Hver eru viðhorf okkar til norræns samstarfs nú?

25.10.21 | Fréttir
Kvinne på gate i København
Ljósmyndari
Ricky Molloy/norden.org
Barátta gegn glæpum, loftslagsmál, varnarmál og öryggismál - Það eru málefnin sem Norðurlandabúar telja mikilvægast að Norðurlöndin vinni að saman. Þetta kemur fram í skoðanakönnun Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Viðbrögð íbúa við samhæfingu aðgerða vegna heimsfaraldursins eru einnig skýr.

Það eru nokkur ár - og einn heimsfaraldur - síðan Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð könnuðu síðast óskir Norðurlandabúa varðandi norrænt samstarf og hversu mikið þeir óska eftir því.

Nú höfum við gert það aftur. Skýrslan „Støtte og skuffelse - Holdninger til nordisk samarbeid“ (Stuðningur og vonbrigði - Viðhorf til norræns samstarfs) sýnir að almenningur er enn jákvæður gagnvart norrænu samstarfi en margir Norðurlandabúar eru samt vonsviknir vegna eins máls. Samhæfing aðgerða í tengslum við heimsfaraldurinn verður að vera betri. Þrátt fyrir mikið samtal réðu löndin ekki við að móta sameiginlega stefnu fyrir Norðurlöndin í heild.

Það er fagnaðarefni að hversu mikill stuðningur ríkir við norrænt samstarf og vinnuna að grænum Norðurlöndum. Við byggjum á því áfram. En við verðum að viðurkenna að væntingar um samhæfðar aðgerðir vegna heimsfaraldursins stóðust ekki. Við getum lært af því

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Könnunin gefur tilefni til íhugunar varðandi þróun norræns samstarfs til þess að ná markmiðum Framtíðarsýnar okkar 2030 um að Norðurlöndin verði græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Norræna ráðherrranefndin er meðvituð um þetta að mati Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

„Það er fagnaðarefni hversu mikill stuðningur ríkir við norrænt samstarf og vinnuna að grænum Norðurlöndum. Við byggjum á því áfram. En við verðum að viðurkenna að væntingar um samhæfðar aðgerðir vegna heimsfaraldursins stóðust ekki. Við getum lært af því Um leið verðum við að líta til óska íbúanna varðandi samstarfið. Þær má draga saman í þrjú orð - varnir, öryggi og loftslag. Áherslur okkar beinast þegar að samstarfi um loftslags- og umhverfismál. Við erum einnig að skoða hvernig við getum bætt samstarfið varðandi kreppur sem að okkur steðja,“ segir Paula Lehtomäki.

Norðurlandaráð hefur einnig verið virkt í heimsfaraldrinum og fylgst náið með þróun mála og aðgerðum. Framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Kristina Háfoss, er ánægð með að íbúar Norðurlanda styðji stefnumótunarvinnu norrænna þingmanna.

„Þó að flestir Norðurlandabúar hafi stutt þær ferðatakmarkanir sem gripið var til í heimsfaraldrinum þá kemur fram í könnuninni að margir meta frjálsa för á Norðurlöndum mikils. Það getur virst mótsagnakennt en lýsir um leið hversu mikilvæg frjáls för er fyrir íbúa Norðurlanda. Þetta sýnir einnig hversu mikilvægu hlutverki þingmennirnir gegna við að tryggja að ríkisstjórnirnar grípi ekki til of mikilla lokana og of lengi, óháð því hvernig kreppu við tökumst á við,“ segir Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs.

Þetta sýnir einnig hversu mikilvægu hlutverki þingmennirnir gegna við að tryggja að ríkisstjórnirnar grípi ekki til of mikilla lokana og of lengi, óháð því hvernig kreppu við tökumst á við

Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs

Könnunin náði til 3.400 þátttakenda á öllum Norðurlöndum og hún fór fram í maí og júní 2021. Niðurstöðurnar sýna að íbúarnir styðja norrænt samstarf. Margt fólk væntir meira af því.

Í könnun þessa árs kemur fram að 86 prósent telja að þróað samstarf milli Norðurlandanna sé mikilvægt eða mjög mikilvægt. Það eru lítillega færri en árið 2017 þegar 92 prósent voru þessarar skoðunar.

Enn óska 60 prósent eftir auknu samstarfi milli norrænu landanna, 32 prósent finnst staðan góð eins og hún er nú og aðeins 1 prósent vill að samstarfið sé minna en nú.

Þeim hefur fækkað sem telja að alþjóðleg þróun síðustu ára hafi aukið mikilvægi norræns samstarfs - árið 2017 voru 68 prósent þeirrar skoðunar en færri árið 2021 eða 55 prósent.

Þegar spurt var hvað skipti mestu máli fyrir nánari tengsl milli norrænu landanna svaraði rúmlega þriðjungur því til að pólitískt samstarf væri mikilvægast.

Tvö af hverjum tíu svöruðu aukin viðskipti milli landanna og lítillega færri að auka ætti tilfinningu fyrir því að vera norræn.

Þegar spurt var hvert væri mikilvægasta pólitíska samstarfsmálefnið á Norðurlöndum töldu flestir að það væri barátta gegn glæpum þvert á landamæri. Þar á eftir komu umhverfis- og loftslagsmál, varnar- og öryggismál og hættustjórnun (til dæmis í covid-19 faraldrinum). Það síðastnefnda var nýtt í könnun þessa árs. Hin samstarfssviðin þrjú voru einnig í efstu sætunum í fyrri könnunum.