Á matseðlinum: 24 leiðir í átt að breyttri matarneyslu
Nú í fyrsta sinn hefur helstu matvælalausnum frá Norðurlöndum verið safnað saman á einum stað. Þessi 24 dæmi um stefnubreytingar sýna hvernig færast má í átt að sjálfbærari matarneyslu. Lausnirnar snúa meðal annars að næringu, matarmenningu og -sérkennum, opinberum máltíðum, matarsóun og sjálfbæru mataræði.
Hver lausn ávarpar tiltekið vandamál og kynnir nýja og heildræna nálgun á matvælastefnu.
„Við störfum með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 að leiðarljósi. Matvæli eru lykilmálefni, viljum við að ná heimsmarkmiðunum. Við viljum því búa til metnaðarfull mataræðisviðmið sem stuðla að heilbrigðari og sjálfbærari matarneyslu“, segir Annica Sohlström, framkvæmdastjóri sænsku matvælastofnunarinnar.
Norrænt mataræði nýtur vinsælda
Í maí 2018 kom út skýrsla á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem sýndi að Nýtt norrænt mataræði - sem ein lausnin í leiðarvísinum snýr að - er í það minnsta eins heilsusamlegt og eins sjálfbært og Miðjarðarhafsmataræði. Nýtt norrænt mataræði á sér rætur í stefnuskrá fyrir Ný norræn matvæli sem skrifuð var árið 2004 og hlaut mikinn stuðning stjórnvalda á Norðurlöndum.
Stjórnvöld á Norðurlöndum taka til aðgerða til að tryggja að mataræði á Norðurlöndum sé bæði heilsusamlegt fyrir borgarana og fyrir jörðina. Við ættum öll að fylgja þeirra fordæmi
„Stjórnvöld á Norðurlöndum taka til aðgerða til að tryggja að mataræði á Norðurlöndum sé bæði heilsusamlegt fyrir borgarana og fyrir jörðina,“ segir Jessica Fanzo, hinn virti dósent við deild Alþjóðastefnumótunar og siðferðis í matvælaiðnaði og landbúnaði, og framkvæmdarstjóri við deild matvælastefnu og -siðferðis á heimsvísu við háskóla Johns Hopkins. „Við ættum öll að fylgja þeirra fordæmi.“
Leynileg innihaldsefni
Ný norræn matvæli og samstarfsverkefnið Norræn næringarviðmið eru þekkt verkefni sem stjórnmálafólk og aðrir aðilar hafa stuðst við. Nú hafa enn önnur verkefni, á borð við „Kaupmannahafnarlíkanið“ fyrir opinberar máltíðir, merkingar með næringarinnihaldi og svæðisbundna matargerð, einnig verið sögð geta hjálpað til við að mæta þeim áskorunum sem blasa við heimsbyggðinni.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fagnar því að næringarstefna og matarmenning og -sérkenni séu notuð til að berjast gegn smitlausum sjúkdómum og til að stuðla að sjálfbærari matarneyslu.
Þessi umfangsmikli leiðarvísir sýnir að matvælastefnur Norðurlanda eru vinsælar vegna þess að þær byggja á staðreyndum, eru lýðræðislegar, framsæknar, opnar, heildstæðar og sjálfbærar. Þessi „leynilegu innihaldsefni“ hafa hjálpað til við að koma í gegn veigamiklum breytingum.
„Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fagnar því að næringarstefna og matarmenning og -sérkenni séu notuð til að berjast gegn smitlausum sjúkdómum og til að stuðla að sjálfbærari matarneyslu,“, segir João Breda, yfirmaður Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um varnir og eftirlit með smitlausum sjúkdómum
Lagt á borð
Matvælastefna er ekki eins og aðrar stefnur. Hún snýst í minna mæli um reglugerðir og í meira mæli um skilning á hversdegi og gildum borgaranna. Reynsla Norðurlandanna af því að skapa langtímamatvælastefnu sýnir að það er mjög mikilvægt að fólk með mismunandi sjónarhorn komi að ferlinu. Það þarf bæði stjórnmál og samstarf til. Sem betur fer eru sífellt fleiri að átta sig á þessu.
Loksins eru stefnumótandi aðilar um allan heim farnir að átta sig á því að kokkar geta spilað veigamikið hlutverk í umræðu um matvælastefnu
„Loksins eru stefnumótandi aðilar um allan heim farnir að átta sig á því að kokkar geta spilað veigamikið hlutverk í umræðu um matvælastefnu, segir Mitchell Davis, varaframkvæmdastjóri við James Beard-stofnunina.
Innsýn í norræna matvælastefnu
Markmiðið með leiðarvísinum er að tryggja að áhugasamir aðilar hafi greiðan aðgang að reynslu Norðurlanda, bakgrunnsupplýsingum og staðreyndum. Leiðarvísinum er ætlað að koma af stað umræðum og hjálpa til við að ná ákveðnum markmiðum stjórnmálanna.
Leiðarvísirinn sýnir hvernig stjórnvöld á Norðurlöndum hafa notað matvælastefnur til að bregðast við kröfum vísindanna og neytenda eftir sjálfbærari og heilbrigðari matvælakerfum. Hann getur einnig varpað ljósi á sjálfbæra þróun á Norðurlöndum.
„Við viljum gera matvælakerfi okkar sjálfbærari, enda teljum við matvæli skipa veigamikinn þátt í loftslagsmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Norrænt verkefni um matvælastefnu
Leiðarvísirinn er afrakstur af vinnu Norræns verkefnis um matvælastefnu, sem er eitt sex flaggskipsverkefna undir framtaki forsætisráðherranna, Norrænum lausnum við hnattrænum áskorunum.