Formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2021

Bertel Haarder och Annette Lind 2020.

Bertel Haarder och Annette Lind 2020.

Ljósmyndari
Charlotte de la Fuente
Sameiginlegt markmið okkar er að Norðurlöndin verði að „sjálfbærasta og samþættasta svæði heims“. Heimsfaraldurinn fékk hins vegar löndin til að vinna hvert í sínu lagi og hann hefur skapað hindranir og erfiðleika fyrir ríkisborgara landanna sem vinna, stunda nám, ferðast og stunda fjárfestingar í öðru norrænu landi. Það gerir baráttuna við stjórnsýsluhindranir enn mikilvægari en áður.

Samtímis ríkir sundrung í Evrópu og hinum vestræna heimi sem kallar á norræna samstöðu og forystu um loftlagsmál, græn umskipti og stórveldabaráttu.

Hart er sótt að lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu í Evrópu – þar á meðal hjá næstu nágrönnum Norðurlandanna. Þetta eru grundvallaratriðin í norrænu samstarfi, sem rétt eins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ættu að vera skýr markmið í starfi okkar. Faraldurinn hefur leitt í ljós að nauðsynlegt er að fylgja eftir tillögum Könberg-skýrslunnar um m.a. sýklalyfjaónæmi.

Hvert fyrir sig eru Norðurlöndin lítil. Saman erum við sterk og höfum áhrif. Þetta á við um stjórnmál, efnahagsmál sem og menningarmál.