Foreldrabætur í Finnlandi

Suomen etuudet lapsiperheille
Hér er sagt frá svokölluðum foreldrabótum í Finnlandi. Þær eru mæðrastyrkur, mæðraorlof og ýmiss konar dagpeningar fyrir foreldra. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Finnska almannatryggingastofnunin (Kansaneläkelaitos eða Kela) greiðir ýmiss konar bætur þeim barnafjölskyldum sem heyra undir finnska almannatryggingakerfið. Á þessari síðu segir fyrst frá mæðrastyrk og síðan frá ýmsum gerðum dagpeninga fyrir foreldra.

Kerfinu fyrir dagpeninga foreldra var breytt 1.8.2022. Foreldrar fá greitt samkvæmt nýja kerfinu ef settur dagur barnsfæðingar er 4.9.2022 eða síðar.

Sagt er frá styrkjum vegna dagvistunar barna, eða styrk til að vera heima með barn og styrk til dagvistunar á vegum einkaaðila, á síðunni Dagvistun barna í Finnlandi. Upplýsingar um barnabætur eru á síðunni Barnabætur í Finnlandi.

Mæðrastyrkur

Eftir fimm mánaða meðgöngu (154 daga) er hægt að sækja um mæðrastyrk. Styrkurinn er ýmist fjárstyrkur eða mæðrapakki, sem inniheldur barnaföt og aðrar nauðsynjar fyrir ungbörn. Verði fjárstyrkur fyrir valinu nemur hann 170 evrum sem greiddar eru skattfrjálst.

Nánari upplýsingar um mæðrastyrk eru á vefsvæði Kela. Nánari upplýsingar um meðgöngu og fæðingu  eru á síðunni Meðganga og fæðing í Finnlandi.

Fæðingarorlof og dagpeningar þegar settur dagur var fyrir 4.9.2022

Eigir þú von á barni getur þú sótt um fæðingarorlofsgreiðslur hjá Kela. Orlofsgreiðslurnar skiptast í mæðraorlof, feðraorlof og foreldraorlof, auk sérstaks styrks sem greiðist til móður ef hún þarf að hætta að vinna vegna áhættuþátta. Til að eiga rétt á fæðingarorlofsgreiðslum þarft þú að hafa átt aðild að sjúkratryggingum í Finnlandi í 180 daga samfleytt fyrir fæðingu barns. Hafir þú verið tryggð/t/ur í öðru norrænu landi eða öðru ESB/EES-landi er hægt að taka þann tíma með í reikninginn.

Mæðraorlof og viðbótarfæðingarorlof vegna sérstakra kringumstæðna

Mæðraorlof getur hafist 30–50 virkum dögum eða um 5–8 vikum fyrir settan fæðingardag barns. Konur ráða því sjálfar hvenær þær hefja orlofstöku. Mæðraorlof er greitt fyrir 105 virka daga. Séu ákveðnir áhættuþættir fyrir hendi á vinnustað þínum getur þú sótt um að hefja orlof fyrr vegna sérstakra kringumstæðna.

Foreldraorlof

Að mæðraorlofi loknu er greitt foreldraorlof sem nemur 158 virkum dögum. Það er hægt að greiða hvoru foreldrinu sem er. Foreldrarnir geta einnig tekið hlutaorlof á sama tíma og fengið hlutagreiðslur frá Kela á því tímabili.

Feðraorlof

Feður fá greitt feðraorlof fyrir 54 daga að hámarki. Hluta feðraorlofs má taka á sama tíma og móðir tekur sitt orlof. Faðir þarf að taka orlof sitt áður en að barnið nær tveggja ára aldri.

Orlof og dagpeningar foreldra þegar settur dagur er 4.9.2022 eða síðar 

Eigir þú von á barni getur þú sótt um fæðingarorlofsgreiðslur hjá Kela. Orlofsgreiðslurnar skiptast í greiðslur til hins þungaða foreldris, aðrar orlofsgreiðslur og sérstakan orlofsauka sem hægt er að greiða ef þungað foreldri þarf að hætta að vinna fyrr vegna áhættuþátta. Til að eiga rétt á greiðslum þarft þú að vera sjúkratryggð/t/ur í Finnlandi. Þú færð fæðingarorlof aðeins greitt ef þú tekur leyfi frá vinnu. Það á þó ekki við um hlutagreiðslur fæðingarorlofs, sem hægt er að fá á móti hlutastarfi.

Orlofsgreiðslur til þungaðs foreldris og sérstakur orlofsauki

Þungað foreldri getur hafið orlofstöku 14–30 virkum dögum eða um 2–5 vikum fyrir settan dag. Foreldrið getur sjálft valið hvenær orlofstaka hefst. Þungað foreldri fær greidda orlofsdagpeninga fyrir 40 virka daga. Séu ákveðnir áhættuþættir fyrir hendi á vinnustað þungaðs foreldris er hægt að sækja um sérstakan orlofsauka á meðgöngunni vegna sérstakra kringumstæðna.
 

Foreldraorlof

Finnskt foreldraorlof fyrir eitt barn er greitt fyrir samtals 320 virka daga. Foreldraorlofsdögunum er skipt jafnt á milli foreldranna, sem þýðir að hvort foreldri um sig hefur 160 foreldraorlofsdaga til ráðstöfunar. Foreldrarnir geta fengið hlutaorlof greitt á sama tíma. Orlofið þarf að nýta áður en að barnið nær tveggja ára aldri. Foreldri getur unnið í hlutastarfi og fengið hlutaorlof greitt á móti.

Millilandaflutningar og bætur til barnafjölskyldna

Aðeins má flytja rétt til fæðingarorlofs frá einu norrænu landi til annars að ströngum skilyrðum uppfylltum. Best er að kynna sér þessi skilyrði áður en flutt er.

Flutt frá Finnlandi til annars norræns lands

Ef þú flytur varanlega frá Finnlandi til annars norræns lands á sama tímabili og þú þiggur foreldraorlof , og þú ert ekki lengur í vinnu í Finnlandi, greiðir Finnland þér áfram orlofsgreiðslur út tímabilið þrátt fyrir flutninginn. Í tilfelli styrks til að vera heima með barn hætta greiðslur þó sama dag og flutt er, nema einhver í fjölskyldunni stundi enn vinnu í Finnlandi.

Í sumum tilfellum greiðir finnska ríkið bætur til foreldra sem dvelja tímabundið í öðru landi. Þá er skilyrði að umsækjandi heyri áfram undir finnska almenningatryggingakerfið meðan á dvölinni stendur.

Ávallt skal tilkynna Kela um millilandaflutninga.

Flutt frá öðru norrænu landi til Finnlands

Ef þú flytur til Finnlands og þiggur þegar orlofsgreiðslur vegna barns eða barna frá öðru norrænu landi, þá greiðir landið sem flutt er frá áfram út orlofstímabilið. Fáðu nánari upplýsingar hjá þeirri stofnun sem hefur umsjón með greiðslunum eða kynntu þér reglur um fæðingarorlof í viðkomandi landi.

Sé flutt til Finnlands á meðgöngutíma, áður en annað norrænt land hefur hafið orlofsgreiðslur, er hægt að sækja um fæðingarorlofsgreiðslur til Kela svo lengi sem umsækjandi telst hafa fasta búsetu í Finnlandi eða heyrir undir finnska almannatryggingakerfið vegna vinnu sinnar.

Ef setttur dagur var fyrir 4.9.2022, þá á faðir rétt á feðraorlofi og orlofsgreiðslum í Finnlandi þó að hitt foreldrið þiggi slíkar greiðslur frá öðru norrænu landi. Það er þó háð því skilyrði að faðirinn stundi ekki vinnu í öðru landi. 

Ef settur dagur er 4.9.2022 eða síðar á annað foreldrið rétt á orlofsgreiðslum í Finnlandi þó að hitt foreldrið þiggi slíkar greiðslur frá öðru norrænu landi. Þá getur foreldri fengið alla 320 orlofsadagana frá Finnlandi, að því gefnu að foreldrið stundi ekki vinnu í öðru landi.

Tilkynnið millilandaflutninga ávallt til Kela og til samsvarandi stofnunar í landi sem flutt er frá.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna