Öll Norðurlöndin í Nató: „Nýir tímar í norrænum varnarmálum“

22.11.22 | Fréttir
Stortinget Møte om nordisk forsvarssamarbeid
Ljósmyndari
Stortinget
Norrænt samstarf verður uppfært og eflt þegar Svíþjóð og Finnland hafa gengið í Nató. Þetta kom fram á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs, varnarmálanefnda norrænu þjóðþinganna og fulltrúa norræna varnarsamstarfsins Nordefco fyrir skemmstu.

„Nordefco fær enn meira vægi þegar öll norrænu löndin verða gengin í Nató. Nú er tækifæri til að samræma varnir Norðurlanda. Nordefco-samstarfið hefur gengið mjög vel og við þurfum að uppfæra það í takt við nýjan veruleika í öryggismálum,“ sagði Håkon Lunde Saxi, dósent við varnarmálaháskóla Noregs á fundinum.

The Nordic Defence Cooperation (Nordefco) var stofnað árið 2009 þegar staðan í öryggismálum var allt önnur en hún er í dag. Innrás Rússa í Úkraínu og væntanleg aðild Finna og Svía að Nató þýðir að laga verður norrænt samstarf að stöðu mála í dag.

Vegna nýrrar stöðu í öryggismálum og fyrirhugaðra breytinga á Nordefco bauð forsætisnefnd Norðurlandaráðs núverandi formanni Nordefco-samstarfsins, Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, og formönnum varnarmálanefnda norrænu þjóðþinganna til árlegra hringborðsumræðna sinna um varnarmál. Í ár voru umræðurnar haldnar í Stórþinginu í Ósló. Tilgangurinn var að ræða hvernig norrænt varnarmálasamstarf mun líta út í framtíðinni.

„Norrænir þingmenn láta sig það miklu varða hvernig norrænt varnarsamstarf mun þróast. Það er mikilvægt að hafa vettvang þar sem við getum rætt þessi mál við fulltrúa ríkisstjórnanna í norrænu varnarsamstarfi,“ segir Jorodd Asphjell, formaður landsdeildar Noregs í Norðurlandaráði og verðandi forseti ráðsins.

„Samræmum varnir Norðurlanda“

Yfirmenn varnarmála í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Danmörku skiluðu nýlega inn sameiginlegri ráðgjöf til ríkisstjórna sinna. Þeir lögðu fram skýra tillögu að því hvernig haga megi norrænu varnarsamstarfi þegar öll löndin verða orðin aðilar að Nató: Þeir vilja sjá nánara samstarf.

„Við mælum með nánu samstarfi og eins miklu sameiginlegu skipulagi og hægt er þegar kemur að vörnum Norðurlanda, sem einnig ætti að ná til allsherjarvarna,“ segir Eirik Kristoffersen, yfirmaður varnarmála í Noregi.

Fundurinn í Ósló þann 15. nóvember var upphitun fyrir fund varnarmálaráðherranna í Ósló í vikunni þar sem vinna mun hefjast við mótun breytts Nordefco.

„Nýir tímar í norrænum varnarmálum“

Einhugur var um það á fundi Norðurlandaráðs hjá bæði stjórnmálamönnum og fulltrúum hersins að aðild Svíþjóðar og Finnlands í Nató muni fela í sér fleiri tækifæri fyrir norrænt varnarsamstarf.

„Skoðið bara kort af Norðurlöndum. Aðildin gerir okkur kleift að nota lofthelgina yfir landamærunum. Það gefur okkur mun stærra svæði til að vinna á, fleiri stöðvar til að landa á og ekki síst gerir það okkur kleift að flytja herafla frá suðri til norðurs í gegnum Svíþjóð og Finnland. Sem aðilar að Nató þýðir það jafnframt að við eigum bandamenn sem eru skuldbundnir til að verja hver annan,“ segir Kristoffersen.

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, tekur í svipaðan streng og leggur áherslu á að Norðurlönd í Nató marki upphaf nýrra tíma í hernaðarlegu samstarfi á Norðurlöndum.

„Það leikur enginn vafi á því að aðild Svíþjóðar og Finnlands að Nató felur í sér nýja tíma í norrænum varnarmálum. Sameinuð Norðurlönd í Nató skapa mikil tækifæri fyrir norrænt varnarsamstarf,“ segir hann.

Ný framtíðarsýn fyrir Nordefco

„Nordefco verður endurnýjað innan ramma Nató. Á fundi varnarmálaráðherranna í Ósló í næstu viku munum við hefja vinnuna við nýja stefnu fyrir Nordefco,“ segir Arild Gram.

Norrænu varnarmálaráðherrarnir hefja vinnuna við uppfærða framtíðarsýn Nordefco í vikunni. Ný framtíðarsýn fyrir Nordefco verður kynnt árið 2023. Áhersla hennar verður á samræmdar norrænar varnir innan ramma Nató.

Örugg Norðurlönd

Noregur fer með formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári. Örugg Norðurlönd eru helsta forgangsmál formennskuáætlunarinnar.

„Í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu og aðildarumsókna Finnlands og Svíþjóðar í Nató hefur staðan í öryggismálum breyst. Þess vegna er umræðan um norrænt varnarsamstarf sérstaklega mikilvæg núna. Örugg Norðurlönd verða helsta forgangsmál formennskuáætlunar Norðmanna í Norðurlandaráði 2023,“ segir Asphjell.