Fæðingarorlofsgreiðslur á Íslandi

Íslenskar fæðingarorlofsgreiðslur
Hér er að finna upplýsingar um fæðingarorlof, hversu langt fæðingarorlof er hægt að taka og hvernig sótt er um greiðslur í fæðingarorlofi.

Fæðingarorlof

Foreldrar eiga rétt á launuðu orlofi við fæðingu barns, þegar það ættleiðir barn eða tekur barn í varanlegt fóstur. Foreldrar fá annað hvort orlofsgreiðslur eða fæðingarstyrk úr Fæðingarorlofssjóði en það fer eftir stöðu þeirra á vinnumarkaði. Einnig er hægt að taka foreldraorlof en það er ólaunað leyfi sem foreldrar geta fengið fram að 8 ára aldri barns. 

Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára og töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. 

 • Tímalengd fæðingarorlofs ræðst af því á hvaða ári barn er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur.
 • Tímalengd ársins 2021 og síðar er alls 12 mánuðir. Hvort foreldri um sig á rétt á 6 mánuðum og eru 6 vikur framseljanlegar.
 • Tímalengd ársins 2020 er alls 10 mánuðir. Hvort foreldri um sig á rétt á 4 mánuðum sem eru óframseljanlegir en 2 mánuðir eru sameiginlegir sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Foreldrar geta hafið töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þeir eiga ætíð rétt á að taka fæðingarorlofið í einu lagi en vinnuveitandi og starfsmaður gera samkomulag sín á milli um hvernig haga skuli fæðingarorlofinu. Þó er ekki heimilt að taka orlofið skemur en tvær vikur í senn. Samkvæmt lögum er móður skylt að vera í orlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. 

  Sótt um fæðingarorlofsgreiðslur

  Foreldri á vinnumarkaði skal sækja um greiðslur sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Foreldri í fullu námi eða utan vinnumarkaðar skal sækja um fæðingarstyrk þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag.

  Sótt er um fæðingarorlof hjá Fæðingarorlofssjóði.

   

  Greiðslur í fæðingarorlofi

  Rétt til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði eiga foreldrar eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem foreldrið hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns.

  Foreldri sem hefur starfað í öðru EES landi hluta af fyrrnefndu sex mánaða tímabili getur flutt réttindi sín á milli landa ef viðkomandi hefur störf á íslenskum vinnumarkaði innan 10 virkra daga frá því það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru EES landi og starfar að lágmarki í einn mánuð fyrir fæðingardag barns á Íslandi. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru EES ríki fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Við útreikning greiðslna er þó eingöngu miðað við laun á innlendum vinnumarkaði.

  Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera a.m.k. 25%. Greiðslur nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldris.

  Miðað er við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Greiðslur miðast þó alltaf við ákveðnar hámarks- og lágmarksupphæðir sem ákveðnar eru á hverjum tíma.

  Réttur til fæðingarorlofs fellur niður við 24 mánaða aldur barns. Sækja þarf um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

  Fæðingarorlofsgreiðslur eru greiddar út í lok mánaðar fyrir undanfarandi mánuð í fæðingarorlofi.

  Þegar flutt er til annars norræns ríkis áður en orlof hefst eða meðan á því stendur

  Meginreglan er að foreldrar ávinna sér rétt til fæðingarorlofs í því landi sem þeir starfa.

   Er hægt að fá íslenskt fæðingarorlof ef foreldri flytur til Íslands áður en orlofið hefst?

   Hafi foreldri flutt til Íslands eftir fæðingu barns á foreldrið ekki rétt á íslensku fæðingarorlofi en hafi foreldrið flutt til Íslands fyrir fæðingu barns getur komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum.

   Fæðingarorlofssjóður veitir nánari upplýsingar hvort viðkomandi eigi rétt á fæðingarorlofi á Íslandi. 

   Er hægt að fá íslenskar fæðingarorlofsgreiðslur ef flutt er til Íslands eftir að orlof hefst?

   Sé flutt til Íslands eftir að taka fæðingarorlofs hefst skal sækja um að taka með sér fæðingarorlofsgreiðslur frá heimalandi sínu til Íslands. Hafa skal samband við viðkomandi stofnun þess lands sem flutt er frá til að fá upplýsingar um hvernig hægt er að fá fæðingarorlfsofsgreiðslur þegar viðkomandi á heima í öðru landi.

   Er hægt að flytja með sér íslenskt fæðingarorlof ef flutt er til annars norræns lands eftir að fæðingarorlof hefst?

   Flytji foreldri lögheimili sitt til annarra landa á meðan á fæðingarorlofsgreiðslum stendur hefur það ekki áhrif á greiðslur til foreldris þar sem um áunnin réttindi er að ræða. Þó er foreldri ekki heimilt að vinna á meðan á því tímabili stendur nema foreldri fresti töku fæðingarorlofs í samráði við Fæðingarorlofssjóð.

   Fæðingarorlof þegar fjölskyldan á heima á Íslandi og annað eða báðir foreldrar stafa í öðru norrænu landi?

   Meginreglan er sú að fæðingarorlofsgreiðslur koma frá því landi þar sem viðkomandi á aðild að almannatryggingum. Starfi einstaklingur í öðru norrænu ríki en á heima á Íslandi eiga fæðingarorlofsgreiðslur að koma frá starfslandinu. Fólk sem starfar og á heima í einu landi og starfar einnig í öðru landi á áfram aðild að almannatryggingum og fylgir lögum í búsetulandinu.

   Ef foreldrar starfa hvort í sínu landinu eiga þeir rétt á fæðingarorlofi í samræmi við reglur sem gilda í starfslandi hvors um sig. 

    Foreldraorlof

    Auk fæðingarorlofs á hvort foreldri um sig rétt á að taka launalaust leyfi sem kallast foreldraorlof í allt að 16 vikur fram að átta ára aldri barnsins. Foreldraorlofinu fylgja ekki greiðslur og foreldrar geta ekki framselt rétt til foreldraorlofs sín á milli. 

    Fæðingarstyrkur

    Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi geta átt rétt á fæðingarstyrk. Skilyrði fyrir greiðslu er að jafnaði að foreldri eigi lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og síðustu tólf mánuði á undan. Réttur til fæðingarstyrks fellur niður við 24 mánaða aldur barns. Sækja skal um fæðingarstyrk í síðasta lagi þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

    Fæðingarstyrk námsmanna fá þeir foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. 

    Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

    Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Fæðingarorlofssjóðs. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis (+354) 515 4800. 

    Hafa samband við yfirvöld
    Spurning til Info Norden

    Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

    ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

    Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
    Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna