Norðurlandaráð styður lýðræðisöflin í Póllandi

10.03.20 | Fréttir
Nordiska rådet besökte polska senaten den 9-10 mars 2020.
Ljósmyndari
Marta Marchlewska/Kancelaria Senatu

Á myndinni: Michael Tetzschner (fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs), Tomasz Grodzki (forseti öldungadeildar pólska þingsins), Silja Dögg Gunnarsdóttir (forseti Norðurlandaráðs), Erkki Tuomioja (fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs) og Gabriela Morawska-Stanecka (varaforseti öldungadeildar pólska þingsins).

Lýðræði, mannréttindi og öryggismál voru á dagskrá heimsóknar Norðurlandaráðs til pólska þingsins 9. og 10. mars. Forseti öldungadeildarinnar, Tomasz Grodzki sem er þingmaður stjórnarandstöðunnar, bauð Norðurlandaráði til þessarar heimsóknar.

Hún á upphaf sitt í því að Silja Dögg Gunnarsdóttir núverandi forseti Norðurlandaráðs og Hans Wallmark þáverandi forseti ráðsins hittu Tomasz Grodzki á Eystrasaltsþinginu í Riga í nóvember 2019. Að fundi þeirra loknum bauð Tomasz Grodzki Norðurlandaráði í heimsókn til öldungadeildar pólska þingsins með það að markmiði að taka upp að nýju og styrkja samstarfið við Norðurlöndin.

Samstarf milli pólska þingsins og Norðurlandaráðs hefur legið niðri síðan 2015 þegar þjóðernisflokkurinn Lög og réttur (PIS) komst til valda

Gott samband mikilvægt

Silja Dögg Gunnarsdóttir sem fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs í heimsókninni lagði áherslu á að miklu máli skipti að styrkja sambandið við Pólland, ekki síst nú þegar stjórnarflokkurinn PIS stendur að breytingum sem líta má á sem ógn við lýðræðið og grundvallarreglur réttarríkisins.

„Þróunin í Póllandi er mikið áhyggjuefni. Umdeildar breytingar á dómskerfinu, afskipti valdhafa af störfum fjölmiðla og afstaðan til hinsegin fólks er bæði á skjön við mína sannfæringu og þau lýðræðislegu gildi sem Norðurlandaráð stendur fyrir. Það er afar mikilvægt að halda góðu sambandi við pólska félaga okkar og sýna öflugan stuðning við þær lýðræðisraddir sem heyrast í Póllandi,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Pólland mikilvægur samstarfsaðili Norðurlanda

Fulltrúar PIS sitja bæði á stóli forseta og forsætisráðherra í Póllandi, auk þess að hafa meirihluta í Sejm sem er neðri deild pólska þingsins. PIS hefur á undanförnum árum staðið að ýmsum breytingum sem fara gegn grunngildum Evrópusambandsins og hefur það leitt til þess að bæði framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþingið hafa beint harðri gagnrýni að pólskum stjórnvöldum.

Öldungadeildin er nú ein fárra stofnana í Póllandi þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta.

Pólland er mikilvægur samstarfaðili og viðskiptaaðili fyrir Norðurlöndin, auk þess sem landið skiptir miklu máli á Eystrasaltssvæðinu. Auk þess eru tugþúsundir Pólverjar búsettir á Norðurlöndum. Það var því nærtækt að ræða um aðstæður Pólverja sem búa og starfa á Norðurlöndum í heimsókninni.

Norðurlandaráð hitti einnig utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar. Á þeim fundi var sjónum beint að öryggismálum og sérstaklega stöðunni í Úkraínu.

Þá var fjallað um upplýsingaóreiðu og falsfréttir í heimsókninni. Falsfréttir er meðal forgangsmálefna Íslands sem gegnir formennsku í Norðurlandaráði. 

Sendinefnd Norðurlandaráðs var skipuð Silju Dögg Gunnarsdóttur ásamt Michael Tetzschner (Noregi) og Erkki Tuomioja (Finnlandi) sem báðir eru fulltrúar í forsætisnefnd.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.