„Mikil samstaða um norrænt varnarsamstarf“

18.09.21 | Fréttir
Bertel Haarder och Annette Lind
Ljósmyndari
Matts Lindqvist

Bertel Haarder og Annette Lind, forseti og varaforseti Norðurlandaráðs.

Norðurskautssvæðið, Eystrasalt og netárásir voru á dagskrá þegar Norðurlandaráð efndi til varnarmálaráðstefnu í Kaupmannahöfn á fimmtudag. Ráðstefnan sýndi að mikil samstaða er meðal norrænu landanna um varnar- og öryggismál, að sögn Annette Lind varaforseta Norðurlandaráðs.

Ráðstefnuna sóttu þingmenn í Norðurlandaráði ásamt fjölmörgum sérfræðingum í varnar- og öryggismálum héðan og þaðan af Norðurlöndum. Einnig tóku þingmenn úr utanríkis- og varnarmálanefndum landanna þátt í ráðstefnunni. Á ráðstefnunni komu fram greiningar frá mismuandi sjónarhornum með áherslu á norðurskautssvæðin, Eystrasaltssvæðið og netógnir.

Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs árið 2021, var ánægður með daginn.

„Það sem mestu skiptir er að við fengum ekki einvörðungu lýsingu viðbúnaði gegn þeim ógnum sem að Norðurlöndum steðja. Við fengum einnig lýsingu á því hvernig veröldin horfir við úr austri, frá Rússlandi, og hvaða ógn þau sjá í okkur. Mér þótti þetta afar árangursríkt. Ég legg þó áherslu á það sem ég hef oft sagt áður,að engum stafar ógn af norrænu varnarsamstarfi heldur stuðlar það þvert á móti að fyrirsegjanleika og stöðugleika.“

Annette Lind varaforseti Norðurlandaráðs lagði áherslu á að Norðurlönd ættu mjög margt sameiginlegt.

„Ráðstefnan sýndi að við á Norðurlöndumlítum varnar- og öryggismál að miklu leyti sömu augum. Við hugsum eins og það er það sem ég tek með mér eftir daginn,“ sagði hún.

Brýn málefni

Svæðin sem fjallað var um á ráðstefnunni eru sem stendur mikið í umræðunni um varnar- og öryggismál.

Málefni norðurslóða hafa mikla þýðingu fyrir marga sem gegna stóru hlutverki í alþjóðamálum og umræður á ráðstefnunni snertu meðal annars stefnumörkun og samstarf Norðurlanda að því er varðar norðurskautssvæðin sem verða sífellt frekar tilefni átaka milli stórveldanna Bandaríkjanna, Rússlands og Kína.

Í umræðum um Eystrasalt var framferði Rússa einna helst áberandi og hvernig norrænu löndin eigi að bregðast við vaxandi áleitni rússneska hersins á svæðinu og hvaða afleiðingar hún hefur í öryggismálum.

Ráðstefnuninni lauk með umræðum um netárásir með stuðningi stjórnvalda og hvernig Norðurlönd geti brugðist við pólitískt og lagalega og mætt árásunum með því að vinna saman.

Þá lýstu þátttakendur ánægju með hið norræna varnarmálasamstarf Nordefco og framtíðarsýn til ársins 2025.

Varnarmál æ mikilvægari

Samstarf á sviði varnarmála og öryggismála hefur á seinni árum orðið æ mikilvægara málefni á vettvangi Norðurlandaráðs og Danmörk hefur sem formennskuland árið 2021 gert varnarsamstarf að einu af helstu áherslumálum sínum. 

Ráðstefnan á fimmtudag tengdist því formennskuáætlun Dana og var jafnframt einn af fáum viðburðum sem hægt var að halda með hefðbundnum hætti á þessu ári.

Varnarmál verða áfram á dagskrá Norðurlandaráðs í haust, ekki síst á Norðurlandaráðsþinginu 1.–4. nóvember þar sem gestafyrirlesari verður Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

Stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi verður einnig á dagskrá þingsins. Í þeirri stefnu eru ýmsar tillögur sem Norðurlandaráð vill að Norræna ráðherranefndin fylgi eftir, meðal annars um almannavarnir og netógnir.