Pólitísk skuldbinding: Minni matarsóun fyrir græn Norðurlönd

10.08.23 | Yfirlýsing
Norrænir ráðherrar sjávarútvegs, landbúnaðar, matvæla og skógræktar funduðu í Keflavík 21. ágúst 2023 til þess að endurnýja skuldbindingar varðandi heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og Framtíðarsýn Norðurlanda fyrir 2030 um að minnka matarsóun um helming fyrir 2030.

Upplýsingar

Við, norrænir ráðherrar sjávarútvegs, landbúnaðar, matvæla og skógræktar, erum sammála um að minnka matarsóun um helming á Norðurlöndum fyrir 2030. Við endurnýjum í dag skuldbindingar landanna varðandi heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun og Framtíðarsýn Norðurlanda fyrir 2030. Við leggjum einnig áherslu á að minni matarsóun er mikilvægt sjálfbærnimál vegna loftslags og umhverfis en einnig til þess að sjálfbær, viðnámsþolin og samkeppnishæf matvælakerfi geti orðið að veruleika.

 

Við erum staðráðin í að vinna með virkum hætti gegn matarsóun. Til að það verði að veruleika hvetjum við til aukins samstarfs innan matvælakerfanna í heild. Framlag Norrænu ráðherranefndarinnar á að vera gegnum aukið samstarf og mun hún efna til nýs samstarfs sem getur hert róðurinn. Við getum lært hvert af öðru af því sem hefur tekist vel en einnig því sem hefur miður farið á Norðurlöndum til þess að auka hraðann á landsvísu, svæðisbundið og alþjóðlega.

 

Í dag ýtum við úr vör mörgum sameiginlegum aðgerðum til þess að herða róðurinn á okkar svæði. Matarsóun er mikilvægt málefni sem við munum halda áfram að fjalla um í norrænu samstarfi og hjálpast að við að leysa. Við viljum einnig vera hvetjandi á alþjóðavísu, bæði með því að læra af öðrum og miðla reynslu okkar.

 

Loftslags- og umhverfisbreytingar eru meðal stærstu áskorana okkar tíma. Þær ógna afkomu fólks, fæðuframboði og matvælaöryggi og sömuleiðis aðgangi að hreinu vatni og lofti. Þessar breytingar hafa áhrif á okkur öll og öll lönd bera ábyrgð á því að draga úr skaðlegum áhrifum sínum á loftslag og umhverfi. Minni sóun er mikilvægur liður í lausn.

 

Sjálfbær matvælakerfi eru forsenda þess að hægt verði að ná heimsmarkmiðunum en á Norðurlöndum er 3,6 tonnum af matvælum nú fleygt eða látin skemmast á hverju ári. Þetta er gríðarleg auðlindasóun sem auk þess veldur mikilli losun. Norðurlönd standa saman um að byggja upp sjálfbær og samkeppnishæf matvælakerfi. Við verðum að leggjast á eitt um að draga úr losun og nýta auðlindirnar betur.

 

Matarsóun er ekki bara loftslagsáskorun. Auðlindasóunin er líka efnahagslegt viðfangsefni sem snýst um að efla samkeppnishæfni. Sömuleiðis er hún siðfræðilegt viðfangsefni þegar fjöldi fólks býr við fæðuskort. Þá er matarsóun almannavarnamál og hefur vægi þess aukist eftir innrás Rússlands í Úkraínu.

 

Við buðum sérfræðingum, fyrirtækjum og félagasamtökum frá öllum Norðurlöndum á Nordic Food Waste Summit 2023. Ráðstefnan markaði upphaf aukins samstarfs landanna og í niðurstöðum hennar voru margar mikilvægar tillögur fyrir norrænt samstarf. Norræna ráðherranefndin skuldbindur sig nú til að fylgja ráðstefnunni eftir og stuðla að öflugur norrænu samstarfi um hertan róður og tafarlausar aðgerðir.

Norræna ráðherranefndin skuldbindur sig til að vinna að 12. heimsmarkmiðinu, einkum markmiði 12.3, í löndunum, á svæðinu og á heimsvísu. Þetta verður gert með ýmsum aðgerðum, meðal annars:

 

  • Að beina sjónum að mikilvægi matarsóunar fyrir umhverfi og loftslag. Minni sóun bætir auðlindanýtni og dregur úr skaðlegum áhrifum okkar á jörðina. Norðurlöndin taka ábyrgð á þessu á landsvísu og í svæðisbundnu samstarfi landanna. Sömuleiðis munu Norðurlöndin vinna saman að því að vekja máls á þessu mikilvæga málefni á heimsvísu, til dæmis á loftslagsráðstefnu SÞ, COP28, en þar munu Norðurlöndin miðla lausnum sínum en einnig læra af öðrum.
  • Sum Norðurlandanna eru með valfrjálsa samninga um að draga úr matarsóun og í sumum landanna standa yfir umræður og rannsóknir vegna frekari lagasetningar. Þess vegna mun Norræna ráðherranefndin standa að samtali um aukinn árangur og samstarf milli þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum í löndunum.
  • Norræna ráðherranefndin verður gestgjafi fyrir óformlegt tengslanet sérfræðinga og embættisfólks í stofnunum og ráðuneytum landanna til þess að þau geti lært hvert af öðru og með auðveldari hætti en nú hjálpað hvert öðru við gerð landsbundinna áætlana um minnkun matarsóunar.
  • Norræna ráðherranefndin vinnur nú að handbók með bestu starfsvenjum fyrir stefnumótun og aðgerðir sem dregið geta út matarsóun. Í handbókinni verður greint frá dæmum sem gefið hafa góða raun í löndunum og geta nýst í starfi hinna landanna.

MR-FJLS

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, Íslandi

Høgni Hoydal, utanríkis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Færeyjum 

Peter Kullgren, landsbyggðaráðherra, Svíþjóð

Christian Wikström, innviða- og umhverfisráðherra, Álandseyjum 

Sandra Borch, landbúnaðar- og matvælaráðherra, Noregi 

Ole Henrik Krat Bjørkholt, ráðuneytisstjóri heilbrigðis- og umönnunarráðuneytisins, Noregi 

Kristina Sigurdsdatter Hansen, ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og atvinnumálaráðuneytisins, Noregi

Karl Tobiassen, sjávarútvegs- og veiðimálaráðherra, Grænlandi

Jesper Wulff Pedersen, skrifstofustjóri í matvælaráðuneytinu, Danmörku

Minna-Mari Kaila, deildarstjóri, Finnlandi, tók þátt fyrir hönd Sari Essayah, landbúnaðar- og skógræktarráðherra Finnlands

Contact information