Flutt eða ferðast til Svalbarða

Flytte eller reise til Svalbard
Hér geturðu lesið um ýmsar reglur sem vert er að hafa í huga þegar ferðast eða flutt er til Svalbarða.

Svalbarði og Noregur

Svalbarði tilheyrir konungsríkinu Noregi, en ekki gilda öll sömu lög þar og á meginlandi Noregs. Svalbarði á til dæmis hvorki aðild að Schengen-samstarfinu né EES-samningnum, auk þess sem gerð er krafa um að fólk geti framfært sér sjálft þegar það býr á Svalbarða eða dvelur þar tímabundið. Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar gildir þó á eyjunum í norðri en hafa ber í huga að þar geta gilt aðrar reglur en á meginlandi Noregs.

Reglur ferðalög til Svalbarða

Útlendingalögin gilda ekki á Svalbarða en Svalbarðasamkomulagið kveður á um þjóðréttarlega stöðu eyjaklasans. Í því felst að ríkisborgarar þeirra landa sem hafa undirritað samkomulagið skulu eiga jafnan rétt á aðgangi að og dvöl á Svalbarða. Svalbarði er ekki aðili að Schengen-samstarfinu og útlendingar þurfa því ekki vegabréfsáritun eða vinnu- eða dvalarleyfi til þess að dveljast þar. Hins vegar þarf vegabréfsáritun til Schengen ef ferðast er frá Svalbarða með viðkomu á meginlandi Noregs.

Allir sem ferðast til og frá Svalbarða verða að bera vegabréf. Ríkisborgarar Schengen-landa og norrænir ríkisborgarar geta einnig framvísað landsbundnu nafnskírteini þegar þeir ferðast til og frá Svalbarða.

Flutt til Svalbarða

Mælt er með því að hafa fundið sér vinnu eða nám áður en flutt er til Svalbarða. Til að geta búið á Svalbarða þarf fólk að geta séð fyrir sér. Þetta á bæði við um Norðmenn og erlenda ríkisborgara. 

Einstaklingar sem hyggjast setjast að á Svalbarða verða að skrá sig í manntalsskrá eyjaklasans áður en átta dagar eru liðnir frá komudegi. Gefðu þig fram á skattstofunni ef:

  • þú flytur til Svalbarða og hyggst dveljast þar að minnsta kosti í 6 mánuði;

  • þú flytur innan eyjaklasans og dvöl þín verður/hefur verið að minnsta kosti 6 mánuðir;

  • þú flytur frá Svalbarða.

Ef þú ert með lögheimili á Svalbarða öðlastu ákveðin réttindi tengd veiðum, byssuleyfi, áfengisskírteini og heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir að einstaklingur sé skráður til heimilis á Svalbarða telst hann ekki búsettur í Noregi. Því er mikilvægt að þú kannir í heimalandinu hvaða réttindi og skyldur eiga við þig þegar þú flytur til Svalbarða.

Réttindi og skyldur við dvöl á Svalbarða

Ef þú ætlar að dvelja tímabundið á Svalbarða eða flytja þangað þarftu að kynna þér þær reglur sem þar gilda.

Gerð er krafa um að einstaklingar geti séð sér farborða þegar þeir dvelja á Svalbarða. Sysselmesteren, æðsta fulltrúi norsku ríkisstjórnarinnar á eyjaklasanum, er heimilt að vísa þeim frá sem ekki uppfylla kröfurnar. Þetta á jafnt við um norska ríkisborgara og aðra.

Lög um félagsþjónustu gilda ekki á Svalbarða og eyjabúar eiga ekki rétt á fjárhagslegri aðstoð til framfærslu eða húsnæðis. Fólk sem er búsett á Svalbarða á ekki heldur rétt á aðstoð ef það er hjálpar þurfi vegna veikinda, fötlunar eða aldurs.

Til að öðlast rétt á bótum frá NAV (tryggingastofnun) á Svalbarða þarf fólk að vera skráð í norska almannatryggingakerfinu. Ef þú starfar hjá norskum atvinnurekanda á Svalbarða öðlastu sjálfkrafa aðild að almannatryggingakerfinu en sú trygging gengur úr gildi mánuði síðar en ráðningarsambandi lýkur. Svör við spurningum um réttindi á bótagreiðslum á Svalbarða veita NAV í Noregi eða félagsmálayfirvöld í heimalandinu áður en haldið er af stað.

Útlendingar sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús á Svalbarða verða að framvísa vegabréfi og sjúkratryggingarskírteini. Ef þú ert ekki með sjúkratryggingarskírteini þarftu að vera með tryggingu eða að öðrum kosti greiða fyrir vistina úr eigin vasa.

Norsk útlendingalög gilda ekki á Svalbarða og þar af leiðandi geta einstaklingar ekki áunnið sér rétt til dvalarleyfis á meginlandi Noregs þrátt fyrir að þeir búi á Svalbarða árum saman.

Atvinna og húsnæði

Þú þarft að útvega þér vinnu á Svalbarða áður en þú ferðast þangað. Íbúðarhúsnæði á Svalbarða er yfirleitt í eigu atvinnurekenda og er í boði í tengslum við atvinnutilboð. Erfitt getur reynst að finna húsnæði á Svalbarða ef engin er vinnan.

Vinnumála- og velferðarstofnunin, NAV, býður upp á yfirlit yfir öll laus störf hjá hinu opinbera í Noregi.

Skattar á Svalbarða

Skattalög á Svalbarða fela í sér að allir skattar sem eru greiddir í eyjaklasanum eru notaðir þar. Skattarnir eru lægri en á meginlandi Noregs. Skattalöggjöfin er tvískipt. Almenn skattskylda tengist ýmist búsetu í eyjaklasanum en auk hennar er takmörkuð skattskylda.

Nám á Svalbarða

Á Svalbarða er háskólasetur (UNIS), þar sem kennt er og stundaðar rannsóknir í líffræði norðurslóða, jarðfræði, jarðeðlisfræði og tæknifræði. UNIS er ekki sjálfstæður háskóli heldur sérhæfingarstofnun fyrir námsfólk sem stundað hefur nám við aðra háskóla í Noregi eða erlendis. Enska er vinnustaðatungumálið á UNIS og þar er boðið upp á námskeið á grunn-, meistara- og doktorsstigum.

Gagnlegir tenglar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna