Ungt fólk setur vistmorð á dagskrá norrænna stjórnmála

02.06.22 | Fréttir
möte mellan unga och ministrar
Photographer
Ninni Andersson
Látið af stuðningi við jarðefnaeldsneyti og takið ykkur stöðu með nýjum alþjóðalögum um stórfelld vistmorð. Svo hljóða tvær af kröfum norrænna og baltneskra æskulýðshreyfinga sem lagðar voru fram og ræddar í hringborðsumræðum ásamt norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrunum á fundi Sameinuðu þjóðanna, Stockholm +50.

„Norrænu löndin eru mjög auðug og vist- og loftslagsspor þeirra er allt of stórt. Við gagnrýnum það af hörku að Svíþjóð og önnur norræn lönd haldi áfram að niðurgreiða og styðja við notkun jarðefnaeldsneytis,“ sagði Björn Fondén frá Stockholm+50 Youth Task Force við setningu fundarins.

60 kröfur frá ungu fólki

Í hálfs árs löngu ferli hafa æskulýðssamtök á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum tekið saman 60 tillögur og unga fólkið vonast til þess að „stefnuskjal“ þeirra verði hluti af opinberum niðurstöðum fundar Sameinuðu þjóðanna.

Norræna ráðherranefndin fjármagnaði ferlið sem hluta af stærra átaki í að auka þátttöku ungs fólks.

 

Sameiginleg ábyrgð á fjármögnun

Við hringborðsumræður þann 1. júní ákvörðuðu fulltrúar ungs fólks dagskrá viðræðna við norrænu loftslags- og umhverfisráðherrana, Anniku Strandhäll frá Svíþjóð, Leu Wermelin frá Danmörku, Espen Barth Eide frá Noregi, Emmu Kari frá Finnlandi, Alfons Röblom frá Álandseyjum og Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á fjórum borðum ræddi unga fólkið við ráðherrana um ábyrgð Norðurlanda þegar kemur að því að aðstoða þróunarlönd við að fjármagna græn umskipti, útleiða jarðefnaeldsneyti, finna önnur viðmið en verga þjóðarframleiðslu til að mæla þróun og vinna að alþjóðalögum um umhverfisbrot.

„Það verður að vera hægt að treysta á stjórnmálin“

Lea Wermelin hafði þetta að segja um fundinn:

„Helsti boðskapur unga fólksins í dag er að við þurfum kerfisbreytingar ef við eigum að leysa loftslags- og náttúruvandann. Það krefst aðkomu stjórnmálanna með lögum og samningum. Það fyllir mig von að þið berið traust til Sameinuðu þjóðanna og við verðum að sýna að stjórnmálunum sé treystandi. En okkur mun ekki takast þetta án ykkar,“ sagði Lea Wermelin og ávarpaði æskulýðssamtökin.

Vistmorð verði rædd á norrænum vettvangi

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sagði að málefni vistmorða, þ.e. glæpavæðing stórfelldra náttúrubrota, verði rædd á vettvangi norræns samstarfs.

„Við þurfum að setja þetta mál á dagskrá og saman þurfum við að ræða hvað við getum gert á norrænu sviði,“ sagði Paula Lehtomäki.

Annika Strandhäll benti á gildi þess að fá þekkingu og sjónarhorn ungs fólks á umhverfis- og loftslagsvinnuna.

„Norræna æskulýðshreyfingin hefur, sem hluti af hinni hnattrænu hreyfingu, gegnt mikilvægu hlutverki í því að fá sjónarhorn ungs fólks á ferlið og í væntanlegri niðurstöðu Stockholm +50,“ sagði Annika Strandhäll.

„Takið forystu í útleiðingu jarðefnaeldsneytis“

Að fundinum loknum var Björn Fondén frá Stockholm+50 Youth Task Force bæði ánægður og óánægður með svör ráðherranna:

„Það sem mestu máli skiptir er að vistmorð verða rædd á norrænum vettvangi. Það var einnig jákvætt að ráðherrarnir viðurkenndu að þeir viti ekki allt og að þeir eru tilbúnir til þess að hlusta á okkur.

Á hinn bóginn finnst mér þeir ekki taka útleiðingu jarðefnaeldsneytis föstum tökum. Lönd heimsins verða að vinna saman og gera áætlun um útleiðingu og þá vinnu eiga Norðurlönd að leiða,“ sagði Björn Fondén.

Hringborðsumræður á Stockholm +50

LSU – sænsku æskulýðssamtökin, buðu til hringborðsumræðnanna ásamt Anniku Strandhäll, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar, í aðdraganda fundar Sameinuðu þjóðanna, Stockholm +50. LSU ákvað dagskrána.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri, var fulltrúi Norrænu ráðherranefndarinnar við hringborðsumræðurnar.

Fyrirmynd ferlisins við vinnslu Nordic and Baltic Youth Policy Paper for Stockholm+50 var æskulýðsverkefni um líffræðilega fjölbreytni.

Nordic Youth Position paper on Biodiversity kom út eftir tveggja ára samstarf æskulýðssamtaka á Norðurlöndum.