Kórónukreppan getur skapað skattavanda fyrir þau sem sækja vinnu yfir landamæri

27.05.20 | Fréttir
Øresundsbroen - Bridge connecting Denmark and Sweden
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Vegna lokunar landamæra á Norðurlöndum eiga launþegar á hættu að vera tvískattaðir. Samningar milli ríkjanna kveða á um að tekjuskattur skuli greiðast í því landi sem starfað er í en ekki er ljóst hvað gerist þegar fólk starfar heiman frá sér. Af þessu hefur Norðurlandaráð áhyggjur.

Fólk sem sækir vinnu í öðru landi en búsetulandinu á í versta falli á hættu að þurfa að greiða tvöfaldan skatt – bæði í því landi sem það starfaði í áður en landamærum var lokað og einnig í búsetulandi þess á þeim tíma sem það þurfti að vinna heiman frá sér.

Hættan á tvísköttun var rædd í þaula á fundi norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar þann 25. maí. Nefndarfulltrúar lýstu yfir þungum áhyggjum af þeim skattaáhrifum sem ástandið geti haft á þá Norðurlandabúa sem sækja vinnu yfir landamæri.

- Við, stjórnmálafólk á Norðurlöndum, verðum að leysa þennan vanda og forða borgurum okkar frá því að vera settir í slíka stöðu. Fjármálaráðuneyti landanna sem um ræðir verða að leysa úr þessu áður en skattar ársins 2020 eru gerðir upp, segir Pyry Niemi, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Víðtækar áhyggjur

Anneli Hultén, landshöfðingi á Skáni, hefur einnig vakið máls á vandanum og hún skrifaði bréf þess efnis til fjármálaráðherra Svíþjóðar. Hultén áætlar að þessi vandi gæti náð til 18.500 launþega á Eyrarsundssvæðinu. Af þeim eru 90 prósent sænskir ríkisborgarar sem sækja vinnu í Kaupmannahöfn. Það sama á við um launþega sem ferðast milli Svíþjóðar og Noregs annars vegar og Svíþjóðar og Finnlands hins vegar.

Samningur milli norrænu ríkjanna kveður á um að fólk sem sækir vinnu í öðru landi en búsetulandinu skuli skattlagt í því landi sem það starfar. Þegar Danmörk, Noregur og Finnland lokuðu landamærum sínum í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar neyddust margir sænskir launþegar til að starfa heiman frá sér. Í hvaða landi starfa þau þá og hvar eiga þau að greiða skatt?

Erfitt er að sjá fyrir hvaða afleiðingar þessar fordæmalausu aðstæður muni hafa fyrir einstaka launþega og því liggur á að finna góða lausn sem forðar Norðurlandabúum frá skattaóhagræði.

Pyry Niemi, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Í sérstökum kafla í hinum svokallaða Eyrarsundssamningi er kveðið á um að launþegi megi sinna 50 prósent starfi heiman frá sér í þrjá mánuði. Sá tími rennur fljótlega út. Einnig er óvíst hvort þessi regla nái til þeirra launþega sem hafa starfað 100 prósent heiman frá sér frá því um miðjan mars eða þeirra sem hafa alls ekki getað unnið.

Erfitt er að sjá fyrir hvaða afleiðingar þessar fordæmalausu aðstæður muni hafa fyrir einstaka launþega og því liggur á að finna góða lausn sem forðar Norðurlandabúum frá skattaóhagræði, segir Pyry Niemi að lokum.