Réttur til heilbrigðisþjónustu í Noregi

Rett til helsetjenester i Norge
Hér getur þú lesið þér til um hvers konar heilbrigðisþjónustu þú átt rétt á ef þú flytur til Noregs, dvelur tímabundið í Noregi eða ferðast til og frá vinnu yfir norsku landamærin.

Réttur til heilbrigðisþjónustu við búsetu í Noregi

Ef þú ert með lögheimili í Noregi áttu rétt á heimilislækni. Þar skiptir ekki máli hvort þú ert í vinnu eða ekki. Ef þú veikist eða slasast byrjar þú á því að leita til heimilislæknis. Ef lokað er hjá lækninum og þú getur ekki beðið til næsta dags geturðu leitað til læknavaktarinnar í sveitarfélaginu þar sem þú býrð. Til að hafa samband við læknavakt skal hringja í 116 117.

Ef um bráðatilfelli er að ræða þar sem líf og heilsu er hætta búin geturðu alltaf hringt í neyðarsímann 113.

Ef þú flytur lögheimili þitt til Noregs færðu kennitölu og heimilislækni. Þú getur valið þér annan heimilislækni á vefsíðu Helsenorge.no. Einstaklingar með tímabundna kennitölu (D-númer) teljast ekki búsettir í Noregi og eiga því ekki rétt á heimilislækni.

Börn yngri en sextán ára fá sjálfkrafa sama heimilislækni og móðir þeirra ef foreldrarnir búa saman. Búi foreldrarnir ekki saman fá börnin sama heimilislækni og það foreldri sem er með sama lögheimili og börnin.

Í neyðartilvikum er hægt að senda þig á sjúkrahús til meðferðar. Læknirinn getur einnig vísað þér á sjúkrahús til frekari meðferðar ef hann telur þörf á því. Í því tilviki sendir læknirinn tilvísun til sjúkrahúss eða sérfræðilæknis. Í Noregi áttu rétt á að velja þér meðferðarstofnunin svo framarlega sem þar er laust pláss.

Nánari upplýsingar um heilbrigðisþjónustu, heimilislæknakerfið og val á meðhöndlunarstofnun er að finna hjá HelseNorge.

Hver er réttur þinn ef þú veikist á meðan þú starfar í Noregi en átt heima erlendis?

Meginreglan er sú að launþegar sem starfa í Noregi og eru búsettir í öðru ESB/EES-landi eru aðilar að norskum almannatryggingum. Þetta þýðir að nauðsynleg útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu í opinbera heilbrigðiskerfinu eru greidd og að viðkomandi greiðir komugjöld í meðferðum.

Einstaklingur sem starfar í Noregi og er aðeins með tímabundna kennitölu (D-númer) á rétt á læknisaðstoð ef þörf krefur. Viðkomandi getur þó ekki verið aðili að heimilislæknakerfinu. Komi upp veikindi verður hann/hún að fara á læknastofu og kanna hvor þar er laus tími. Sveitarfélög eru ábyrg fyrir því að fólk fái þá heilbrigðisþjónustu sem það á rétt á. Í sumum sveitarfélögum er til yfirlit yfir þá lækna sem taka við sjúklingum sem ekki eru með heimilislækni. Þetta má kanna á heimasíðu viðkomandi sveitarfélags.

Ef þú starfar í Noregi en snýrð daglega eða vikulega aftur til landsins sem þú býrð í áttu rétt á heilbrigðisþjónustu bæði í landinu sem þú starfar í og í búsetulandinu.

Við skyndileg veikindi eða meiðsl að kvöldlagi eða um helgi skal hafa samband við næstu læknavakt. Til að hafa samband við læknavakt skal hringja í 116 117.

Sé líf og heilsa í hættu skal hringja í 113.

Nánari upplýsingar um reglur sem gilda um launþega í Noregi sem eiga heima í öðru landi er að finna hjá HelseNorge.

Ef þú veikist á meðan þú dvelur tímabundið í Noregi

Einstaklingur sem dvelur tímabundið í Noregi (í fríi, stuttri námsdvöl eða þess háttar) á rétt á heilbrigðisþjónustu ef upp koma meiðsl eða skyndileg veikindi. Viðkomandi ber að hafa með sér staðfest persónuskilríki og evrópska sjúkratryggingakortið (EHIC).

Sjúklingar sem eru búsettir í öðru norrænu ríki geta átt rétt á að fá greiddan kostnað vegna heimferðar. Þetta á eingöngu við í tengslum við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem veitt er vegna sjúkdóms eða meiðsla sem koma til meðan á tímabundinni dvöl í Noregi stendur.

Meginreglan er sú að námsmenn frá öðrum norrænum ríkjum eiga ekki að þurfa að framvísa evrópska sjúkratryggingakortinu heldur eingöngu gefa upp heimilisfang sitt í heimalandinu.

Hjá HelseNorge er að finna nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda um ferðamenn og námsfólk í Noregi.

Greiðslur og styrkjakerfi fyrir heilbrigðisþjónustu í Noregi

Í Noregi greiða einstaklingar komugjald við heimsókn til læknis eða á læknavakt. Þó er þak á þeirri upphæð sem hver einstaklingur greiðir árlega. Einstaklingar fá fríkort vegna heilbrigðisþjónustu ef þeir eru aðilar að almannatryggingakerfinu og hafa greitt umfram ákveðna upphæð í komugjöld. Einstaklingur sem er kominn með fríkort greiðir ekkert það sem eftir er almanaksársins.

Einstaklingar sem eiga aðild að almannatryggingum og leggjast inn á sjúkrahús greiða ekki fyrir meðferð, lyf eða sjúkrahúsvist. Barnshafandi konur greiða heldur ekki fyrir mæðraeftirlit sem veitt er innan opinbera heilbrigðiskerfisins. Barn sem ekki er orðið sextán ára borgar ekki komugjald en greiðir efniskostnað. Barn sem ekki er orðið átján ára greiðir ekki heldur fyrir sálfræðiþjónustu.

Einstakir sjúklingahópar geta fengið endurgreiðslu á kostnaði vegna lyfja, næringarefna og annarrar hjúkrunarvöru.

Barn fær ókeypis tannlæknaþjónustu en það á þó ekki við um tannréttingar. Miðað er við að fullorðnir greiði sjálfir fyrir þjónustuna en á því eru þó margar undantekningar.

Á HelseNorge er að finna nánari upplýsingar um þær reglur sem gilda um endurgreiðslur, komugjöld og tannlæknaþjónustu í Noregi.

Um rétt til fyrirfram ákveðinnar heilbrigðisþjónustu í öðru landi

Fyrirfram ákveðin heilbrigðisþjónusta er meðferð sem kemur ekki í kjölfar skyndilegrar þarfar. Slíkar meðferðir eiga að standa til boða í Noregi. Sé ákveðnum skilyrðum fullnægt er hægt að fá endurgreiðslu vegna útgjalda til sérstakrar heilbrigðisþjónustu í öðru ESB/EES-landi. Einstaklingur sem er búsettur í öðru norrænu ríki og óskar eftir meðferð í Noregi verður að kanna reglur um þetta í heimalandi sínu.

Upplýsingar um endurgreiðslu kostnaðar er að finna hjá HelseNorge.

Réttur til norskrar heilbrigðisþjónustu meðan dvalið er tímabundið utan Noregs

Ef einstaklingur er aðili að norska almannatryggingakerfinu og dvelur tímabundið í öðru EES-ríki/Sviss, á hann rétt á að greitt sé fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu meðan á dvöl stendur. Evrópska sjúkratryggingakortið staðfestir að viðkomandi eigi rétt á heilbrigðisþjónustu. Hægt er að panta kortið á netinu. Ekki á að þurfa að framvísa kortinu á hinum Norðurlöndunum en engu að síður er mælt með því að hafa það meðferðis.

Meginreglan er sú að námsmenn frá Noregi eiga ekki að þurfa að framvísa evrópska sjúkratryggingakortinu þegar þeir eru í öðru norrænu ríki heldur eingöngu gefa upp heimilisfang sitt í heimalandinu.

Upplýsingar um evrópska sjúkratryggingakortið er að finna hjá HelseNorge. Á vefsíðum Info Norden er að finna upplýsingar um heilbrigðisþjónustu í öðrum norrænum löndum.

Endurgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu í öðru norrænu landi

Ef þú hefur haft kostnað af meðferð erlendis verðurðu að halda kvittunum til haga og hafa samband við Helfo þegar heim er komið til þess að kanna hvort þú eigir rétt á endurgreiðslu kostnaðar. Sé kostnaðurinn eingöngu falinn í komugjöldum er hann ekki endurgreiddur.

Hjá HelseNorge er að finna yfirlit yfir þá meðhöndlun í útlöndum sem hægt er að fá endurgreidda.

Hver getur veitt þér svar við spurningum?

Á HelseNorge eru allar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og réttindi til meðferðar í Noregi. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig hafa má samband.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna