Öflugur stuðningur Norðurlanda við alþjóðlega plastsáttmálann

19.09.23 | Fréttir
Brian Yurasits/unsplash
Ljósmyndari
Brian Yurasits/Unsplash
Ný skýrsla sem kynnt var í dag á loftslagsvikunni í New York sýnir að með samræmdum, alþjóðlegum reglum væri hægt að minnka árlega losun óþarfa plastúrgangs um 90 prósent. Skýrslunni er ætlað að vera vegvísir í samningaviðræðunum um lagalega bindandi alþjóðasamning til þess að stöðva plastmengun fyrir árið 2040.

„Plastmengun er alls staðar. Verði ekki gripið til nýrra og skilvirkra takmörkunarráðstafana mun óþarfa plastúrgangur tvöfaldast á næstu tuttugu árum. Nú höfum við tækifæri til að þróa árangursríkan plastsáttmála fyrir lok árs 2024. Vinnum saman að því að draga úr framleiðslu og notkun plasts, stuðlum að öruggu hringrásarhagkerfi og bindum enda á plastmengun fyrir árið 2040 til að vernda heilsu manna og  umhverfisins,“ segir loftslags- og umhverfisráðherra  Noregs,  Espen Barth Eide. 

 

Í dag taka Norðurlönd enn eitt skrefið í viðleitni sinni til að stuðla að gerð metnaðarfulls, alþjóðlegs samkomulags um plast með skýrslunni Towards Ending Plastic Pollution by 2040: 15 Global Policy Interventions for Systems Change. Greiningin sýnir hvernig samstillt, alþjóðlegt átak gæti bundið enda á plastmengun fyrir árið 2040.

Brýn þörf á bindandi alþjóðlegum reglum

„Það er afar brýnt að þjóðir heims komi sér saman um metnaðarfullan, alþjóðlega og lagalega bindandi samning ef við eigum að ná að koma í veg fyrir þann vanda sem plastmengun er í eitt skipti fyrir öll. Til þess að ná því markmiði verðum við að framleiða minna plast og hanna vörur upp á nýtt til þess að útrýma svokölluðum „vanhugsuðum“ plastvörum, þ.e. vörum með skamman líftíma, og skipta yfir í önnur efni en plast ásamt því að efla kerfi í kringum meðhöndlun úrgangs. Það er það minnsta sem við getum gert fyrir komandi kynslóðir sem munu erfa þessa einu jörð sem við eigum,“ segir Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfissstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). 

 

Skýrslan undirstrikar hversu brýnt það er að setja alþjóðlegar, bindandi reglur í væntanlegum alþjóðasáttmála um plastmengun og bent er á að þörf sé á frekari og öflugri aðgerðum til að koma að fullu í veg fyrir hvers kyns plastmengun og samræma plastkerfið við Parísarsamkomulagið. Í skýrslunni er jafnframt varað við vaxandi plastmengun ef róttækar stefnur verða ekki innleiddar á alþjóðavísu.  

Barátta gegn plastúrgangi á heimsvísu

„Skýrslan sem við kynnum í dag er skýrt merki um það sem við getum áorkað þegar við vinnum saman að sameiginlegu markmiði. Ég er stolt af því uppbyggilega og öfluga hlutverki sem norræn samvinna gegnir í alþjóðlegri baráttu gegn plastmengun“, segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Systemiq vann skýrsluna að beiðni  Norrænu ráðherranefndarinnar um loftslags- og umhverfismál.

Þekkingargrunnur samningaviðræðna

Norðurlöndin hafa lengi unnið ötullega að því að tryggja lagalega bindandi alþjóðasamning um plastmengun í hafi, meðal annars með því að byggja upp traustan þekkingargrunn fyrir samningaviðræður með skýrslunum „International sustainability criteria for plastic products in a global agreement on plastic pollution“ og „Possible elements of a new global agreement to prevent plastic pollution“. 

Norræn markmið um plast

Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda hafa í tvígang undirritað ráðherrayfirlýsingar um sameiginleg norræn markmið í plastmálum. 

 

„Norræn ráðherrayfirlýsing um alþjóðasamning um plastmengun og markmið fyrir UNEA 5.2“ var undirrituð árið 2021 og „Norræn ráðherrayfirlýsing um þörfina á nýjum alþjóðasamningi til að koma í veg fyrir plastmengun í hafi“ var undirrituð árið 2020.