Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin: Forystusvæði á sviði stafrænnar tækni

25.04.17 | Yfirlýsing
Yfirlýsing þessi tekur mið af áherslum á formennskuári Norðmanna í Norrænu ráðherranefndinni 2017 og áætlun ESB um Stafrænan innri markað (DSM). Yfirlýsing þessi styður eftirfarandi framtíðarsýn:

Upplýsingar

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eru í góðri stöðu til að vísa veginn fyrir stafræna þróun í Evrópu. Stafrænn þroski er almennt mikill í samfélögum okkar. Stjórnvöld setja mikinn metnað í að færa þjónustu við almenning og fyrirtæki í stafrænt form og stafræn færni er útbreidd í samfélaginu.

 

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eiga náið milliríkjasamstarf um rafræna stjórnsýslu í opinberum geira og einkageira. Felst það í samráði um stefnumótun og sameiginlegum verkefnum um stafrænar nýjungar.

 

Enn eru mörg tækifæri stafrænnar tækni ónýtt til að auka lífsgæði almennings, bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum viðfangsefnum í umhverfismálum, og auka nýsköpun og samkeppnisfærni fyrirtækja, opinberra og einkarekinna, í því skyni að ýta undir sjálfbæra efnahagsþróun.

 

Við þurfum að efla hlutverk svæðisins á sviði stafrænnar tækni í Evrópu og á heimsvísu. Í þeim tilgangi þurfum við að nýta þekkingu okkar og sterka stöðu á sviði stafrænnar tækni. Við þurfum að þétta samstarfið til að örva þróun á enn skilvirkari stafrænum innri markaði Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

 

Við, ráðherrar sem förum með málefni stafrænnar þróunar, frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, styðjum eftirfarandi stefnumið til þess að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin verði forystusvæði á sviði stafrænnar tækni:

 

1. Að styrkja getu stjórnvalda og samfélaga okkar til stafrænna umbreytinga, einkum með því að skapa sameiginlegt svæði yfir landamæri fyrir stafræna þjónustu í opinberum geira.

2. Að styrkja samkeppnisfærni atvinnulífsins með stafrænni tækni.

3. Að þróa stafrænan innri markað Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

 

1. Að styrkja getu stjórnvalda og samfélaga okkar til stafrænna umbreytinga, einkum með því að skapa sameiginlegt svæði yfir landamæri fyrir stafræna þjónustu í opinberum geira.

 

Að viðurkenna að með betri þjónustu við almenning, skilvirkari opinberum geira, minni stjórnsýslubyrði á fyrirtækjum og aukinni nýsköpunargetu fyrirtækja mun samfélögum okkar takast að varðveita samkeppnisfærni sína, aðlagast tæknibreytingum og bregðast við samfélagslegum áskorunum eins og loftslagsbreytingum.

 

Við munum:

 

• skapa náið samstarf milli stjórnsýslu landanna um uppbyggingu á innviðum stafrænnar þjónustu yfir landamæri, eða samþættingu viðeigandi innviða í löndunum, til stuðnings frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu, fjármagns og upplýsinga innan svæðisins. Starfið mun felast í afnámi tæknilegra og lagalegra hindrana, einkum eftirfarandi:

O að heimila notkun kennitölu yfir landamæri og greiða fyrir samstarfi milli innviða landanna fyrir notkun rafrænna skilríkja (eID) samkvæmt eIDAS-reglugerðinni;

O að stuðla að endurnotkun og frjálsu flæði upplýsinga til stuðnings háþróaðri þjónustu við almenning sem mun draga úr stjórnsýslubyrði einstaklinga og fyrirtækja, greina lykilsvið og byggja upp sameiginlega innviði fyrir gagnaskipti á umræddum sviðum;

O að stuðla að góðum starfsháttum við opinber innkaup, þ.m.t. víðtækari notkun rafrænna og nýstárlegra innkaupaaðferða innan ramma innri markaðar Evrópusambandsins;

O að tryggja að upplýsingaöryggi og persónuvernd verði grundvallaratriði í öllum stafrænum lausnum hvarvetna á svæðinu.

 

2. Að styrkja samkeppnisfærni atvinnulífsins með stafrænni tækni.

 

Að viðurkenna að stafræn nýsköpun getur verið lykilþáttur til eflingar samkeppnisfærni fyrirtækja, til dæmis með því að taka ný viðskiptalíkön í notkun, útbreiða stafræna staðla, nota háþróaða framleiðslutækni og laða að fjárfestingu, en viðurkenna jafnframt mikilvægi þess að þróa stafræna leikni, tryggja réttindi starfsfólks og efla persónuvernd og upplýsingaöryggi.

 

Við munum:

 

• efla aðgerðir sem skipa löndum okkar í „fremstu röð“ á sviði stafrænnar tækniþróunar og birgja í hinu nýja upplýsingahagkerfi;

• skapa skilning á tækifærum stafrænnar truflunar með því að opna markaði fyrir nýjar þjónustur með sveigjanlegum og aðlögunarhæfum reglum;

• efla aðgerðir sem auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að tileinka sér stafræna tækni og nýjungar; þróa, meta og deila góðum starfsháttum á umræddu sviði;

• markaðssetja svæðið sem nýskapandi og hentugan stað fyrir prófunarbekki, nýta tækifæri sem nýjar eða núverandi sýningarmiðstöðvar og sprotafyrirtæki á sviði stafrænnar tækni á svæðinu bjóða upp á og jafnframt greiða fyrir tengslamyndun og samvinnu þeirra á milli;

• þróa frekari samstarfsleiðir fræðilegra stofnana og tæknifyrirtækja (einnig yfir landamæri) þar sem þau bæta upp færni og getu hvert annars;

• þróa háþróaða færni í upplýsingatækni með því að greiða fyrir frjálsu flæði fólks innan ramma innri markaðar Evrópu og einfalda viðurkenningarferli að því er varðar leikni og notkun;

• stuðla að því hin ýmsu fjarskiptanet í 5. kynslóð farsímakerfa verði tæknilega samvirk, þ.m.t. föst net, farnet á jörðu niðri og gervitunglanet. Markmiðið er að tryggja gegnumsmeygan og stöðugan tengjanleika jafnt í borgum og á afskekktum lands- og hafsvæðum;

• nýta tækniframfarir en standa jafnframt vörð um ráðningarkjör starfsfólks, þ.m.t. hollustu- og öryggiskröfur á vinnustað.

 

3. Að þróa stafrænan innri markað Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

 

Að viðurkenna að við þurfum að greiða fyrir því að nýstárlegar lausnir verði teknar í notkun með því að styðja og fylgja meginreglum um óhindrað flæði upplýsinga sem eru skráðar aðeins einu sinni og sjálfgefið stafrænar. Auk þess eru netöryggi og persónuvernd nauðsynleg til að framfylgja markmiðum yfirlýsingar þessarar.

 

Við munum:

 

• bera saman reynslu okkar, skapa sameiginlegar lausnir og skiptast á góðum starfsháttum á sviði nýrra deilihagkerfa og annarra truflandi viðskiptalíkana;

• styrkja rödd svæðisins um tiltekin áherslumál á vettvangi ESB og EES með því að skiptast á hugmyndum og þróa greiningu á stefnumótunaraðgerðum, þar sem aðaláherslan er lögð á fyrstu áfanga löggjafarstarfsins og innleiðingu fyrirhugaðrar löggjafar ESB á sviði hins stafræna innri markaðar;

• vinna saman að afnámi hindrana á stafrænum innri markaði, ss. óréttmætri takmörkun á staðsetningu gagna sem og annarra stjórnsýsluhindrana;

• ryðja brautina fyrir lausnum sem byggja á góðum starfsháttum hvarvetna á ESB- og EES-svæðinu, í samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðra hagsmunaaðila.

 

Eftirfylgni

 

Norðurlönd og Eystrasaltslöndin munu þróa, meta og deila með sér góðum starfsháttum og sameiginlegum verkefnum, einkum á þeim sviðum sem tilgreind eru í yfirlýsingu þessari.

Norræna ráðherranefndin getur gegnt mikilvægu hlutverki með því að greiða fyrir samstarfi á tilteknum áherslusviðum innan gildissviðs yfirlýsingarinnar, í nánu samstarfi við stjórnvöld landanna, innlend yfirvöld sem fara með málefni stafrænnar tækni og aðra viðeigandi hagsmunaaðila.

Ráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sem fara með málefni stafrænnar tækni í opinberum geira og einkageiranum, fara þess á leit við framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að hann aðstoði við gerð áætlunar þar sem tilgreindar verði viðeigandi aðgerðir og verkefni til framfylgdar markmiðum yfirlýsingar þessarar.

Ráðherrarnir fara jafnframt þess á leit við Norrænu ráðherranefndina að hún taki mið af núverandi skipulagi samstarfsins þegar hún kannar og kynnir áhrifaríkustu leiðir til að skipuleggja það starf sem krefst til framfylgdar yfirlýsingunni, í dreifðu skipulagi þar sem löndin skipta með sér ábyrgð á framvindu starfsins í tilteknum málaflokkum.