Jens Stoltenberg gestaræðumaður á þingi Norðurlandaráðs

10.10.23 | Fréttir
NATO:s generalsekreterare Jens Stoltenberg

NATO:s generalsekreterare Jens Stoltenberg

Photographer
NATO
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, verður gestaræðumaður á þingi Norðurlandaráðs í Ósló 31. október. Þema ræðunnar verður NATO og Norðurlönd í ljósi nýs veruleika í öryggismálum og í kjölfarið verður þingmönnum Norðurlandaráðs gefið færi á að bera upp spurningar. Stoltenberg flytur ræðu sína strax að lokinni þingsetningu þriðjudaginn 31. október kl. 14.00 að norskum tíma.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur að fá framkvæmdastjóra NATO sem gestaræðumann þegar stjórnmálafólk frá öllum Norrænu löndunum kemur saman í Ósló. Öryggismálin eru ofarlega á baugi í norrænu samstarfi, ekki síst í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu. „Örugg, græn og ung Norðurlönd“ eru eitt af áhersluatriðunum í formennskuáætlun Noregs og samstarf á sviði varnarmála eru forsenda öruggra Norðurlanda. Brátt verða öll norrænu löndin orðin aðilar að NATO og við viljum ræða þýðingu þess fyrir norrænt öryggi og norrænt samstarf við Stoltenberg,“ segir Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs.

Á hverju ári býður Norðurlandaráð þekktum gestaræðumanni á þingið. Stoltenberg var líka gestaræðumaður á þinginu 2021 og þá voru varnarmál einnig umfjöllunarefnið. Í fyrra ávarpaði forseti Finnlands, Sauli Niinistö, þingið og fjallaði um svipuð málefni, þ.e. mikilvægi norræns samstarfs með tilliti til breyttrar stöðu í öryggismálum.

Öryggismál æ mikilvægari

Frá aldamótum hafa varnar- og öryggismál hlotið æ meira vægi í norrænu samstarfi. Það er mikil breyting frá því sem áður var þegar þessi málefni voru alls ekki rædd á vettvangi Norðurlandaráðs. Frá árinu 2009 hefur Nordefco (Nordic Defence Cooperation) verið vettvangur norræns varnarsamstarfs. Ekkert samstarf á sviði varnarmála á sér stað innan Norrænu ráðherranefndarinnar.

75. þing Norðurlandaráðs fer fram í Stórþinginu í Ósló dagana 30. október til 2. nóvember. Þingið er haldið ár hvert í því landi sem fer með formennsku í Norðurlandaráði. Á þinginu fjalla þingmennirnir 87 um nýjar tillögur og hlýða á greinargerðir frá forsætisráðherrum norrænu landanna og öðrum ráðherrum um vinnu ríkisstjórnanna að þeim tilmælum sem frá Norðurlandaráði hafa komið.