Ný skýrsla fjallar um viðhorf Norðurlandabúa til stefnunnar í loftslagsmálum

22.06.23 | Fréttir
mennesker shopping stockholm sommer
Photographer
Thomas Williams / Unsplash
Samkvæmt nýrri rannsókn er mikill meirihluti Norðurlandabúa sammála því að loftslagsbreytingar séu alvarlegt vandamál. Helmingurinn er sammála því að verja beri meira af almannafé til baráttunnar gegn þeim, jafnvel þótt það myndi kalla á aukna skattheimtu. Einn af hverjum fimm telur loftslagsaðgerðir þó ekki góðar fyrir efnahaginn og einn af hverjum fjórum hefur áhyggjur af því að störf geti verið í hættu.

Í nýrri skýrslu frá rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun, Nordregio, voru yfir fimm þúsund Norðurlandabúar spurðir að því hvaða áhrif þeir teldu að grænu umskiptin hefðu á sig eða kæmu til með að hafa í framtíðinni.

Rolf Elmér, framkvæmdastjóri Nordregio, hafði þetta að segja um skýrsluna:

„Tilgangur skýrslunnar er að greina áhyggjuefni almennings í tengslum við loftslagsvandann og sérstaklega hvort þeir telji loftslagspólitíkina hafa neikvæð félagsleg áhrif. Niðurstöður skýrslurnar munu mynda grunninn að verkfærakistu fyrir stefnumótun í loftslagsmálum á Norðurlöndum.“

 

Í skýrslunni kemur fram að mismunandi samfélagshópar upplifi áhrif loftslagsbreytinga og aðgerða til að vinna gegn þeim með ólíkum hætti. Það eru einkum konur, fólk með æðri menntun og fólk sem býr í þéttbýli sem hefur áhyggjur af loftslagsbreytingum á Norðurlöndum. Karlar, fólk með minni menntun, starfsfólk í kolefnisfrekum atvinnugreinum og fólk sem býr í dreifbýli hefur hins vegar meiri efasemdir og áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum loftslagsstefnunnar.

Niðurstöður skýrslurnar munu mynda grunninn að verkfærakistu fyrir stefnumótun í loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Rolf Elmér, framkvæmdastjóri Nordregio

Danir hafa mestar áhyggjur

Mestar eru áhyggjurnar í Danmörku þar sem 80 prósent telja vandamálið alvarlegt. Svíþjóð fylgir í kjölfarið þar sem hlutfallið er 75 prósent. Minnstar eru áhyggjurnar í Finnlandi þar sem hlutfallið er 55 prósent. Svíþjóð er jafnframt það Norðurland þar sem mest jákvæðni ríkir gagnvart auknum opinberum útgjöldum til loftslagsmála en um leið það land þar sem flest segja loftslagsstefnuna hafa neikvæð áhrif á fjárhaginn.

Carlos Tapia, sem er einn af sérfræðingunum sem unnu skýrsluna, hefur þetta um hana að segja:

„Þetta er mjög áhugaverð niðurstaða varðandi Svíþjóð. Þrátt fyrir að Svíþjóð sé það land þar sem flest fólk segir að loftslagsstefnan hafi neikvæð áhrif á efnahag þess er það líka það land þar sem flest vilja leggja aukið fé í loftslagsmál, jafnvel þótt það kalli á skattahækkanir.“

Umræðan verður tekin í Almedalen

Fjallað verður um niðurstöður skýrslunnar á Almedalsvikunni þar sem rætt verður hvernig norrænu löndin geta hvert um sig útfært grænu umskiptin með réttlátum hætti fyrir öll. En hvernig tryggjum við réttlát græn umskipti þegar skýrslan sýnir greinilegan mun á því hvernig Norðurlandabúar upplifa áhrif loftslagsstefnunnar?

„Það er úrlausnarefni sem kallar á víðtækt samstarf ólíkra hluta samfélagsins. Almedalsvikan er mikilvægur vettvangur þar sem við getum rætt hvernig við getum útfært sjálfbær græn umskipti okkur öllum í hag,“ segir Anna Lundgren, sérfræðingur og verkefnisstjóri skýrslunnar sem taka mun þátt í pallborðsumræðum í Norðurlandatjaldinu í Almedalsvikunni.

 

Með henni í pallborði verða Maria Stockhaus, þingmaður í Svíþjóð, Åsa Persson, yfirmaður rannsókna við Stockholm Environment Institute (SEI), Magnus Gissler, framkvæmdastjóri Samtaka norrænna verkalýðsfélaga (LFS), Signe Krantz, starfsþróunarstjóri og verkefnastjóri hjá Landssambandi ungmennafélaga í Svíþjóð (LSU) og Nora Sánchez Gassen, sérfræðingur hjá Nordregio og einn höfunda skýrslunnar. Þau munu ræða hvaða úrlausnarefnum öll norrænu löndin standa frammi fyrir vegna grænu umskiptanna og hvernig skuli leysa þau.

Ekki bara græn umskipti

Skýrslan er hluti af verkefninu NJUST, „Not just a green transition“. Þetta er þriðja skýrslan í röð rannsókna þar sem sjónum er beint að því hvaða áhrif grænu umskiptin hafa á viðkvæma hópa í samfélaginu.

Hér má lesa fyrri skýrslurnar tvær:

Nordregio tekur þátt í mörgum verkefnum sem varpa ljósi á grænu umskiptin frá mismunandi sjónarhornum. Markmið okkar er að vera leiðandi rannsóknarstofnun innan norræns samstarfs og leggja okkar af mörkum til sjálfbærra umskipta. Þverfaglegar rannsóknir Nordregio stuðla að uppfyllingu framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Rolf Elmér, framkvæmdastjóri Nordregio