Frekari skref stigin í átt að fullkominni stafrænni samþættingu svæðisins

Sannprófun kennsla er nauðsynleg í því skyni að tryggja íbúum svæðisins frjálsa för yfir landamæri og við erum í góðri stöðu til þess að ná því markmiði.
Með nýrri yfirlýsingu sem ráðherrar stafvæðingarmála á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum samþykktu á Íslandi er markmiðið að hvetja lögbær yfirvöld í hverju landi, svo sem þjóðskrár landanna og veitendur stafrænnar þjónustu, til þess að innleiða sannprófun kennsla þvert á landamæri í stefnu sína með það fyrir augum að einfalda daglegt líf íbúa og fyrirtækja.
„Ég lít á þetta sem mikilvægan áfanga og þýðingarmikið skref í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í tengslum við stafvæðingu. Í krafti formennsku okkar í Norrænu ráðherranefndinni munu Íslendingar áfram vinna að því að koma á marghliða samkomulagi á milli ríkja okkar sem mun stuðla að áreiðanlegri, greiðari og öruggari sannprófun kennsla þvert á landamæri,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Ég lít á þetta sem mikilvægan áfanga og þýðingarmikið skref í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í tengslum við stafvæðingu.
Yfirlýsingin er byggð á því mikla trausti og samstarfsvilja sem ríkir á þessu sviði og ber vott um mikinn pólitískan vilja til þess að vinna að því að koma á samræmdri sannprófun kennsla. Hún veitir löndunum og viðkomandi yfirvöldum innan þeirra jafnframt skýrt umboð til þess að hrinda þessu í framkvæmd.
„Ég er hæstánægð með að ráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna veiti okkur með þessari yfirlýsingu forskot þegar kemur að þróunæa sannprófun kennsla á evrópskum vettvangi. Um leið stuðla þeir að því að uppfylla markmið okkar um að gera þetta svæði að því samþættasta í heimi,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með vegvísi sem unninn verður af sérfræðingum frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum og munu yfirvöld vinna saman að því að gera sannprófun kennsla þvert á landamæri mögulega.