Þjóðskrá í Noregi

Norrænir ríkisborgarar geta dvalist í Noregi í allt að sex mánuði án þess að skrá sig inn í landið. Norrænir ríkisborgarar þurfa hvorki atvinnu- né dvalarleyfi til þess að eiga heima eða starfa í Noregi.
Um flutninga til Noregs frá öðru Norðurlandanna gildir Norðurlandasamningurinn um almannaskráningu sem Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa undirritað. Samkvæmt samningum er aðeins hægt að eiga lögheimili í einu Norðurlandanna í senn. Reglur í nýja landinu gilda um skráningu þína inn í landið.
Ef þú ert með lögheimili í Noregi áttu yfirleitt aðild að almannatryggingakerfinu þar í landi. Aðild að almannatryggingum veitir aðgang að þjónustu NAV (norsku tryggingastofnunarinnar). Í Noregi geturðu átt aðild vegna búsetu eða sem starfsmaður. Þú getur einnig átt aðild að almannatryggingakerfinu á meðan þú dvelst erlendis.
Aðild á grundvelli búsetu:
- Aðild á grundvelli búsetu krefst þess að þú dveljist í Noregi í að minnsta kosti 12 mánuði. Aðildin er háð því að þú dveljist löglega í Noregi.
- Ef aðild þín er vegna búsetu í Noregi geturðu dvalist erlendis í allt að 12 mánuði samfleytt án þess að missa trygginguna.
Ef þú býrð ekki í Noregi áttu skyldubundna aðild að almannatryggingum ef þú
- starfar í Noregi eða á norska landgrunninum;
- ert norskur ríkisborgari eða ríkisborgari í EES-landi og ert í áhöfn á norsku skipi. Undantekningin er veitingastarfsfólk á skemmtiferðaskipum sem skráð eru í norsku alþjóðlegu skipaskránni (NIS);
- ert norskur ríkisborgari eða ríkisborgari í EES-landi og starfar erlendis í þjónustu norska ríkisins;
- ert norskur ríkisborgari eða ríkisborgari í EES-landi og þiggur fjárhagslega aðstoð úr lánasjóði námsmanna (Lånekassen) vegna náms erlendis. Undantekningin er ef þú stundar nám á Norðurlöndum (þá áttu aðild að almannatryggingakerfinu í sama landi og þú ert með skráð lögheimili).
Ef þú átt ekki aðild að almannatryggingakerfinu nýturðu engra réttinda samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni. Engu að síður áttu rétt á læknisaðstoð ef bráð veikindi ber að.
Dvalist í Noregi skemur en í sex mánuði
Meginreglan er sú að norrænir ríkisborgarar sem dvelja skemur en sex mánuði í Noregi þurfa ekki að tilkynna um flutning til Noregs.
Ef þú uppfyllir ekki skilyrði til að fá kennitölu geturðu fengið svonefnt d-númer (tímabundna kennitölu). Hana færðu til dæmis ef þú ætlar að vinna (og ert skattskyld/ur) eða hyggst stofna bankareikning í Noregi.
Vinnustaðurinn pantar d-númerið og ákveður hvort skoða þurfi persónuskilríkin þín áður en þú færð d-númer. Ef vinnustaðurinn fer fram á að skilríkin þín verði skoðuð þarftu að mæta á skattstofuna. Skattyfirvöld annast eftirlit með persónuskilríkjum fyrir hönd allra sem panta d-númer.
Ef þú ákveður að framlengja dvöl þína í Noregi að sex mánuðum liðnum þarftu að tilkynna það til skattstofu. Ef skattstofan kemst að þeirri niðurstöðu að þú eigir að vera með lögheimili í Noregi úthlutar hún þér norskri kennitölu.
Dvalið í Noregi lengur en í sex mánuði
Ef þú hyggst dveljast í Noregi lengur en í sex mánuði þarftu að tilkynna um flutninginn til Noregs.
Þú tilkynnir flutningana í eigin persónu á skattstofu (skráningaryfirvöld) í landinu. Mundu að panta tíma til að tilkynna um flutninga. Ef þú flytur til Noregs með fjölskyldunni er mikilvægt að allir í fjölskyldunni mæti í eigin persónu á skattstofuna.
Á skattstofunni fyllirðu út eyðublað um flutninginn til Noregs og framvísar fullgildum persónuskilríkjum og öðrum gögnum. Eyðublaðið fæst á skattstofunni eða einnig á vef skattyfirvalda.
Ef þú ferðast milli Noregs og nágrannalands vegna tekjuskapandi starfsemi er ekki víst að þú þurfir að skrá þig til heimilis í Noregi. Engu að síður þarftu að tilkynna þig á skattstofu. Á flutningaeyðublaðinu geturðu merkt við að þú farir á milli landa vegna vinnu.
Ef þú skráir lögheimili í Noregi færðu norska kennitölu (samanstendur af fæðingardagsetningu og persónunúmeri). Yfirleitt berst þjóðskrá gamla landsins sjálfkrafa tilkynning frá norsku þjóðskránni um að þú sért með skráð lögheimili í Noregi. Þegar tilkynningin berst merkir þjóðskrá brottflutningslandsins við að þú sért flutt/ur úr landi.
Eigir þú eftir að flytja frá Noregi heldurðu sömu kennitölu og þér var úthlutað.
Ef þú flytur til Noregs frá landi utan Norðurlanda
Á vef norskra skattyfirvalda eru upplýsingar um skilyrði fyrir skráningu á búsetu í Noregi fyrir fólk sem flyst þaðan utan Norðurlandanna.
Hér má finna nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.