Yfirlýsing frá ráðherrum stafrænnar þróunar um sannprófun kennsla þvert á landamæri á svæðinu

22.09.23 | Yfirlýsing
Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru á meðal þeirra svæða heims þar sem stafræn þróun er hvað lengst á veg komin. Við, ráðherrar stafrænnar væðingar á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum, höfum einsett okkur að halda svæðinu í fremstu röð þegar kemur að stafrænni væðingu á opinberum vettvangi og að svæðið verði hið samþættasta í heimi í stafrænu tilliti árið 2030. Markmið okkar er að stafræn væðing komi öllum íbúum svæðisins til góða, óháð aldri, efnahagsstöðu, menntun eða stafrænni kunnáttu.

Upplýsingar

Adopted
22.09.2023
Location
Reykjavik, Iceland

Mikil útbreiðsla og notkun rafrænna skilríkja, ásamt áreiðanlegum þjóðskrám og traustum stjórnarháttum í tengslum við auðkennismál, eru þættir sem öll löndin á þessu svæði eiga sameiginlega. Þessir þættir hafa skilað sér í þróuðum stafrænum innviðum. Þetta gerir íbúum svæðisins kleift að tengjast þúsundum opinberra og einkarekinna þjónusta með öruggum hætti án vandræða.

Með enn frekari samþættingu svæðisins fyrir augum vinna yfirvöld landanna á sviði rafrænna skilríkja að því að gera íbúum svæðisins kleift að nota innlend rafræn skilríki til þess að fá aðgang að þjónustu þvert á landamæri innan svæðisins.

Við, ráðherrar stafrænnar þróunar á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum, munum færa okkur í nyt þann styrk og þá þróun sem átt hefur sér stað í löndum okkar og byggja ofan á núverandi lagaramma til þess að tryggja að samstarf Norðurlanda og Eystrasaltslandanna á sviði rafrænna skilríkja verði sameiginlegur grundvöllur fyrir sannprófun kennsla þvert á landamæri á svæðinu.

Til þess að gera þetta kleift munum við, ráðherrar málefna stafrænnar þróunar á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum:

  • Viðurkenna að í gæðum og samræmingu stafrænna innviða, lausna varðandi rafræn skilríki og þjóðskráa í löndum okkar felst sameiginlegur styrkur í þágu þess að efla stafrænan hreyfanleika þvert á landamæri á svæðinu.
  • Viðurkenna brýna þörf á lausnum þegar kemur að sannprófun kennsla og á því að slíkar lausnir verði stafrænum þjónustum aðgengilegar til þess að slíkar þjónustur geti samþykkt auðkenningu með rafrænum skilríkjum frá öðrum löndum innan svæðisins.
  • Leggja á það áherslu að lausnir varðandi sannprófun kennsla þurfi að hanna og innleiða á vettvangi hvers lands fyrir sig á grundvelli viðurkenndra staðla og samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltslandanna sem byggist á fyrirliggjandi lagaramma á svæðinu og í Evrópusambandinu.
  • Fela samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltslandanna á sviði rafrænna skilríkja og stafrænnar væðingar að þjóna sem helsti samstarfsvettvangur vegna vinnu í tengslum við sannprófun kennsla yfir landamæri á svæði okkar og að taka saman vegvísi þar sem fram kemur til hvaða marghliða aðgerða þarf að grípa og hvaða aðilar skulu koma að því.
  • Hvetja lögbær yfirvöld í löndum okkar, svo sem þjóðskrár og veitendur stafrænnar þjónustu, til þess að innleiða sannprófun kennsla þvert á landamæri í stefnu sína.
  • Einsetja okkur að vinna að marghliða samkomulagi á milli landa okkar sem mun leiða til áreiðanlegri, greiðari og öruggari sannprófunar kennsla einstaklinga þvert á landamæri á svæðinu í samræmi við núverandi og væntanlegar reglugerðir Evrópusambandsins.