Það á að vera auðvelt fyrir okkur að vera loftslagsvæn

19.11.21 | Fréttir
grøntsagsmarked
Ljósmyndari
Milada Vigerova, Unsplash.com.
Mikil umframneysla er áskorun í öllum norrænu löndunum. Þess vegna þarf að gera Norðurlandabúum auðveldara að velja umhverfisvæna kosti. Norræna ráðherranefndin tekst á við áskorunina með fjögurra ára þverlægu verkefni.

Bæta á sjálfbærnisjónarmiði við næringarráðleggingarnar, Svansmerkið á að ná til nýrra vöruflokka og við ætlum að komast að því hvaða áhrif þættir á borð við kyn, aldur og félagslega stöðu hafa á neyslu okkar. Þetta er bara hluti af þeim áætlunum sem verkefnið „Sjálfbær lífsstíll“ nær yfir. Fram til ársins 2024 munu alls sex verkefni auðvelda Norðurlandabúum með mismunandi hætti að velja græna og sjálfbæra kosti í öllum kimum hversdagsins.

Algerlega nauðsynlegt

Loftslagsfótspor Norðurlanda er stórt og efnisnotkun fer enn vaxandi. Það má lesa úr nýrri skýrslu sem skrifuð var af Rambॲøll Management og gefin var út með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Þetta mikla loftslagsfótspor er stórt úrlausnarefni sem ekki verður leyst með einni aðgerð eða innan eins sviðs. Verkefnið er því til komið af þeirri augljósu nauðsyn að við Norðurlandabúar byrjum að velja sjálfbærari kosti í daglegu lífi okkar.

„Breytingar á lífsstíl snúast bæði um atferli, menningu og innviði, svo það er þörf á mismunandi lausnum. Með þessari áætlun viljum við skapa skilyrði fyrir varanlegum breytingum á lífsstíl okkar og ég held að það verði best gert þannig að við skoðum alla þætti lífs okkar,“ segir Inger Smærup verkefnisstjóri.

Ég tók lestina til Glasgow á COP26 í síðustu viku. Ég held að við höfum margs konar fordóma sem koma í ljós þegar við ætlum að breyta venjum okkar. Lestina? hugsum við. Það tekur langan tíma og er tímasóun. En ég held að við verðum að setja spurningarmerki við venjur okkar. Hvers vegna þarf allt að gerast svona hratt?

Alfons Röblom, ráðherra þróunar-, umhverfis-, húsnæðis- og orkumála á Álandseyjum.

Athygli frá stjórnmálamönnum

Verkefninu var ýtt úr vör föstudaginn 12. nóvember 2021 í norrænu COP26-miðstöðinni í Helsingfors. Fram fóru líflegar umræður þar sem sex verkefnastjórar verkefnisins greindu frá bakgrunni þess og ræddu væntingar sínar til árangurs.

„Sjálfbærar ákvarðanir ættu að vera sjálfgefnar en ekki eitthvað sem við þurfum sérstaklega að taka. Við viljum tryggja að kerfið styðji að sjálfbært val verði líka auðveldasta valið,“ sagði Julian Lo Curlo sem situr í norrænni nefnd sérfræðinga um sjálfbæra þróun.

Alfons Röblom, ráðherra þróunar-, umhverfis-, húsnæðis- og orkumála á Álandseyjum, lokaði umræðunum með stuttu erindi. Þar sagði hann meðal annars:

„Þetta verkefni hjálpar okkur að hugsa hlutina upp á nýtt og breyta venjum okkar. Það gengur út á að brúa bilið á milli hins gamla og þess nýja, á milli kynslóa og á milli hugsanahátta. Stjórnmálamenn fylgjast grannt með verkefninu svo við getum tengt árangur þess inn í þá stjórnmálaumræðu sem við viljum þróa.“

Einstök blanda

Verkefnin sex nálgast lífsstílsáskoranir okkar út frá einstakri blöndu sjónarmiða og fagsviða og tekur mið af menntun, jafnrétti, atvinnulífi, kynningarmálum og menningu. Miklir möguleikar eru á að skapa samlegðaráhrif á milli ólíkra fagsviða.

Afurðir verkefnanna munu felast í því að vinna greiningar, móta stefnu, miðla upplýsingum, veita innblástur og sýna bestu starfsvenjur, öllum sem vinna á sviðum verkefnisins til gagns. Verkefnið felur meðal annars í sér útvíkkun á Svansmerkinu, einni af trúverðugustu umhverfismerkingum heims, til að það taki til mun fleiri vöruflokka sem varða umhverfismál. Einnig verður ráðist í kynningarátak fyrir og af hálfu ungs fólks.

„Hluti af kjarna verkefnisins er að reyna að flýta fyrir normalíseringu á sjálfbærum innkaupum. Það á meðal annars að gerast með skýrri kynningu,“ segir Inger Smærup.

Verkefnið „Sjálfbær lífsstíll“ er þverlægt norrænt samstarfsverkefni á milli MR-JÄM, MR-MK, MR-FJLS, MR-U, MR-K og MR-SAM ásamt NORDBUK sérfræðinefndar um sjálfbæra þróun. Tilgangur verkefnisins er að gera það auðveldara að lifa sjálfbæru lífi og taka sjálfbærar lífsstílsákvarðanir á Norðurlöndum og að flýta fyrir normalíseringu á sjálfbærum lífsstíl.