„Norðurlönd ráða við breytingar“

29.10.19 | Fréttir
statsministrar
Photographer
Magnus Fröderberg
Mun Noregur nota eitthvað af olíugróða sínum til að styðja við vegferð þróunarlanda til grænna umskipta? Svo hljóðaði fyrirspurn sem danskur þingmaður beindi til norska forsætisráðherrans í sænska þinginu – alveg í samræmi við hinar sérstæðu leikreglur á árlegu þingi Norðurlandaráðs. Norræni leiðtogafundurinn var settur síðdegis á þriðjudag í Stokkhólmi að öllum norrænu forsætisráðherrunum viðstöddum.

Hvernig geta norrænu löndin tileinkað sér róttæka stefnu í loftslagsmálum sem dregur snarlega úr losun – og um leið vænst þess að efla lýðræðislegan grundvöll og félagslegt samráð?

Þetta var umræðuefnið á fundi þingmanna Norðurlandaráðs og forsætisráðherranna. 

Norrænu forsætisráðherrarnir hafa nýlega lýst yfir stuðningi við þá framtíðarsýn að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims árið 2030.

Nú hittust þingmenn allra flokka frá fimm löndum og báru upp spurningar á borð við „hvernig?“ og „hver?“ 

Heildarlausna þörf í loftslagsmálum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, hóf umræðurnar á að lýsa því hverjir bæru mesta ábyrgð á þeim grænu umskiptum sem norrænu löndin standa nú frammi fyrir. 


„Þegar stjórnmálamenn og fyrirtæki hafa axlað ábyrgð getum við byrjað að ræða ábyrgð einstaklinga. Ekki fyrr,“ sagði hún.  

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, var á svipuðum slóðum þegar hún sagði kerfislægar heildarlausnir gera samfélagið grænna - og að við umskiptin skyldi gæta þess að auka ekki ójöfnuð í samfélaginu.

„Við megum ekki bregðast unga fólkinu“

„Það er almenningur sem hefur gert loftslagsmálin að svo miklu pólitísku forgangsmáli. Við megum aldrei láta unga fólkið finna að lýðræðið megni ekki að leysa loftslagsvandann,“ sagði Mette Frederiksen. 


Anders Kronborg, danskur þingmaður í flokkahópi jafnaðarmanna, benti á að íbúar Kaupmannahafnar ættu auðvelt með að sameinast í bíla eða ferðast um á umhverfisvænum rafmagnshjólum, en íbúar í heimabæ hans í grennd við Esbjerg þyrftu að aka bíl til að koma börnunum á fótboltaæfingu. 


„Við verðum að sýna því skilning og tillit að fólk býr við mismunandi aðstæður í löndum okkar,“ sagði hann.

Umskiptin eiga einnig að gagnast landsbyggðinni

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, greip boltann og sagði að lítil sveitarfélög á landsbyggðinni yrðu að fá bætt það land sem þau veittu undir vindbú eða aðra framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Það væri ein af mörgum leiðum fyrir landsbyggðina til að hafa gagn af umskiptunum. 

„Við stjórnmálamenn verðum að taka mið af daglegu lífi almennings og miðla þeirri hugsun að þótt umskiptin séu afar krefjandi séu þau einnig nauðsynleg. Ef við eigum að geta efnt pólitísk loforð okkar verða allir þeir sem ferðast með einkabifreið til vinnu í Noregi að skipta í bifreiðar sem losa ekki koltvísýring. Við verðum að losa okkur við tvær milljónir bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti,“ sagði Erna Solberg. 

Olíugróða Noregs fylgir ábyrgð

Það var Christian Juhl, danskur þingmaður í flokkahópi Norrænna vinstri grænna, sem spurði hvort Noregur gæti notað eitthvað af olíugróða sínum til að styðja við umskipti í loftslagsmálum í fátækari löndum.


Erna Solberg svaraði að olíugróðinn væri nýttur til að finna og fjárfesta í fyrirtækjum sem vinna að því að minnka orkukostnað og efla skilvirkni í nýtingu auðlinda. Christian Juhl var ekki fyllilega ánægður með svarið. 

Fyrirtæki fái aukið athafnarými

Magnus Ek, sænskur þingmaður í flokkahópi miðjumanna, vildi meina að fyrirtæki og aðilar í nýsköpun þyrftu betri forsendur til að geta fundið nýjar tæknilausnir fyrir sjálfbært samfélag. 


„Þau sem krefjast loftslagsaðgerða eru ekki að kalla eftir því fyrst og fremst að fá sæti við samningaborðið. Þau krefjast þess að við grípum til aðgerða núna. Það er verið að þróa lausnirnar í fyrirtækjum og á rannsóknastofum,“ sagði hann.  
 

Við getum komið svartsýnisseggjunum á óvart

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, mótmælti þessu ekki. 


„Atvinnulíf Norðurlanda samanstendur af 115 þúsund fyrirtækjum sem vilja leggja sitt af mörkum til kolefnishlutlauss samfélags. Skjót umskipti í loftslagsmálum munu auka hagvöxt. Norræna líkanið hefur verið farsælt vegna þess að það ræður við hraðar breytingar. Hin fátæku samfélög okkar breyttust í samfélög velmegunar. Við getum komið svartsýnisseggjunum á óvart einu sinni enn,“ sagði Stefan Löfven.