Norðurlönd skipta meira máli en nokkru sinni fyrr

03.11.21 | Fréttir
Jonas Gahr Støre
Photographer
Magnus Fröderberg / norden.org
Noregur tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2022. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherrra Noregs ætlar að leggja sig fram um að Norðurlöndin nái markmiðum sínum um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir 2030.

„Samfélag norrænna þjóða er engu líkt. Grundvallargildi þjóðanna eru hin sömu og þeirra í milli ríkir mikið traust. Noregur vill efla norrænt samstarf. „Það er mjög skýrt í nýlegum stjórnarsáttmala okkar. Í heimi sem einkennist af auknum þrýstingi á réttaríkið og lýðræðið er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um norræna samheldni,“ segir Jonas Gahr Støre forsætisráðherra.

Formennska í Norrænu ráðherranefndinni fer milli norrænu ríkjanna fimm. Finnland fer með formennsku á þessu ári. Noregur tekur við kyndlinum 1. janúar 2022 og byggir formennskuáætlun sína á áherslusviðunum þremur í Framtíðarsýn 2030.

Græn Norðurlönd - Sjálfbær þróun krefst þess að okkur takist að sjá heildarsamhengið og að við finnum lausnir sem nýtast okkur sameiginlega. Á formennskutíma Noregs verður lögð áhersla á að fjalla um samhengið milli loftslags og náttúru, vinna gegn minnkandi fjölbreytileika lífríkisins og varpa ljósi á hvernig náttúrulegar lausnir geta stuðlað að grænum umskiptum.

Samkeppnishæf Norðurlönd - Vaxtarhæfni hagkerfisins til lengri tíma litið er einnig háð því að okkur takist að auka sjálfbærni bæði í framleiðslu og neyslu. Norðmenn hyggjast á formennskutíma sínum nýta þetta samstarf til að huga að uppbyggingu öflugs norræns atvinnulífs og vinnumarkaðar með mikið mótstöðuafl gegn nýjum kreppum.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd - Í heimi þar sem vegið er að réttarríkinu og lýðræðinu og grafið hefur undan traustinu milli almennings og stjórnvalda er mikilvægara en nokkru sinni áður að slá skjaldborg um sameiginleg gildi Norðurlandanna, en grundvöllur þeirra er sjálfbærni, þátttaka allra, lýðræði, opið samfélag, tjáningarfrelsi og jafnrétti. Þörfin á þessu hefur komið enn skýrar í ljós en áður í yfirstandandi faraldri.

Framtíðarsýn 2030 er framlag Norðurlandanna til þess að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsáttmálans. Framtíðarsýn 2030 og áætlun Evrópusambandsins í loftslagsmálum til ársins 2030 þjóna báðar sem skýr leiðarvísir í þeirri vinnu. Anne Beathe Tvinnereim samstarfsráðherra Noregs mun leiða norræna samstarfið árið 2022.

„Formennska Noregs beinir kastljósinu að því að hraða grænum umskiptum. Norðurlöndin standa einnig frammi fyrir mikill þörf fyrir græn umskipti. Ákvarðanir dagsins í dag hafa áhrif bæði á núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma. Styrkur okkar felst í því að á Norðurlöndum er það sameiginlegt metnaðarmál okkar að vera í fararbroddi ríkja heims þegar kemur að grænum umskiptum, samkeppnishæfni og sjálfbærni. Saman viljum við vera öðrum þjóðum fyrirmynd og stuðla að því að veröldin í heild nái markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þess vegna skiptir norrænt samstarf miklu máli fyrir Evrópu og allan heiminn,“ segir norræni samstarfsráðherrann, Anne Beathe Tvinnereim. 

Contact information