Erkki Tuomioja nýr forseti Norðurlandaráðs

04.11.21 | Fréttir
Nordiska rådets president Erkki Tuomioja och vicepresident Lulu Ranne.

Erkki Tuomioja och Lulu Ranne

Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Erkki Tuomioja hefur verið kjörinn nýr forseti Norðurlandaráðs. Lulu Ranne var kjörin varaforseti. Bæði eru frá Finnlandi sem fer með formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári. Áherslumál Finnlands árið 2022, sem jafnframt er 70 ára afmælisár ráðsins, eru sjálfbær, örugg og landamæralaus Norðurlönd.

Erkki Tuomioja hefur setið í Norðurlandaráði um langt árabil og er í flokkahópi jafnaðarmanna. Hann er einnig í forsætisnefnd ráðsins og er nú forseti þess í annað sinn. Fyrra skiptið var árið 2008. Hann hefur setið í Norðurlandaráði síðan 1970 utan þess tíma sem hann var ráðherra.

Erkki Tuomioja segist vilja byggja samstarfið á samfellu.

„Það felur í sér að við höldum áfram að vinna að útrýmingu stjórnsýsluhindrana, við höldum áfram að vinna að sjálfbærri þróun, vistfræðilega, efnahagslega og á sviði félagsmála. Á öllum þessum sviðum geta Norðurlöndin verið fyrirmynd alls heimsins. Við erum ekki fullkomin en við höfum gert margt betur en flestir og við verðum að miðla reynslu til þeirra sem hafa áhuga á velgengni okkar.“

Lulu Ranne vill skilvirkara starf

Lulu Ranne er í flokkahópnum Norrænt frelsi og er formaður stjórnsýsluhindranahópsins. Hún leggur áherslu á tiltekin svið þar sem norrænt samstarf getur falið í sér virðisauka fyrir íbúana.

„Íbúar Norðurlanda styðja norrænt samstarf og finnst það gott en að það sé aðeins of fjarlægt. Ég vona að við getum gert það markvissara, skilvirkara og fært það nær íbúunum á formennskutíma Finna. Öruggt og þægilegt daglegt líf fyrir alla íbúa Norðurlanda er örugglega það sem allt stjórnmálafólk vill vinna að. Ég vil að fyrirtæki, vinnuafl, námsfólk, vinir og ættingjar, hjálp og allt sem er gott geti ferðast frjálst milli norrænu landanna,“ segir Lulu Ranne.

Erkki Tuomioja og Lulu Ranne voru kjörin samhljóða á þingi Norðurlandráðs 4. nóvember. Þau taka við embættum sínum um áramótin og verða við stjórnvölin á sérstöku ári. Árið 2022 fagnar Norðurlandaráð nefnilega 70 ára afmæli og þess mun sjá stað á ýmsan hátt.

Norræna líkanið stendur frammi fyrir áskorunum

Finnar leggja í formennskuáætlun sinni fyrir árið 2022 áherslu á að norræna velferðarlíkanið sé einn mikilvægasti afrek Norðurlanda. Í áætluninni kemur einnig fram að heimsfaraldurinn hefur lagt nýjar áskoranir fyrir löndin.

„Við slíkar aðstæður reynir á sjálfbærni norræna líkansins. Þörf er á sameiginlegri sýn á hvert heimurinn stefnir og hver hlutdeild okkar er til þess að við getum lagst á eitt við að leysa sameiginlegar áskoranir,“ segir í áætluninni.

Finnland hyggst á formennskutíma sínum vinna gagnrýnið mat á velferðarlíkaninu og greina stöðu þess nú og áskoranir til framtíðar. Markmiðið er að tryggja forsendur norræna velferðarlíkansins til framtíðar.

Finnland vill sterk Norðurlönd

Sjálfbærni er mikið forgangsmál í áætluninni. Þar segir meðal annar að mikilvægustu verkefni samstarfsins sé að styðja og stuðla að efnahagslegri þróun, draga úr loftslagsbreytingum, vinna að líffræðilegri fjölbreytni og byggja upp græn Norðurlönd. Árið 2022 leggur Finnland áherslu á hringrásarhagkerfi, sjálfbæra skógrækt og verndun hafsins.

Einn kafli formennskuáætlunarinnar er lögð undir öryggismál, ekki síst með tilliti til aðgerða norrænu landanna í kórónuveirukreppunni. Finnland leggur áherslu á að Norðurlandaráð vilji að Norðurlöndin verði sterk og löndin betur sameiginlega undirbúin þegar kemur að heimsfaröldrum og öðrum kreppum.

Frjáls för á Norðurlöndum mikilvæg

Heimsfaraldurinn er ekki langt undan, ekki heldur í kaflanum þar sem fjallað er um Norðurlönd án landamæra. Samkvæmt formennskuálætluninni verða fólk og störf aftur að eiga frjálsa för yfir landamæri eftir heimsfaraldurinn. Taka verður í notkun ný og skilvirk verkfæri til þess að auka hreyfanleikann, meðal annars með því að halda sameiginlega þingfundi norrænu ríkisstjórnanna.

„Í framtíðinni nægir ekki að löndin semji innanlandsstefnur á ýmsum sviðum heldur þarf áætlun um hvernig þau semja samnorrænar stefnur eða hafa samráð  sín á milli áður en þau semja og samþykkja eigin stefnur,“ segir í áætluninni.

Finnland lýsir einnig í formennskuáætluninni eftir að gert verði stefnumarkandi langtímasamstarf á sviði utanríkismála árið 2022 þegar alþjóðastefna Norðurlandaráðs verður endurskoðuð. Auk þess bendir Finnland á að Norðurlönd hafi aldrei haldið norrænt framtíðarþing á sama hátt og ESB hefur gert. Stungið er upp á að halda slíkt þing, hugsanlega á þingi Norðurlandaráðs 2022.

 

Norðurlandaráð er opinber samstarfsstofnun þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

 

Formennskuáætlun Finnlands í Norðurlandaráði 2022