Finnland stýrir Norrænu ráðherranefndinni árið 2021

27.10.20 | Fréttir
Cykler og vindmøller
Photographer
Johnér
Saman erum við öflugri og klárari en hvert í sínu lagi. Þetta er eitt af grundvallaratriðum formennskuáætlunar Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2021. Í áætluninni er áhersla lögð á framtíðarsýn norræns samstarfs sem er að Norðurlöndin verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims. Í áætlun komandi árs eru settar fram leiðbeiningar um virkt samstarf til þess að skapa grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlönd.

Kynning Sönnu Marin á formennskuáætlun Finnlands í Norðurlandaráði fór fram gegnum fjarfundabúnað frá Helsinki. Faraldurinn hefur skapað nýjar áskoranir fyrir samstarfið og það að árlegt þing skyldi dragast saman og verða röð fjarfunda er dæmi um þetta.

„Faraldurinn sýnir að við getum ekki leyst hnattræna erfiðleika ein okkar liðs,“ segir Sanna Marin. Það er skynsamlegt að leita sameiginlegra leiða til að búa okkur undir erfiðleika í framtíðinni. Því vilja Finnar efla samstarfið á sviði afhendingaröryggis og viðbúnaðarmála.

Áhersla á að útrýma nýjum og gömlum stjórnsýsluhindrunum

Ein af afleiðingum faraldursins er að settar hafa verið hömlur á frjálsa för innan svæðisins. Landamæri hafa verið lokuð, erfiðara er að ferðast vegna vinnu, ekki hefur verið hægt að hitta fjölskyldu sína og löng tímabil fjarvinnu vitlausu megin við landamæri hafa valdið skattatæknilegum vanda fyrir fólk sem stundar vinnu yfir landamæri.

„Vinnan við að útrýma og koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir, bæði nýjar og eldri hindranir, er í forgangi á næsta ári,“ segir samstarfsráðherra Finnlands, Thomas Blomqvist.

Í tengslum við vinnuna með stjórnsýsluhindranir hefst rannsóknarverkefni næsta ár um samfélagslegar afleiðingar ferðatakmarkanna milli norrænu landanna á tímum covid-19-faraldursins.

Thomas Blomqvist bendir á samstarfið á sviði stafrænnar væðingar.

„Við verðum að notfæra okkur hinn norræna styrk þegar við förum að byggja upp hagkerfi okkar eftir kreppuna. Framúrskarandi stafrænar lausnir okkar eiga líka að þjóna hreyfanleika innan Norðurlanda og stuðla að því að lífið yfir landamæri verði liprara frá degi til dags,“ segir hann.

 

Það er skynsamlegt að leita sameiginlegra leiða til að búa okkur undir erfiðleika í framtíðinni.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands

Sjálfbærni er rauður þráður í framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna fyrir norrænt samstarf og þess sér greinilega stað í finnsku áætluninni, meðal annars í mikilli áherslu á loftslagslausnir.

„Norræna velferðarlíkanið styður við umskipti í átt til kolefnishlutleysis, segir Sanna Marin, forsætisráðherran.

Finnland vill stuðla að hringrásarhagkerfi, meðal annars með því að þróa þekkingarnet fyrir hringrásarhagkerfi í byggingariðnaði. Byggingariðnaður notar nú um helming náttúruauðlinda heimsins og er uppspretta mikillar losunar koltvísýrings. Annað forgangsmálefni er að stöðva tap á líffræðilegri fjölbreytni.

Sjálfstjórn Álandseyja heldur upp á 100 ára afmæli sitt 2021-2022. Á formennskuárinu verður sjónum beint sérstaklega að þátttöku Álandseyja, Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi og að sýna fram á hvernig hún eykur lýðræðislega sjálfbærni á Norðurlöndum. Ríkisstjórn Finnlands, landsstjórn Álandseyja og Norræna ráðherranefndin standa að alþjóðlegri ráðstefnu um þetta málefni haustið 2021.

„Í hlutverki okkar felst aukavídd og styrkur fyrir norræna samþættingu sem er áhugaverð, einnig í alþjóðlegu ljósi,“ segir Veronica Thörnroos, landstjóri Álandseyja.