Lýðræðisvika WorldPride í Kaupmannahöfn opnuð með norrænni pallborðsumræðu

05.07.21 | Fréttir
bildcollage av åtta panelister
Ljósmyndari
norden.org
Málþingið Human Righs Forum á WorldPride hefst á norrænni umræðu um lífskjör LGBTI-ungmenna þann 16. ágúst í Kaupmannahöfn. 100 aðgöngumiðar verða í boði – en einnig verður hægt að fylgjast með beinu streymi á YouTube eða stórum útiskjá.

Málþingið Human Righs Forum er fastur liður í dagskrá WorldPride og þar fer fram lýðræðishátíð með umræðum og málstofum. Málþingið stendur yfir 17.–19. ágúst á vegum Copenhagen2021.   

Málþing ársins verður opnað undir merkjum norræns samstarfs með umræðunni „Nordic ministers gather forces for young LGBTI people’s wellbeing“ þann 16. ágúst kl. 10:00–11:30 (CEST).

Fimm ráðherrar og erindreki SÞ

Fimm norrænir ráðherrar á sviði jafnréttis og LGBTI-réttinda taka þátt í umræðunum auk Jayathma Wickramanayake, erindreka Sameinuðu þjóðanna í málefnum ungs fólks.

Umræðustjóri er Jani Toivola, leikari og rithöfundur.    

Þau taka þátt í pallborðsumræðunum:

  • Thomas Blomqvist, ráðherra norræns samstarfs og jafnréttismála í Finnlandi
  • Peter Hummelgaard, jafnréttisráðherra Danmerkur
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands (ávarpar fundinn rafrænt) 
  • Märta Stenevi, ráðherra jafnréttis- og húsnæðismála í Svíþjóð
  • Abid Raja, ráðherra menningar- og jafnréttismála í Noregi
  • Jayathma Wickramanayake, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum ungs fólks

Ný skýrsla um líðan ungmenna

Um leið verður kynnt ný skýrsla, „Hälsa, välmående och livsvillkor bland unga LGBTI-personer i Norden“ („Heilsa, vellíðan og lífskjör LGBTI-ungmenna á Norðurlöndum“). Fræðikonan Anna Siverskog kynnir skýrsluna. 

„Jafnvel þótt norrænu löndin gegni forystuhlutverki að mörgu leyti eigum við enn langt í land með að skapa samfélag fyrir alla. Ég hlakka til að ræða það hvernig við í norrænu samstarfi getum stuðlað að aukinni vellíðan meðal LGBTI-ungmenna,“ segir Thomas Blomqvist, sem er formaður ráðherranefndarinnar um jafnréttismál og LGBTI-málefni. 

 

Frá árinu 2019 hafa LGBTI-málefni verið pólitískt samstarfssvið á Norðurlöndum og árið 2020 lét Norræna ráðherranefndin vinna fyrstu svæðisbundnu áætlun í heimi um málefni LGBTI-fólks.