Þörf er á norrænni áætlun gegn stafrænu ofbeldi

02.11.21 | Fréttir
Mobil
Ljósmyndari
Vibeke Toft
Stafrænt ofbeldi er vandamál fyrir bæði samfélagið í heild sinni og einstaka íbúa. Þess vegna mælir velferðarnefnd Norðurlandaráðs með því að samnorræn áætlun verði tekin upp á þessu sviði. Konur, minnihlutahópar vegna kyns eða uppruna og stjórnmálamenn verða sérstaklega fyrir barðinu á því. 10 af 14 stjórnmálamönnum í velferðarnefnd Norðurlandaráðs hafa sjálfir upplifað stafrænt ofbeldi. Ofbeldið er ógn við lýðræði, réttarstöðu og jafnrétti.

„Við þurfum að binda endi á stafrænt ofbeldi. Við skuldum það lýðræðinu sem við höfum byggt upp og við skuldum það fólkinu sem hefur orðið fyrir barðinu á því og er með ör á sálinni,“ segir Cecilie Tenfjord-Toftby, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs. Nefndin hefur áður fundað með fjölda samtaka sem hafa gefið innsýn í stafrænt ofbeldi. Nefndin er ekki í neinum vafa um að vandamálið er viðvarandi í öllum norrænu löndunum og því ber að leysa það í sameiningu. Tilmæli nefndarinnar til Norrænu ráðherranefndarinnar eru því að samin verði samnorræn stefna um að sporna við stafrænu ofbeldi og hótunum. Nefndin leggur til að sett verði á laggirnar samnorræn ráðgjafarnefnd og þekkingar- og hugmyndaveita og að Norðurlöndin muni í sameiningu skylda tæknirisa til að taka enn meiri ábyrgð á því að sporna við stafrænu ofbeldi í þjónustum sínum.

 

10 af 14 fulltrúum velferðarnefndar Norðurlandaráðs hafa sjálfir upplifað stafrænt ofbeldi

Á nýlegum fundi velferðarnefndarinnar á þingi Norðurlandaráðs var gerð könnun á því hversu margir af stjórnmálamönnunum sem hana skipa hafa sjálfir orðið fyrir stafrænu ofbeldi. Niðurstaðan er bæði skýr og ógnvænleg: 10 af 14 hafa orðið fyrir stafrænu ofbeldi. Tveir tóku ekki þátt í könnuninni.

„Ég hef sjálfur orðið fyrir stafrænu ofbeldi en það eru svo margir sem verða verr úti en ég og þess vegna er mikilvægt að við á Norðurlöndum stöndum saman gegn þessu,“ sagði nefndarmaðurinn Tobias Drevland Lund.

 

Tónninn fælir mörg frá því að taka þátt 

Margar kannanir benda einnig til þess að helstu fórnarlömbin séu konur, minnihlutahópar vegna kyns eða uppruna og opinberar persónur sem tjá sig um stjórnmál. Til dæmis hafa Alþjóðaþingmannasambandið og Þingmannasamtök Evrópuráðsins með eigin rannsókn sýnt fram á ógnvænlega aukningu á hótunum og áreitni sem beinast að konum á þjóðþingunum. 46,9% aðspurðra höfðu fengið morð- eða nauðgunarhótanir. 58,2% aðspurðra höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á samfélagsmiðlum. En almennir borgarar finna einnig þessum harða tóni. Til dæmis sýnir rannsókn Mannréttindastofnunarinnar í Danmörku að „tónninn“ hefur fælandi áhrif á þátttöku og áhuga almennings á lýðræðisumræðu á Facebook. Þetta sést á því að 59% aðspurðra segja tóninn aftra þeim frá því að tjá skoðanir sínar.

„Það að svo mörg veigri sér við að taka þátt í opinberri umræðu á samfélagsmiðlum er ógn gegn lýðræðinu og brot á tjáningarfrelsi einstaklingsins,“ segir nefndarmaðurinn Liselott Blix. 

 

Ólögleg dreifing myndefnis sem hefur geðrænar afleiðingar 

Önnur birtingarmynd stafræns ofbeldis er ólögleg dreifing myndefnis, en þá er átt við nektar- eða kynlífsmyndir sem dreift er án samþykkis viðkomandi. Þekkingu skortir á viðfangsefninu en í skýrslunni Ung19 frá Syddansk Universitet kemur fram að í hverjum bekk í dönskum framhaldsskólum er nemandi sem hefur orðið fyrir því á undanförnu ári að nektar- eða kynlífsmyndum af honum hafi verið dreift án hans samþykkis. Þetta á sér stað í öllum aldurshópum og samfélagshópum. Stafrænt ofbeldi er breitt svið sem nær til alls frá kynlífsmyndböndum sem tekin eru upp á laun til nektarmynda sem dreift er í möppum eða á klámsíðum um allan heim, eða jafnvel enn útsmognari hegðun á borð við falskar notendasíður og deilingu mynda á netinu þar sem andlit óafvitandi fólks hafa verið sett inn á nakta líkama. Það að verða fyrir slíkum brotum getur haft mjög miklar geðrænar afleiðingar í för með sér fyrir þolandann.