Líðan ungs fólks á dagskrá í stefnumótun

03.12.20 | Fréttir
Demokrati for unge liv
Ljósmyndari
norden.org
Flestu ungu fólki líður vel en þeim fer þó fjölgandi sem líður ekki vel. Norrænu menntamálaráðherrarnir hyggjast nú beina sjónum að þessu málefni. Hvers vegna gerist þetta og hvert getur framlag menntageirans verið til þess að bæta líðan ungs fólks?

Í nýju framtíðarsýninni fyrir norrænt samstarf er sérstök áhersla lögð á samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd þar sem stuðlað er að þekkingu, samþættingu og samheldni. Mikilvæg forsenda þess að framtíðarsýnin gangi eftir er að ungu fólki líði vel. Þá skiptir miklu að koma í veg fyrir vanlíðan. Félagsleg einangrun í heimsfaraldrinum sem nú stendur yfir hefur ekki síst fjölgað ungu fólki sem líður illa.

Áfram er staðan þannig að ungu fólki úr fjölskyldum þar sem menntun er lítil og tekjur lágar er líklegra til að líða illa og vera í áhættuhópi en nú fjölgar einnig ungu fólki úr félagslega og efnahagslega vel settum fjölskyldum sem líður illa. Danski mennta- og rannsóknarmálaráðherrann, Ane Halsboe-Jørgensen, hefur áhyggjur af unga fólkinu en dáist að því um leið.

„Ég dáist að því hvernig unga fólkið okkar tekst á við faraldurinn. Það styður tilmælin sem gefin eru út, tekur virkan þátt í menntun sinni og finnur í sameiningu nýjar leiðir. En við verðum að horfast í augu við að þetta eru líka erfiðir tímar og þeir geta reynst mörgum þungbærir. Kannski þurfum meira en nokkru sinni áður á samneyti að halda. Þess vegna er ég ánægð með að við náum að beina sjónum að því þvert á Norðurlönd hvernig unga fólkið hefur það – bæði nú og almennt. Við getum lært margt hvert af öðru,“ segir Ane Halsboe-Jørgensen.

Norræna samfélagslíkanið hefur stuðlað að félagslegum hreyfanleika og skapað tækifæri til sjálfsþroska. Þetta er æskileg þróun á allan hátt en skuggahliðar eru alltaf fyrir hendi.

Í samfélagi dagsins í dag hefur orðið til mikil áhersla á afrek - og þau eiga að vera flott. Það sem er venjulegt er ekki nógu gott lengur. Hugmyndin um fullkomleikann er hið nýja viðmið.

Um leið er vanlíðan ungs fólks margþætt vandamál og getur átt rætur í mörgum þáttum. Bent er á ýmis vandamál sem tengjast samfélagsmiðlum, stafrænni þróun og skorti á raunverulegum tengslum en menntun skiptir þarna líka máli. Meðal annars er um að ræða aukinn frammistöðukvíða.

Almenn tilhneiging til þess að prófa nemendur jafnt og þétt getur stuðlað að því að menntun sé tengd við stöðugt álag. Rannsóknir sýna einnig að frammistöðukvíðinn tengist unga fólkinu sjálfu, foreldrunum, menntakerfinu og samfélagsumræðu. Unga fólkið segir að það vanti samneyti í tengslum við menntun sína.

Danska formennskan leggur áherslu á að skoða hver hlutur menntakerfisins getur verið í því að stuðla að því að unga fólkinu líði betur faglega og félagslega.

 

Norrænu menntamálaráðherrarnir ætla að standa að rannsókn sem á að kortleggja aðgerðir sem hafa góð áhrif á liðan ungs fólks.  Á stafrænum fundi fimmtudaginn 3. desember skiptust mennta- og rannsóknarmálaráðherrarnir á þekkingu og reynslu á þessu sviði. Danmörk hyggst standa að alþjóðlegri ráðstefnu með áherslu á liðan á árinu 2021.