COP28: Norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar setja matvæli og heilsu á dagskrá

29.11.23 | Fréttir
Speaker official side-event COP28
Photographer
norden.org
Matur er mikilvægur hluti af daglegu lífi okkar en maturinn sem við neytum er einnig tengdur heilsu okkar og loftslaginu. Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP28) efna Finnland, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Norræna ráðherranefndin til opinbers hliðarviðburðar þar sem alþjóðaleiðtogar koma saman til að ræða tengslin milli matvæla, heilsu og loftslags.

Viðburðurinn 11. desember er hluti af dagskrá skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), nefnist Heilsa, matvæli og loftslag - heildaryfirsýn yfir brýnar aðgerðir í loftslagsmálum. Þetta er mikilvægt sameiginlegt framtaksverkefni til að leggja áherslu á það þýðingarmikla hlutverk sem matvælakerfi gegna fyrir græn og réttlát umskipti.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, hlakkar til viðburðarins:
„Á COP28 í ár er hvatt til aukinnar áherslu á hlutverk heilbrigðra og sjálfbærra matvælakerfa í loftslagsmálum. Við hjá Norrænu ráðherranefndinni erum ánægð með að geta nýtt reynslu frá Norðurlöndum til að taka þátt í þessu mikilvæga samtali og tryggt að tekið sé tillit til matvælakerfa.“

Áhrifafólk og hugmyndasmiðir komu saman til að hvetja til aðgerða á alþjóðavísu

Umbreyting matvælakerfa okkar er mikilvægur þáttur í því að stuðla að heilbrigði manna og ýta undir loftslagsaðgerðir. Matarneysla okkar hefur mikil umhverfis- og loftslagsáhrif og sýnir mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru mataræði í umbreytingu matvælakerfa.

„Með því að auka hlut plöntufæðis og sjálfbærs mataræðis má draga úr áhrifum á umhverfið og loftslagsbreytingum,“ segir dr. Francesco Branca, framkvæmdastjóri næringar- og matvælaöryggis hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Með því að auka hlut plöntufæðis og sjálfbærs mataræðis má draga úr áhrifum á umhverfið og loftslagsbreytingum 

Dr. Francesco Branca, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni

Þessar pallborðsumræður háttsettra embættismanna á COP28 munu auka vitund um tengsl heilsu, matvæla og loftslags.  Bæði Kai Mykkänen, loftslags- og umhverfisráðherra Finnlands, og Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, taka þátt í viðburðinum.

Með þeim í för verður áhrifafólk og hugmyndasmiðir á borð við dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar; Claire Bury, aðstoðarframkvæmdastjóra matvælasjálfbærni hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins; dr. Francesco Branca, framkvæmdastjóra næringar- og matvælaöryggis hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni; dr. Getahun Garedew Wodaje, framkvæmdastjóra umhverfisverndaryfirvalda Eþíópíu (EEPA); dr. Lawrence Haddad, framkvæmdastjóra GAIN; dr. Rune Blomhoff, prófessor við Óslóarháskóla og verkefnastjóra NNR2023; dr. Madhuvanti Murphy, lektor og rannsakanda við Háskóli Vestur-Indía; Lana Weidgenant, æskulýðsfulltrúa frá Coalition of Action on Healthy Diets from Sustainable Food Systems for Children and All. 

Norðurlönd leggja til nýjustu rannsóknir um mataræði

Næring er undirstaða heilbrigðs lífernis og við verðum að tryggja að allir hafi aðgang að heilbrigðu og sjálfbæru mataræði. Rannsóknir hafa sýnt að heilsusamlegt mataræði er einnig sjálfbærara í umhverfislegu tilliti.

Á viðburðinum verður meðal annars greint frá norrænum rannsóknum í hinum nýútgefnu norrænu leiðbeiningum um mataræði 2023 (NNR2023) ásamt svipuðum dæmum frá öðrum svæðum.

„Finnland og Norðurlönd leggja í sameiningu sitt af mörkum til viðræðnanna í gegnum langvarandi stefnu okkar varðandi skólamáltíðir, þar sem Finnland er í forystu fyrir alþjóðleg samtök um skólamáltíðir, og í gegnum samvinnu við norrænu leiðbeiningarnar um mataræði, þar sem byggt er á nýjustu rannsóknum til að leiðbeina um betra, heilsusamlegra og sjálfbærara mataræði,“ segir Kai Mykkänen, loftslags- og umhverfismálaráðherra Finnlands.

Viðburður: Health, food and climate - A systems perspective for urgent climate action (Heilsa, matvæli og loftslag - heildaryfirsýn yfir brýnar aðgerðir í loftslagsmálum)

Á þessum opinbera viðburði á COP28 heyrir þú frá sérfræðingum og vísindamönnum um áskoranir og lausnir sem hægt er að finna með því að tengja saman heilsu, matvæli og loftslag. 

  • Fundarhaldarar: Finnland, Norræna ráðherranefndin, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO)
  • Dagsetning og tími: 11. desember 18.30–20.00 (Dúbaí/GMT+4)
  • Salur: Side Event Room 4, Blue Zone, COP28, Dúbaí

Takið þátt í umræðunni – á staðnum í Dúbaí eða á netinu

Einnig verður hægt að fylgjast með viðburðinum í beinni útsendingu og í upptöku í fjarfundakerfi COP28. 

Tengill á beint streymi verður birtur fljótlega.

Skráið ykkur til að fá nýjustu upplýsingar

Frekari upplýsingar og fyrirlesarar birtast fljótlega. Skráið ykkur til að fá upplýsingar í tölvupósti og/eða WhatsApp um opinbera hliðarviðburðinn og annað sem tengist matvælakerfum frá Norrænu ráðherranefndinni á COP28.