Ný skýrsla: Endurreisn menningargeirans eftir kórónuveirufaraldurinn

31.08.23 | Fréttir
Rapport: Kultursektorns återhämtning efter covid-19-pandemin
Photographer
Ernest Protasiewicz / Teater Viirus
Menningargeirinn var á meðal þeirra geira sem hvað verst varð fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum og jafnvel þótt hann sé nú um garð genginn gætir afleiðinga hans enn, m.a. í formi breyttra menningarvenja, neytenda sem ekki hafa skilað sér aftur og ótryggra skilyrða fyrir fagfólk í menningargeiranum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Kulturanalys Norden sem unnin var að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í hinni nýju skýrslu „Kultursektorns återhämtning och förändring efter covid-19-pandemin“ (Endurreisn og breytingar á menningargeiranum í kjölfar kórónuveirufaraldursins) sem kemur út í dag eru áhrif faraldursins á menningargeirann og breytingar á honum skoðaðar. Margt er líkt með menningarstefnu norrænu landanna og jafnframt var margt ólíkt með því hvernig þau nálguðust faraldurinn. Með aukinni reynslu urðu aðgerðirnar markvissari.

Neyðarstuðningur lagður af en áfram mikil óvissa innan geirans

Í skýrslunni kemur fram að öll norrænu löndin hafi tekist á við áhrif faraldursins með sérstökum neyðarstuðningi og úttektum á því hvernig endurreisn gæti átt sér stað. Umfang stuðningsins var misjafnt en faraldurinn sýndi fram á mikilvægi opinberra aðgerða í menningarmálum.

„Opinber fjárveiting er forsenda menningarlífs á Norðurlöndum og það kom berlega í ljós í faraldrinum. Opinber fjárveiting hélt menningargeiranum á floti en raddir um þörfina á auknu samstarfi á milli fjármögnunaraðila og einkageirans eru farnar að vera háværari. Við heyrum sífellt meira talað um skapandi atvinnugreinar,“ segir Maria Hirvi-Ijäs, sérfræðingur hjá Cupore, rannsóknarmiðstöð í menningarmálum, sem vann skýrsluna.

Í byrjun árs 2023 höfðu öll löndin afnumið neyðarstuðninginn. Á sama tíma hafa verðbólga og orkukreppa skapað ný vandamál.

„Það eru vísbendingar um endurreisn þegar kemur að atvinnuþátttöku í menningargeiranum en það á eftir að koma í ljós hvort sú endurreisn sé varanleg. Við vitum að neyðarstuðningurinn var mikilvægur og eigum eftir að sjá hvað verður um atvinnuþátttöku og efnahag til lengri tíma litið,“ segir Malin Weijmer hjá Kulturanalys Norden.

Faraldurinn leiddi í ljós brotalamir í tengslum við starfsskilyrði listafólks

Vandi menningargeirans í faraldrinum varpaði ljósi á kerfisleg vandamál sem í grunninn snúast um fjárhagsleg skilyrði listafólks til lengri tíma. Stórar stofnanir gátu í mörgum tilvikum styrkt fjárhagslega stöðu sína í faraldrinum á meðan sjálfstætt starfandi listamenn þurftu að taka mikla áhættu.

„Rannsóknin, og faraldurinn, sýna brotalamir í kerfinu sem snýr að starfskjörum og fjárhagslegu öryggi listafólks og margir hafa lýst reynslu af fjárhagskröggum og að lenda á milli skips og bryggju þegar neyðarstuðningnum var komið á,“ segir Malin Weijmer hjá Kulturanalys Norden.

Sökum þess hve sundurleitur menningargeirinn er voru aðstæður ólíkra undirsviða hans mjög misjafnar með tilliti til þess stuðnings sem í boði var og skilyrða fyrir honum.

Endurreist og breytt menningarþátttaka

Menningarþátttaka er að miklu leyti komin á sama stig og fyrir faraldurinn. Ákveðnir aldurshópar hafa þó ekki skilað sér að fullu til baka. Hægt er að túlka það sem svo að enn eimi eftir af þeim takmörkunum sem settar voru á opinbera viðburði. Þrátt fyrir mörg dæmi um að snarlega hafi tekist að skipta yfir í stafræna menningarviðburði höfðu ekki allir tækifæri á að laga starfsemi sína að nýjum forsendum. Jafnframt voru ekki allir vanir því að taka þátt í menningarviðburðum með stafrænum hætti.

„Kórónuveirufaraldurinn færði okkur nýjar leiðir í dreifingu á list og leiddi í ljós hvað felst í því að hittast í raunheimum eða á netinu. Sumum listformum, svo sem hljóðbókum og tónlist, er auðvelt að miðla stafrænt á meðan það er erfiðar með önnur form, svo sem leiklist og myndlist. Stafræna formið býður einnig upp á nýjar leiðir í listrænni sköpun og nú kemur gervigreindin sterk inn,“ segir Maria Hirvi-Ijäs.

Munurinn á ólíkum framleiðslu- og dreifingarlíkönum sýndi sig meðal annars í formi misjafnra tækifæra til að nýta sér stafvæðinguna í faraldrinum fjárhagslega.

Skýrslan frá Kulturanalys Norden var unnin af Cupore, rannsóknarmiðstöð í menningarmálum, að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Contact information