvæmt Parísarsamningnum. Við hvetjum aðra til hins sama. Einnig hyggjumst við leggja fram til Sameinuðu þjóðanna stefnu um litla losun,“ sagði Solberg og bætti því við að Norðmenn hygðust fylgja eftir skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsamningnum og tvöfalda framlag sitt í Græna loftslagssjóðinn.

„Aukinheldur munum við áfram veita þjóðum sem draga úr skógareyðingu verulegan stuðning.“

Solberg vakti athygli á rannsókn sem High-level Panel for a Sustainable Ocean Economy gaf út og sýnir hvernig hafið getur boðið upp á þær lausnir sem til þarf. Loftslagsaðgerðir tengdar hafinu geta minnkað útblástursbilið um 21 prósent fyrir árið 2050.

„Sjálfbært og heilbrigt hagkerfi hafsins er þýðingarmikið í baráttunni gegn lotfslagsbreytingum. Það skapar störf og veitir fæðuöryggi og stuðlar að verndun líffræðilegrar fjölbreytni,“ sagði Solberg.

Sjálfbært og heilbrigt hagkerfi hafsins er þýðingarmikið í baráttunni gegn lotfslagsbreytingum.

 

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðerra Íslands, sagði að Ísland hefði lýst því yfir að verða kolefnishlutlaust árið 2040.

„Fyrst og fremst þurfum við von. Ógnin er raunveruleg, en það eru lausnirnar sömuleiðis. Verður þetta dýrt? Já, en hrein orkuskipti voru ef til vill besta fjárfesting sem við gátum gert, bæði með tilliti til efnahags og lífsgæða,“ sagði Katrín.

...hrein orkuskipti voru ef til vill besta fjárfesting sem við gátum gert, bæði með tilliti til efnahags og lífsgæða.

 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði Danmörku hafa sannað að hrein orka og framfarir geti haldist í hendur og að nú hefði verið ákveðið „að setja markið enn hærra“.

„Í fyrra sameinaðist danska þingið um að setja sér það markmið að ná kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2050. Í ár setti hin nýmyndaða ríkisstjórn mín markið enn hærra. Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent fyrir 2030 – hugsið ykkur, er það hægt?“ sagði Frederiksen.

„Við ætlum að stórauka skógrækt í Danmörku.“

„Ef þetta væri ekki erfitt væri það ekki nógu metnaðarfullt,“ sagði Frederiksen og bætti því við að bæði markmiðin yrðu lagalega bindandi.

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent fyrir 2030 – hugsið ykkur, er það hægt?

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur

Samhljóma skilaboð norrænu forsætisráðherranna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2019 eru að Norðurlönd stefni að því að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.