„Að gera umhverfisglæpi refsiverða á alþjóðavísu myndi senda öflug skilaboð“

08.09.21 | Fréttir
oljetunna som flutit i land
Photographer
Scanpix
Eiga Norðurlönd að styðja kröfuna um alþjóðalög sem gera stórfelld umhverfisspjöll að glæpsamlegu athæfi? Þessa spurningu ræddu norrænir þingmenn á septemberfundi sjálfbærninefndarinnar.

Hugmyndin um að Alþjóðlegi sakamáladómstólinn í Haag taki ekki einungis fyrir stríðsglæpi og þjóðarmorð heldur einnig stórfelld umhverfisspjöll kom fyrst fram fyrir 50 árum.

Nú er hugmyndin um alþjóðleg vistmorð aftur í umræðunni í tengslum við loftlagsvána og minnkandi líffræðilega fjölbreytni.   

Heimsbyggðin mun leggja við hlustir

„Umhverfis- og loftlagsmálin eru ekki lengur hliðarmálefni heldur miðpunktur allrar ákvarðanatöku. Sífellt fleiri alþjóðlegir leiðtogar hafa áttað sig á því að þörf er á metnaðarfullri löggjöf sem setur hagsmuni plánetunnar ofar skammtímagróða. Norðurlönd hafa nú þegar sýnt að efnahagsþróun er möguleg samhliða tiltölulega strangri umhverfislöggjöf. Heimsbyggðin mun þess vegna leggja við hlustir ef okkur tekst að koma umræðunni um alþjóðlega löggjöf um vistmorð á dagskrá,“ segir Simon Holmström, þingmaður á Álandseyjum og einn af þeim sem töluðu fyrir tillögunni. 

Ungir Norðurlandabúar krefjast viðurlaga við vistmorði

Þessi hugmynd hefur einnig verið rædd innan Evrópusambandsins og eru bæði Frans páfi og Macron Frakklandsforseti hlynntir henni. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir stuðningi sínum og í sumar hefur alþjóðlegur hópur lögfræðinga unnið að því að skilgreina vistmorð.

Þegar samstarfsnetið Nordic Youth Biodiversity Network skilaði tillögum sínum fyrir umræður Sameinuðu þjóðanna um nýjan samning um líffræðilega fjölbreytni var ein þeirra að vistmorð yrði gert refsivert á alþjóðavísu.

Fyrirmynd að lögum fyrir ESB

Meðlimir norrænu sjálfbærninefndarinnar buðu ítalska lögmanninum Fausto Pocar að funda með sér, en hann vinnur að því fyrir European Law Institute að fá vistmorð viðurkennt sem glæp hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum og vinnur að því að þróa fyrirmynd að lögum fyrir Evrópusambandið.

„Það myndi senda öflug skilaboð af gera vistmorð refsiverð á alþjóðavísu. En fólk þarf að vera meðvitað um að þetta ferli getur tekið sinn tíma. Þess vegna er mikilvægt að Evrópusambandið og aðildarríkin taki einnig upp lög um vistmorð. Ef það er eitt sem allir umhverfis- og loftlagsvísindamenn eru sammála um núna er það að við þurfum að grípa til aðgerða hratt til að bjarga umherfinu og loftslaginu,“ segir Fausto Pocar.

Meiri þekkingar er þörf

Nefndin var á fundi sínum þann 7. september ekki tilbúin til að styðja tillöguna um að Norðurlönd skuli vinna að því að vistmorð verði að alþjóðlegum glæp heldur vildu meðlimir hennar afla meiri þekkingar og ákváðu að skipuleggja örmálþing.

Tillagan var flutt af Rebecka Le Moine frá Svíþjóð og Simon Holmström frá Álandseyjum og hana má lesa hér: