Norræna Atlantshafssamstarfið fær eigin stefnumörkun

27.06.19 | Fréttir
Kutter ved Upernavik
Photographer
Mats Bjerde
Norrænu ráðherrarnir um málefni byggðastefnu hafa samþykkt stefnumörkun um þróun norræna Atlantshafssamstarfsins, sem hefur hlotið yfirskriftina NAUST. Í stefnumörkuninni er mikil áhersla lögð á meðal annars menningar-, velferðar- og jafnréttismál, málefni hafsins og bláa hagkerfisins, orkumál og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Stefnumörkunin styrkir samstarf norrænu landanna á Norður-Atlantshafssvæðinu.

NAUST gengur í meginatriðum út á samstarf milli Færeyja, Grænlands, Íslands og strandlengju Noregs frá Rogalandi til Finnmerkur. Stefnumörkuninni er ætlað að vísa veginn í norræna Atlantshafssamstarfinu og meðal annars stuðla að því að efla tengsl milli lykilaðila á svæðinu.

Stefnumörkunin veitir samstarfsáætluninni um byggðaþróun og skipulagsmál aukna dýpt og myndar góðan þekkingargrundvöll fyrir áframhaldandi þróun á svæðinu. Norðurlönd eru öflugri saman en sitt í hverju lagi og vaxandi áhugi umheimsins á svæðinu getur orðið löndunum tilefni til að leggja línurnar fyrir eigin þróun. Norræna Atlantshafssamstarfið (NORA) sér um að innleiða markmið og forgangsatriði NAUSTs.

Ísland átti frumkvæðið

Ísland átti upphaflega frumkvæði að því í formennskutíð sinni í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 að móta stefnu fyrir norræna Atlantshafssamstarfið á Norðurlöndum.

„Ég fagna því að norrænu byggðamálaráðherrarnir hafi samþykkt stefnumörkunina. Hún beinir aukinni athygli að svæði sem verður sífellt áhugaverðara í augum umheimsins. Á Norður-Atlantshafssvæðinu eru einstök sóknarfæri og einnig sérstakar áskoranir. Það er mikilvægt að við eflum samstarf okkar líka á þeim slóðum,“ segir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er formaður norrænu ráðherranna um málefni byggðastefnu.

Í starfi sínu hefur NAUST hliðsjón af heimsmarkmiðum Dagskrár 2030 um sjálfbæra þróun og einnig forgangsatriðum Norrænu ráðherranefndarinnar á sviðum sjálfbærrar þróunar, málefna barna og ungmenna og jafnréttismála.

Í Danmörku eru kosningar til þjóðþingsins nýyfirstaðnar og ný ríkisstjórn verður mynduð þann 27. júní. Því mun Danmörk afgreiða málið síðar í skriflegu ferli.