Norðurlandaráð hvetur Tyrkland til að endurnýja aðild sína að Istanbúlsamningnum

01.07.21 | Fréttir
Demonstration.

Demonstration

Ljósmyndari
Iris Dager / norden.org
Tyrkland ætti að endurnýja aðild sína að Istanbúlsamningnum, sem ætlað er að vernda konur og stúlkur fyrir ofbeldi. Þessa áskorun er að finna í yfirlýsingu sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs og norræna velferðarnefndin lögðu fram í tengslum við þemaþing ráðsins.

„Istanbúlsamningurinn er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr, á tímum þegar COVID-19-faraldurinn, stríð og átök hafa í för með sér aukið ofbeldi gegn konum. Því er mikið áhyggjuefni að Tyrkland hafi nú ákveðið að segja sig frá Istanbúlsamningnum. Sú ákvörðun grefur undan grundvallarréttindum tyrkneskra stúlkna og kvenna og sviptir þær nauðsynlegri réttarvernd gegn ofbeldi,“ segir í yfirlýsingunni.

Forsætisnefndin og velferðarnefndin hvetja Tyrkland til að endurnýja aðild sína að samningnum og taka þannig skýra afstöðu með réttindum stúlkna og kvenna.

Jafnrétti ofarlega á dagskrá

„Norðurlönd eiga að taka sameiginlega afstöðu gegn aðgerðum sem brjóta gegn réttindum kvenna, hvar sem þær eiga sér stað í heiminum. Jafnrétti og mannréttindi eru ofarlega á dagskránni hjá velferðarnefnd Norðurlandaráðs, sem telur það sjálfsagðan hlut að skipta sér af alþjóðamálum þar sem vegið er að mannréttindum og norrænum gildum,“ segja Bente Stein Mathisen og Nina Sandberg, formaður og varaformaður í norrænu velferðarnefndinni.

Það var velferðarnefndin sem átti frumkvæði að yfirlýsingunni. Forsætisnefndin lýsti einnig yfir stuðningi við yfirlýsinguna á næsta fundi sínum. Velferðarnefndin vinnur meðal annars að auknu jafnrétti kynja og er ein af fjórum fagnefndum Norðurlandaráðs.

Frumkvæði velferðarnefndarinnar

Tyrkland tilkynnti það í mars 2021 að landið hygðist segja sig frá samningnum. Ákvörðuninni hefur verið mótmælt bæði í Tyrklandi og alþjóðlega.

„Lýðræði, réttarríkið, jöfnuður og mannréttindi, þar með talin réttindi kvenna, eru grundvallargildi fyrir Norðurlandaráð og við viljum líka standa vörð um þau alþjóðlega. Á þessum gildum er einnig vakin athygli í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Bertel Haarder.

Bæði velferðarnefndin og forsætisnefndin hafa lýst yfir fullum stuðningi við yfirlýsinguna.

Yfirlýsing frá velferðarnefnd Norðurlandaráðs vegna úrsagnar Tyrkja úr Istanbúlsamningnum

Istanbúlsamningi Evrópuráðsins er ætlað að sporna við ofbeldi gegn konum og ofbeldi í nánum samböndum. Samningurinn er alþjóðleg og lagalega bindandi umgjörð sem veitir stúlkum og konum réttarvernd gegn öllu frá eltihrellingu til nauðgana og nauðungarhjónabanda.

Istanbúlsamningurinn er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr, á tímum þegar COVID-19-faraldurinn, stríð og átök hafa í för með sér aukið ofbeldi gegn konum. Því er mikið áhyggjuefni að Tyrkland hafi nú ákveðið að segja sig frá Istanbúlsamningnum. Sú ákvörðun grefur undan grundvallarréttindum tyrkneskra stúlkna og kvenna og sviptir þær nauðsynlegri réttarvernd gegn ofbeldi.

Því hvetjum við Tyrkland til að endurnýja aðild sína að samningnum og taka þannig skýra afstöðu með grundvallarréttindum stúlkna og kvenna.

Öll norrænu löndin hafa fullgilt og innleitt Istanbúlsamninginn.