Sjálfbær lífsstíll á Norðurlöndum

11.11.21 | Verkefni
Bæredygtig livsstil i Norden
Ljósmyndari
norden.org
Sjálfbær lífsstíll er yfirskrift áætlunar með sex verkefnum sem ætlað er að auðvelda ástundun loftslagsvæns lífernis á Norðurlöndum.

Upplýsingar

Dagsetning
12.11.2021 - 31.12.2024

Áætlunin tekur til þverfaglegs samstarfs milli ráðherranefndar um jafnréttismál (MR-JÄM), ráðherranefndar um umhverfis- og loftslagsmál (MR-MK), ráðherranefndar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS), ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir (MR-U), ráðherranefndar um menningarmál (MR-K) og samstarfsráðherranna (MR-SAM) ásamt norrænu barna- og ungmennanefndarinnar (NORDBUK) og sérfræðingahópsins um sjálfbæra þróun. Markmið áætlunarinnar er að auðvelda fólki að stunda sjálfbært líferni á Norðurlöndum, velja sjálfbæran kosti og flýta fyrir því að sjálfbær lífsstíll verði venjubundinn.

 

Áætlunin byggir á sex verkefnum þar sem litið er til þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir varðandi lífsstíl. Lögð eru fram með einstökum hætti þverlæg sjónarhorn og fagleg nálgun á sviði menntunar, jafnréttis, næringar, samskipta og menningar. Búist er við að mikil tækifæri verði til að ná samlegðaráhrifum milli hinna ýmsu faghópa.

 

Í áætluninni er gert ráð fyrir að rætt verði hvað felst í sjálfbærum lífsstíl á Norðurlöndum, að innan vébanda hennar verði til leiðbeiningar varðandi stefnumótun og að hún muni ná til almennings gegnum upplýsingamiðlun, með innblæstri og kynningu á því hvaða breytinga sé þörf á hegðun og menningu.

 

Nánari upplýsingar um verkefnin sex eru hér að neðan.

Norðurlöndin eru oft sögð vera í fararbroddi þegar rætt er um sjálfbær samfélög. Við gerum margt rétt en um leið eru stór verkefni óleyst. Gríðarleg einkaneysla á Norðurlöndum stendur loftslagsmarkmiðum okkar fyrir þrifum. Þess vegna verður að auðvelda íbúum Norðurlanda að velja sjálfbærar lausnir.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar
Verkefni 1: Sjálfbær og heilsusamleg matvælakerfi

Í verkefninu verður þekkingu á sjálfbærum matvælakerfum miðlað í norrænu samhengi, hún efld og sköpuð ný þekking á þessu sviði. Kortlögð verða yfirstandandi og fyrirhuguð verkefni, greindar og kynntar stefnumótandi aðgerðir sem mestu máli skipta í norrænu samhengi auk þess sem ráðist verður í þekkingarskapandi og stefnumótandi aðgerðir á vegum verkefnisins.

 

Tengiliður: Katja Svensson katsve@norden.org

 

Tímarammi verkefnisins er 2021-2024 og heildarfjárveitingin nemur 14 milljónum DKK

Verkefni 2: Sjálfbær menningarupplifun á Norðurlöndum

Sjálfbærri menningarupplifun á Norðurlöndum er ætlað að greiða fyrir nýjum viðfangsefnum, hugmyndum, verkfærum og þekkingu á grænni menningarframleiðslu og -neyslu á Norðurlöndum og stuðla að þróun og miðlun reynslu af menningartengdri og grænni ferðamennsku.

 

Tengiliður: Inger Smærup Sørensen +298 224673 inger@nlh.fo

 

Tímarammi verkefnisins er 2021-2024 og heildarfjárveitingin nemur 2 milljónum DKK

Verkefni 3: Framlag Svansmerkisins við að framfylgja stefnu og loftslagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar

Svansmerkið er opinbert umhverfismerki á öllum Norðurlöndum og strangar vottunarkröfur tryggja minni mengandi áhrif Svansvottraðrar vöru og þjónustu. Svansmerkið gerir beinar loftslagskröfur, svo sem um minni orkunotkun í framleiðslu eða kröfur sem tryggja skipti frá jarðefnaeldsneyti til sjálfbærra endurnýjanlegra orkugjafa. Auk þess gerir Svansmerkið margar óbeinar en áhrifaríkar loftslagskröfur, sérstaklega strangar kröfur um hringrásarhagkerfi, svo sem um hönnun sem tryggir hámarksendurnýtingu og um lágmarkshlutfall af endurnýttu hráefni í framleiðslu. Í verkefninu er tryggt að kynntir verði til sögunnar tveir áhugaverðir vöruflokkar sem fela í sér stór tækifæri í loftslagsmálum: vöruflutningar í netverslun og skrifstofuhúsnæði.

 

Tengiliður: Karen Dahl Jensen kdj@ecolabel.dk

 

Tímarammi verkefnisins er 2021-2024 og heildarfjárveitingin nemur 22,25 milljónum DKK

Verkefni 4: Sjálfbær menntun á Norðurlöndum

Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfbæra þróun í menntun við allar menntastofnanir með áherslu á hlutverk og færni kennara.

 

Tengiliður: Dóra Stefánsdóttir dora.stefansdottir@rannis.is

 

Tímarammi verkefnisins er 2021-2024 og heildarfjárveitingin nemur 8 milljónum DKK

Verkefni 5: Sjálfbærni, lífsstíll og neysla frá jafnréttissjónarhorni

Markmið verkefnisins er að skoða betur muninn á lífsstíl og neyslu kvenna og karla á Norðurlöndum. Með því að greina sjálfbærni og lífsstíl út frá kynjavinkli eykur verkefnið skilning og skapar tækifæri til að greiða fyrir sjálfbærrri neyslu.

 

Tengiliður: Jenny Pentler +46 766 22 92 03 Jenny.pentler@genus.gu.se

 

Tímarammi verkefnisins er frá október 2021 til september 2022 og heildarfjárveitingin nemur 500 þúsund DKK

Verkefni 6: Good Life Goals – Samskiptastarf fyrir og af hálfu ungs fólks

Verkefninu er ætlað að auka almenna vitund um Heimsmarkmið SÞ með því að beita Good Life Goals. Markmiðið er að skapa ungu fólki á Norðurlöndum vettvang til þess að ræða saman og miðla þekkingu á sjálfbærri þróun og hvetja til þess að hver og einn ástundi sjálfbæran lífsstíl.

 

Tengiliður: Inger Smærup Sørensen +298 224673 inger@nlh.fo

 

Tímarammi verkefnisins er 2021-2024 og heildarfjárveitingin nemur: 2,8 milljónum DKK

Áætlunin var kynnt föstudaginn 12.11.21 í norræna COP26-skálanum í Helsinki. Í fjörlegum umræðum greindu sex verkefnastjórar frá aðdraganda áætlunarinnar og ræddu væntingar sínar til árangurs hennar. Sjá umræðurnar í heild hér að neðan.

Det nordiske samarbejde ønsker, at det skal være nemmere for borgerne i Norden at træffe bæredygtige valg i hverdagen.