Sjálfbærninefndin: Gerum auknar umhverfiskröfur varðandi umbúðir

29.06.21 | Fréttir
Stor hög med lådor
Photographer
Boris Misevic/Unsplash
Í faraldrinum hefur netverslun aukist og með henni notkun á pappa-, plast- og öðrum umbúðum. Norræna sjálfbærninefndin kallar eftir samnorrænni stefnu um endurvinnslu og vill sjá fleiri Svansmerktar umbúðir.

Aldrei hefur eins miklu af umbúðum verið komið til endurvinnslu og í faraldrinum en að mati sjálfbærninefnarinnar verða neytendur að hafa enn betri tækifæri til að velja umhverfisvænar umbúðir.

Á fundi sínum á mánudag samþykkti nefndin að óska eftir pólitísku samráði við Norrænu ráðherranefndina um samnorræna stefnu um endurvinnslu. Þá vill nefndin stuðla að fjölgun Svansmerktra umbúða.

Sameiginleg stefna mikilvæg

Þegar fyrir einu ári beindi norræna sjálfbærninefndin þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda að þær mótuðu sameiginlega stefnu um endurvinnslu á öllum tegundum úrgangs.

Í svari við tilmælunum taldi Norræna ráðherranefndin upp aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í til að draga úr úrgangi á Norðurlöndum. Meðal annars voru nefnd samnorræn verkefni á sviði framleiðendaábyrgðar, endurvinnsla á vefnaðarvöru, hringrásarlíkön í viðskiptum, vistferilsmat á byggingarefni og minnkuð umhverfisáhrif af plasti.

 

Þrátt fyrir þessar aðgerðir telur nefndin þörf á heildarstefnu og býður því Norrænu ráðherranefndinni til pólitísks samráðs.

Fleri Svansmerktar umbúðir

Að undirlagi flokkahóps jafnaðarmanna vill nefndin einnig ýta undir fjölgun Svansmerktra umbúða.

 

„Í faraldrinum höfum við séð sprengingu í heimsendingum og efnisnotkun. Því vonumst við til að hin norræna umhverfisvottun okkar geti þróast í þá átt að ná til allra umbúða, einnig ytri umbúða. Starfsgreinasamtökin sjálf vilja einnig sjá auknar kröfur til umbúðaframleiðslu svo við getum dregið úr áhrifum á umhverfi og loftslag. Með þessari tillögu reynum við að koma til móts við þær óskir,“ segir Anna Vikström, þingmaður jafnaðarmanna á sænska þinginu og fulltrúi í sjálfbærninefndinni.

Kröfurnar aukast stöðugt

Nú þegar eru gerðar sértækar kröfur til umbúða allra Svansmerktra vara. Um er að ræða kröfur um hvaða efni skuli nota, magn umbúða og að hönnun varanna ýti undir endurnotkun. Kröfurnar aukast stöðugt í takt við vöruþróun.

 

Að sögn Karenar Dahl Jensen, yfirmanns vöruþróunar hjá Nordisk Miljömärkning, nær umhverfisvottunin nú þegar til helstu umbúðaflokka.

 

„Við erum sammála því að umbúðir, og einkum ytri umbúðir, skapa vanda fyrir umhverfið. Þegar við vinnum með kröfur sem gera á til vara leggjum við því einnig mikla áherslu á strangar kröfur til umbúða varanna. Þegar við tölum um umbúðir verður að hafa í huga að þær geta haft marga ólíka eiginleika, svo sem að vernda vöru í fljótandi formi eða viðkvæma vöru eða tryggja sjálfbærni. Kröfurnar þurfa auðvitað að taka mið af því,“ segir Karen Dahl Jensen.

 

Umhverfisvottaðir pítsukassar

Hún bendir á að innan Svansmerkisins séu nú þegar viðmið fyrir ákveðnar tegundir umbúða þar sem Nordisk Miljömärkning hefur metið það sem svo að það skipti máli fyrir umhverfið. Það á við um umbúðir fyrir matvæli á fljótandi formi og einnota umbúðir fyrir matvæli, svo sem drykkjarfernur og pítsukassa.

 

„Það nýjasta eru viðmið fyrir prentsmiðjur sem einnig hafa opnað fyrir vottun á ytri umbúðum til flutnings, svo sem í netverslun. Með öðrum orðum er Svansmerkið nú þegar mjög vel með á nótunum hvað kröfur til umbúða varðar,“ segir Karen Dahl Jensen