Fæðingarorlofsgreiðslur í Svíþjóð

Svenske barselsdagpenge
Hér geturðu lesið um rétt til fæðingarorlofs, hvað þú getur tekið langt fæðingarorlof og hvernig þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur.

Fæðingarorlof gerir foreldrum kleift að taka leyfi frá störfum til þess að gæta barns síns. Með fæðingarorlofsgreiðslum getur foreldri tekið leyfi frá störfum og fengið greiðslur yfir lengri samfleytt tímabil, staka daga eða hluta úr degi.

Meginreglan er sú að foreldrar sem búa og starfa í Svíþjóð ávinna sér rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í Svíþjóð. Foreldrar sem búa í Svíþjóð en starfa í öðru norrænu landi ávinna sér rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í því landi sem þeir starfa.

Orlof vegna meðgöngu, fæðingar eða ættleiðingar

Í Svíþjóð áttu rétt á fullu leyfi frá störfum þegar þú fæðir barn. Rétturinn nær til samfellds tímabil frá því sjö vikum fyrir áætlaðan fæðingardag til sjö vikna eftir fæðingu.

Sem foreldri áttu rétt á fullu leyfi frá störfum þar til barnið er 18 mánaða.

Sem foreldri áttu rétt á leyfi frá störfum vegna fæðingarorlofs þar til barnið er 8 ára eða lýkur 1. bekk í grunnskóla (2. bekkur á Íslandi). Sömuleiðis eiga foreldrar rétt á að stytta vinnutíma sinn um allt að fjórðung.

Foreldri á rétt á að skipta fæðingarorlofi sínu upp í þrjú tímabil að hámarki hvert almanaksár. Ef þú nærð samkomulagi við vinnustaðinn geturðu skipt fæðingarorlofinu upp í fleiri tímabil.

Sótt um orlof

Þú þarft að tilkynna vinnustaðnum um fæðingarorlof að minnsta kosti tveimur mánuðum áður en til þess kemur. Á sumum vinnustöðum gilda samningar um að tilkynna skuli um töku fæðingarorlofs ýmis fyrr eða seinna. Gakktu úr skugga um það á vinnustaðnum hvaða reglur gilda um þig.

Tekjur í fæðingarorlofi

Þú getur fengið fæðingarorlofsgreiðslur á meðan þú ert í fæðingarorlofi ef þú ert almannatryggð/ur í Svíþjóð og ef barnið býr í Svíþjóð, ESB/EES-landi eða Sviss. Greiddar eru fæðingarorlofsgreiðslur í 480 daga fyrir eitt barn. Af þeim eru greiðslur vegna 390 daga byggðar á tekjum foreldris. Fyrir þá 90 daga sem eftir standa er lágmarksgreiðsla.

Mismunandi reglur gilda um fæðingarorlofsgreiðslur eftir því hvenær barnið er fætt.

Ef barnið er fætt fyrir 1. janúar 2014

Foreldrar skipta 480 dögum jafnt á milli sín en 60 dagar á sjúkradagpeningum eru eyrnarmerktir hvoru foreldri um sig. Þeir dagar sem eftir standa mega ganga á milli foreldra.

Ef barnið er fætt árið 2014 eða 2015

Foreldrar fá greiðslur sem nema upphæð sjúkradagpeninga í 195 daga hvort og lágmarksbætur í 45 daga. Dagarnir geta gengið milli foreldra en 60 daga greiðsla sem nemur upphæð sjúkradagpeninga er sérmerkt hvoru foreldri um sig.

Ef barnið er fætt 2016 eða síðar

Hvort foreldri fær greiðslur sem nema upphæð sjúkradagpeninga í 195 daga og 45 daga á lágmarksbótum. Dagarnir mega ganga á milli foreldra en 90 daga greiðsla sem nemur upphæð sjúkradagpeninga er eyrnamerkt hvoru foreldri um sig og getur ekki færst á milli þeirra.

Einfalt er að kynna sér hvað fæðingarorlofsgreiðslur eru háar á síðunni Kassakollen á vef Försäkringskassan.

Sótt um fæðingarorlofsgreiðslur

Fyrst þarftu að tilkynna um leyfi frá störfum áður en þú sækir um fæðingarorlofsgreiðslur hjá Försäkringskassan. Ef þú ert með sænsk rafræn skilríki geturðu tilkynnt um leyfi og sótt um greiðslur á vef Försäkringskassan.

  Ef umsóknin er fullnægjandi berast greiðslur innan 30 daga. Ef eitthvað vantar í umsóknina hefur Försäkringskassan samband við þig áður en vika er liðin. Greiðslur eru inntar af hendi 25. hvers mánaðar.

  Sum fyrirtæki bjóða upp á viðbótargreiðslur við fæðingarorlofsgreiðslurnar frá Försäkringskassan. Kannaðu á vinnustaðnum hvað þér stendur til boða vegna fæðingarorlofs.

  Þegar þú flytur til annars norræns lands áður en taka fæðingarorlofs hefst eða á meðan á því stendur

  Meginreglan er sú að þú ávinnur þér rétt til fæðingarorlofs í því landi sem þú starfar.

  Fæðingarorlofsgreiðslur í Svíþjóð ef flutt er til Svíþjóðar áður en orlofið hefst

  Ef þú flytur til Svíþjóðar og ert almannatryggð/ur í Svíþjóð áttu rétt á fæðingarorlofsgreiðslum. Ef barnið fæðist í Svíþjóð eða flytur til Svíþjóðar meðan það er á fyrsta ári áttu rétt á allt að 480 dögum á fæðingarorlofsgreiðslum. Orlofstímabilið er takmarkað ef börn flytjast til Svíþjóðar eftir að þau hafa náð eins árs aldri. Ef þú hefur fengið fæðingarorlofsgreiðslur í öðru landi sem samsvara sænskum fæðingarorlofsgreiðslum dregst sá tími frá sænskum fæðingarorlofsgreiðslum.

  Fæðingarorlofsgreiðslur í Svíþjóð ef flutt er til annars lands eftir að taka orlofs hefst

  Ef þú færð fæðingarorlofsgreiðslur sem miðast við tekjur þínar geturðu tekið sænskar fæðingarorlofsgreiðslur með þér til annars norræns lands eftir að taka orlofsins hefst ef orlofið heldur áfram eftir að þú flytur.

  Sænskar lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi er ekki hægt að flytja á milli Norðurlandanna þegar þú flytur úr landi.

  Fæðingarorlofsgreiðslur í Svíþjóð ef flutt er til Svíþjóðar eftir að taka orlofs hefst

  Ef þú flytur til Svíþjóðar eftir að taka fæðingarorlofs hefst þarftu að sækja um að taka með þér fæðingarorlofsgreiðslur frá heimalandinu til Svíþjóðar.

  Fáðu upplýsingar hjá almannatryggingum í því landi sem þú flytur frá um hvernig fæðingarorlofsgreiðslum er hagað þegar þú býrð í Svíþjóð.

  Fæðingarorlof þegar fjölskyldan býr í Svíþjóð og annað eða báðir foreldrar starfa í öðru landi

  Meginreglan er sú að fæðingarorlofsgreiðslur koma frá því landi sem þú ert almannatryggð/ur í. Ef þú býrð í Svíþjóð og starfar í öðru norrænu landi er það hitt landið sem innir fæðingarorlofsgreiðslurnar af hendi.

  Ef þú starfar og býrð í einu landi en starfar einnig í öðru landi heldurðu áfram að vera almannatryggð/ur í búsetulandinu.

  Ef foreldrar starfa hvort í sínu landinu eiga þeir rétt á fæðingarorlofi í samræmi við reglur landsins sem þeir starfa. Fæðingarorlofsdagarnir reiknast saman. Fæðingarorlofsdagar sem annað foreldrið tekur út í öðru norrænu landi eru dregnir frá þeim dögum sem hitt foreldrið tekur út í Svíþjóð og öfugt.

  Ef þú starfar í öðru norrænu landi og ert fyrri til að taka fæðingarorlof þarf hitt foreldrið sem tekur fæðingarorlof í Svíþjóð að gera grein fyrir því lengd orlofsins sem þú hefur tekið í hinu norrænu landinu sem gerir Försäkringskassan kleift að reikna út hvað maki þinn á rétt á löngu fæðingarorlofi í Svíþjóð.

  Ef báðir foreldrar starfa í öðru norrænu landi eiga þeir rétt á fæðingarorlofi samkvæmt reglum starfslandsins.

  Hvar færðu svör við spurningum þínum?

  Þú getur hringt í þjónustuver Försäkringskassan +46 (0)771-524 524 eða fundið svör við spurningum þínum um fæðingarorlof og fæðingarorlofsgreiðslur á vef Försäkringskassan.

  Spurning til Info Norden

  Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

  ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

  Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
  Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna