Norræn sendiráð geta orðið enn mikilvægari málsvarar jafnréttis

26.09.23 | Fréttir
jämställdhetsministrar på Harpa
Photographer
Sigurjon Ragnar
Norrænu jafnréttisráðherrarnir halda áfram að vinna á móti andstöðu við jafnrétti í heiminum. Ráðherrarnir vilja meðal annars vinna með norrænum sendiráðum í völdum löndum að jöfnum réttindum til handa konum og LGBTI fólki. Einnig munu ráðherrarnir setja af stað rannsókn á karlmennsku og viðhorfi karla á Norðurlöndum til jafnréttis.

„Það er gríðarlega mikilvægt að halda áfram baráttunni gegn bakslaginu gegn jafnrétti kynjanna og LGBTI samfélaginu. Við höfum langa og góða reynslu af norrænu samstarfi á sviði jafnréttismála og í málefnum LGBTI og það er skylda okkar að leggja okkar af mörkum þar sem réttindi kvenna og LGBTI fólks eiga undir högg að sækja,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætis- og jafnréttisráðherra Íslands, sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár.

Skert lífskjör og réttindi

Þegar fyrir tveimur árum byrjuðu ráðherrarnir að ræða nýtt bakslag í jafnréttismálum almennt og einkum þegar kemur að réttindum stúlkna, kvenna og LGBTI fólks.

Það lýsir sér meðal annars með skertum rétti til kynfrelsis og barneigna í mörgum löndum, auknu netníði sem oftar beinist gegn konum um allan heim og ofbeldi gegn LGBTI fólki og skerðingu á lífskjörum þess.

Samróma boðskapur Norðurlanda

Í „Pushing back the push-back, a Nordic Roadmap“ frá 2022 lýsa norrænu jafnréttisráðherrarnir því hvernig þeir vilja meðal annars mæta andstöðunni með því að tala einum norrænum rómi í jafnréttis- og réttindamálum og skapa þrýsting í tengslum við alþjóðlegar viðræður og fundi. 

Nýjar aðgerðir

Á jafnréttisfundi Sameinuðu þjóðanna, CSW67, í New York í mars ræddu norrænu jafnréttisráðherrarnir meðal annars lausnir á kynbundnu netníði og boðskapurinn fór ekki á milli mála: „Norðurlönd eru tilbúin að snúa vörn í sókn í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.“ 

Á fundi sínum í Reykjavík þann 26. september ákváðu jafnréttisráðherrarnir að halda áfram aðgerðum sínum í tengslum við „Pushing back the push-back“. 

Átak á að koma í veg fyrir hatur meðal ungs fólks

Aðgerðirnar sem ráðherrarnir samþykktu lúta meðal annars að vitundarvakningarátaki fyrir unga Norðurlandabúa sem ætlað er að koma í veg fyrir hatursorðræðu og áreitni.

Þá samþykktu ráðherrarnir að fjármagna nýja rannsókn um karlmennsku og sýn karla á jafnrétti á Norðurlöndum.

Einnig munu ráðherrarnir setja í gang stefnumótandi vinnu með völdum sendiráðum víðs vegar um heiminn til að vinna gegn bakslaginu í jafnréttismálum.


Það getur meðal annars falist í samstarfi við samtök sem vinna að jafnrétti og réttindum LGBTI fólks eða skoðanamyndandi vinnu.

„Mikilvægara en nokkru sinni“

Aðgerðirnar hefjast á næsta ári, 2024, undir formennsku Svíþjóðar í ráðherranefndinni.

„Norðurlönd eiga að vera drifkraftur í alþjóðlegu jafnréttisstarfi og stuðla að jöfnum réttindum til handa LGBTI fólki. Ef til vill er það mikilvægara en nokkru sinni. Sem jafnréttisráðherra Svíþjóðar hlakka ég til að taka við formennsku í ráðherranefndinni um jafnréttismál á næsta ári og vinna að þessum norrænu grundvallargildum,“ segir Paulina Brandberg, jafnréttisráðherra Svíþjóðar.