Sveigjanlegra atvinnulíf skapar von á svæðum sem hafa glímt við fólksfækkun

16.09.21 | Fréttir
tågendlare
Photographer
norden.org
Heimsfaraldurinn hefur aukið hreyfanleika milli borga og sveita og aukið áhuga á fjarvinnu og búsetu á landsbyggðinni. Norrænir ráðherrar byggðamála vilja grípa tækifærið sem þessi breyting felur í sér. Þeir hyggjast láta greina hvernig Norðurlöndin geta stutt þróunina svo hún skapi sjálfbærari vöxt í byggðunum.

Fjölgun fólks sem á fleiri en eitt heimili - sem sagt aukinn hreyfanleiki fólks með tilliti til búsetu, starfs, frístundaheimilis og fyrirtækja - var meginviðfangsefni byggðamálaráðherranna á fundi þeirra 16. september. 

Heimsfaraldurinn hefur gert Norðurlandabúa, fyrirtæki, menntastofnanir og stjórnvöld stafrænni og skapað nýjar aðstæður varðandi vinnu og fyrirtæki eru orðin minna háð staðsetningu. 

 

„Gildi þess að eiga fleiri en eitt heimili hefur komið skýrt í ljós í heimsfaraldrinum. Hreyfanleikinn er drifkraftur breytinga, hann hefur áhrif skipulag og skapar ný tækifæri fyrir hagkerfi byggðalaganna, fyrirtæki og aðgang að hæfu vinnuafli,“ segir Mika Lintilä, atvinnumálaráðherra Finnlands og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðaþróun.

Ný orka í byggðirnar 

Starfið er hægt að stunda úr sumarbústaðnum eða á fjarvinnuskrifstofu og segja skrifstofuhúsnæðinu í borginni upp. Sé vel haldið á málum getur þessi reynsla stuðlað að fólksflutningum á landsbyggðina og nýr þróttur getur færst í byggðalög sem hafa glímt við fólksfækkun. 

En hvernig er hægt að skapa pólitískan jarðveg fyrir þessar breytingar og stuðla um leið að sjálfbærri þróun? 

Það er langt frá því að búið sé að rannsaka afleiðingar þess fyrir loftslagið og umhverfið að fólk eigi fleiri en eitt heimili. Mun umferðin aukast eða minnka? Fjölgar fólki á landsbyggðinni? Hvernig er hægt að tryggja góð starfsskilyrði fyrir fólk sem vinnur þar sem það vill þegar það vill? Og hvernig á að bjóða fólki sem er búsett í fleiri en einu sveitarfélagi umönnun, öldrunarþjónustu og aðra opinbera þjónustu? 

Á Íslandi er verið að byggja upp aðstöðu fyrir fjarvinnufólk

Norrænu ráðherrarnir ræddu þetta málefni og miðluðu einnig dæmum um byggðastefnu landa sinna. 
Markmið Íslands um að 10 prósent opinberra starfa verði án staðsetningar var meðal þeirra dæma sem nefnd voru en nú er verið er að byggja stærstu skrifstofu til þessa fyrir fólk sem stundar fjarvinnu . 

„Það er mikilvægt að fjölga fjölbreyttum störfum á vegum hins opinbera um allt land ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Verkefnið „Störf án staðsetningar“ er liður í metnaðarfullri byggðaáætlun íslenskra stjórnvalda og felur í sér hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostlegt tækifæri til að vaxa og dafna. Með nútímasamskiptatækni er hægt að vinna fjölmörg störf hvar sem er án vandkvæða. Við viljum að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Miðstöðvar fyrir opinbert starfsfólk? 

Það er flókið og krefst aukinnar þekkingar að styðja pólitískt við þá þróun að algengara verði að fólki eigi fleiri en eitt heimili og stuðla jafnframt að sjálfbærri þróun í byggðunum.

„Góðir innviðir, þar með talið stafrænir innviðir, auka sveigjanleika og valfrelsi íbúanna og veita þar með sveitarstjórnarmálunum alveg ný tækifæri. Í Noregi viljum auðvelda fólki að eiga fleiri en eitt heimili, til dæmis með störfum án staðsetningar þar sem opinberir starfsmenn geta unnið frá sameiginlegum skrifstofum um allt land. Aukin þekking á tækifærum og áskorunum sem felast í að fólk eigi fleiri en eitt heimili mun gagnast öllum Norðurlöndunum og ég fagna samstarfi um þetta,“ segir Linda Hofstad Helleland, ráðherra sveitarstjórnarmála og stafrænnar þróunar í Noregi.

Vilja tillögur að úrræðum

Niðurstaða fundar ráðherranna var að hefja skyldi greiningu til að auka þekkingu á því afli sem felst í hreyfanleikanum, vandanum og áhrifum hans á strjálbýl svæði.

Í fyrsta hlutanum verða greind tækifæri og áskoranir landsbyggðarinnar í áframhaldandi tilhneigingu til þess að eiga fleiri en eitt heimili, í öðrum hlutanum hvaða uppbygging og stefnumótun þarf að koma til svo þróunin verði sjálfbær.