Tillaga: Aukið samstarf á sviði samfélagsöryggis

03.09.19 | Fréttir
Wille Rydman på Septembermötet 2019.

Wille Rydman.

Ljósmyndari
Matts Lindqvist

Wille Rydman, fulltrúi Finnlands í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, fór fyrir vinnuhópi sem vann stefnuskjal um samfélagsöryggi. Allir flokkahópar áttu fulltrúa í vinnuhópnum.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs vill efla norrænt samstarf um samfélagsöryggi. Forsætisnefndin hefur samþykkt stefnuskjal með tillögum um hvernig auka má samstarf um samfélagsöryggi á ýmsum sviðum. Stefnan verður afgreidd á þingi Norðurlandaráðs í október.

Stefnuskjalið fjallar um ýmsar hliðar samfélagsöryggis og inniheldur meðal annars tillögur um samnorrænar æfingar og námskeið í neyðarviðbúnaði, eflt samstarf um friðsamlega lausn deilumála, eflt samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um netöryggi og aukið lögreglusamstarf.

Þá vill forsætisnefndin að metið verði hvort þörf sé á samnorrænum flota af slökkviliðsflugvélum.

Norræna ráðherranefndin komi þar að málum

Í stefnuskjalinu er einnig lagt til að skoðað verði hvernig Norræna ráðherranefndin geti átt þátt í að „styðja norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál, þar á meðal samstarf um samfélagsöryggi og viðbúnað“.

Utanríkis-, varnar- og öryggismál eru ekki á borði Norrænu ráðherranefndarinnar. Sama á við um samstarf um viðbúnað vegna stórslysa eða neyðarástands.

Engu að síður er almenningur á Norðurlöndum afar hlynntur samstarfi um varnar- og öryggismál. Stór könnun sem gerð var árið 2017 leiddi í ljós að varnar- og utanríkismál voru sá málaflokkur sem flestir Norðurlandabúar voru sammála um að löndin ættu að starfa saman að.

„Eins og ástandið er í heiminum í dag með vaxandi spennu víða, og þegar hafður er í huga sá mikli stuðningur sem samstarf um öryggismál nýtur meðal almennings, þá er tímabært að Norræna ráðherranefndin, helsti samstarfsvettvangur norrænna stjórnvalda, fái skýrt umboð á þessu sviði,“ segir Hans Wallmark, sem gegnir embætti forseta Norðurlandaráðs á árinu 2019.

Sameiginlegar ógnir

Stefnuskjalið byggist á því að Norðurlöndin standa öll frammi fyrir sams konar áskorunum á sviði samfélagsöryggis. Þar má nefna netárásir, hryðjuverk, veðuröfgar og náttúruhamfarir, útbreiddar farsóttir, framboðsbrestur á orku og ýmsar aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður sem geta komið upp.

Ógnir sem geta steðjað að einu Norðurlandanna en einnig haft afleiðingar yfir landamæri. Enn eru stjórnsýsluhindranir sem koma í veg fyrir öflugt samstarf milli landanna.

„Norðurlandaráð vill sjá virkan sameiginlegan neyðarviðbúnað sem gerir löndunum kleift að bregðast skjótt við neyðarástandi og hjálpast að án þess að stjórnsýsluhindranir eða álitamál um verkaskiptingu og ábyrgð standi þar í vegi,“ segir í skjalinu.

Í stefnuskjalinu er einnig lagt til að norrænu ríkisstjórnirnar tilnefni óháða nefnd sem verði falið að kanna hvernig efla megi norrænt samstarf um samfélagsöryggi.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlandanna en Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Hlutverk Norðurlandaráðs er að leggja tillögur og tilmæli fyrir ráðherranefndina og ríkisstjórnir Norðurlandanna.