Ráðherrayfirlýsingin Digital North 2.0

29.09.20 | Yfirlýsing
Þessi yfirlýsing var unnin undir formennsku Dana í Norrænu ráðherranefndinni árið 2020. Hún byggir á sameiginlegum forgangsmálefnum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og kemur í kjölfar fyrri ráðherrayfirlýsingar, Digital North 2017-2020, viljayfirlýsingar norrænu forsætisráðherranna um 5G, yfirlýsingar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um gervigreind og framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar, Framtíðarsýn okkar 2030.

Yfirlýsingin rennir stoðum undir sýnina um að svæðið sem tekur til Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims með því að þróa og nota fullkomna stafræna tækni og gögn á metnaðarfullan, nýskapandi, öruggan og siðlegan hátt til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir, svo sem græn umskipti og faraldra. Henni er einnig ætlað að stuðla að framúrskarandi velferð almennings, hreyfanleika innan svæðisins, sjálfbærum vexti og ábyrgri notkun tækni til þess að styrkja hið breiða traust sem ríkir milli landa á svæðinu. Löndin á svæðinu hyggjast vinna saman á grundvelli evrópskra staðla, innviða, samnýtingar gagna og samvirkni sem og því að samstarfið sé í samræmi við viðeigandi verkefni og lög Evrópusambandsins. Með þessu hyggjast Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin vera í fremstu röð á sviði stafrænnar umbreytingar á heimsvísu og sýna fram á að hægt sé að nýta og miðla nýrri stafrænni tækni og gögnum á réttlátan, opinn og lýðræðislegan hátt. Við, ráðherrar sem förum með málefni stafrænnar þróunar í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Álandseyjum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, styðjum eftirfarandi stefnumörkun þar sem tekið er á áþreifanlegum samfélagslegum málefnum og viljum gera svæðið að mest stafrænt samþætta svæði heims og stuðla þannig að vellíðan almennings í löndum okkar. 1. Auka hreyfanleika og samþættingu svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með því að byggja upp sameiginlegan vettvang fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri, 2. Stuðla að grænum hagvexti og sjálfbærri þróun á svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með gagnadrifinni nýsköpun og sanngjörnu gagnahagkerfi til þess að samnýting og endurnýting gagna verði skilvirk, 3. Stuðla að forystu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í ESB og EES og á heimsvísu varðandi sjálfbæra og samþætta stafræna umbreytingu samfélaga okkar.

1. Auka hreyfanleika og samþættingu á svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með því að byggja upp sameiginlegan vettvang fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri

Viðurkenna

Að skilvirkur opinber geiri sem býður notendamiðaða stafræna þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem starfa þvert landamæri á svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja er nauðsynlegur til þess að svæðið geti orðið það samþættasta í heimi.

Við munum

 • Halda áfram að starfa náið saman í því skyni að bæta innviði stafrænnar þjónustu þvert á landamæri eða samþætta innviði landanna með það markmið að styðja frjálsa för fólks, varnings, þjónustu, fjármagns og gagna á svæði okkar.
 • Ryðja úr vegi tæknilegum og lagalegum hindrunum vegna stafrænnar samþættingar og þróa öðruvísi nálgun innan ramma viðeigandi löggjafar og stefnu ESB ef þess gerist þörf.
 • Auðvelda samstarf milli innviða landanna vegna notkunar rafrænna auðkenna (eID) þvert á landamæri í samræmi við reglugerðina um eIDAS.
 • Stuðla að öruggri miðlun, endurnýtingu og frjálsum gagnaflutningi til að styðja við stafræna nýsköpun í stafrænni þjónustu þvert á landamæri, tryggja mikið öryggi upplýsinga, vernd persónuupplýsinga og samræmi við viðeigandi evrópskar reglugerðir sem varða gögn.

2. Stuðla að grænum hagvexti og sjálfbærri þróun á svæðinu sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með gagnadrifinni nýsköpun og sanngjörnu gagnahagkerfi til þess að samnýting og endurnýting gagna verði skilvirk

Viðurkenna

Að þrátt fyrir að gagnanotkun og -vinnsla auki orkuþörf þá eru hágæða gögn og háþróuð stafræn tækni mikilvægur drifkraftur fyrir græna umbreytingu og í opinberri þjónustu og að sjálfbær stafræn nýsköpun veiti Norðurlöndunum og Eystrasaltssvæðinu sterkt efnahagslegt samkeppnisforskot.

Við munum

 • Stuðla að kolefnishlutleysi og grænum umskiptum í samfélaginu og hagkerfinu með betri nýtingu á upplýsingum og nýrri tækni.
 • Kanna aðferðir og staðla til að meta betur, kynna og draga úr kolefnisspori stafrænnar þjónustu í samfélaginu.
 • Hvetja til þróunar á nýjum prófunarbúnaði fyrir 5G og fylgjast með þróun 5G-tækninnar.
 • Auka aðgengi að opinberum gögnum, til dæmis til að gera notkun gervigreindar mögulega og þróa máltækni í því skyni að veita almenningi og fyrirtækjum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum betri þjónustu og stuðla að stafrænni nýsköpun og viðskiptum á svæðinu.
 • Stuðla að góðum innkaupavenjum og samstarfi, þar með talið almennari notkun rafrænna og nýskapandi innkaupa til þess að bjóða nýskapandi lausnir sem geta aukið gæði og afkastagetu í almannaþjónustu og stuðlað að samstarfi yfir landamæri.

3. Stuðla að forystu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í ESB og EES og á heimsvísu um sjálfbæra og samþætta stafræna umbreytingu samfélaga okkar

Viðurkenna

Að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin skulu tryggja að ný stafræn tækni sé nýtt á samfélagslega samþættan, manneskjulegan og siðlegan hátt um leið og hún kynnir nýsköpun svæðisins sem tekur til Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem sterkt vörumerki, bæði í Evrópu og á heimsvísu.

Við munum

 • Stuðla að siðlegum og gegnsæjum leiðbeiningum, stöðlum og kröfum fyrir gervigreind og nýja stafræna tækni, þar með talið bitakeðjum (e. blockchain) til þess að styðja ábyrga þróun, innleiðingu og notkun þessa.
 • Stuðla að því að koma upp alþjóðlegum stöðlum fyrir innviði, vélbúnað, forrit og gögn til að tryggja samvirkni, heiðarleika, öryggi, traust, notagildi og sveigjanleika á sviði gervigreindar.
 • Vinna saman að samhæfingu reglna, reglugerða og nýskapandi notkun á 5G.
 • Stuðla að stafrænni samþættingu, valdeflingu og jafnrétti í samfélögum okkar með því að takast á við kynjabil, færnibil, getubil, mismunun vegna aldurs og bjöguð gögn og gegnum uppbyggingu stafræns trausts, meðvitundar um netöryggi og upplýsingaöryggis í samfélögum okkar.
 • Stuðla að því að settar verði reglur um hagkerfi vettvangsins innan evrópskra ramma til þess að tryggja ábyrgt og traust innihald og lipur viðskipti.
 • Örva málnotendur og talgervla til að styðja við menntun og menningu sem góðan vettvang til að varðveita og efla félagslega samkennd og þekkingu á sérstöðu svæðis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
 • Styrkja rödd svæðisins innan ESB/ESB.

Frá yfirlýsingu til raunveruleika

Til að ná markmiðum og takmörkum þessarar yfirlýsingar og stuðla að því að raungera framtíðarsýnina fyrir 2030 fara ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem fara með málefni stafrænnar þróunar, MR-DIGITAL, þess á leit við framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að komið verði á fót þverfaglegri leiðarlýsingu með markvissum aðgerðum og aðferðum til að fylgjast með og leiða framfarir og árangur fram á veginn. Til að tryggja til lengri tíma sjálfbærar niðurstöður sem hafa mikið gildi fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera stjórnsýslu skal í vinnunni við að uppfylla markmið þessarar yfirlýsingar viðhafa lipur vinnubrögð og náið samtal við stjórnsýslu, stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila, á öllu svæðinu.

 

8. október 2020