Neysluvenjur á Norðurlöndum verða að breytast ef við eigum að ná heimsmarkmiðunum

27.02.23 | Fréttir
sdgs
Ljósmyndari
Arthur Cammelbeeck/Altinget.
Þetta var niðurstaða dönsku sjálfbærnivikunnar í Kaupmannahöfn þar sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir þrennum umræðum. Norðurlönd hafa náð lengst allra þegar kemur að því að uppfylla heimsmarkmiðin. En það gengur verr að ná grænu sjálfbærnimarkmiðunum fjórum. Ekki bara heima fyrir. Neysla á Norðurlöndum hefur mikil áhrif á umhverfis- og loftslagsmál annars staðar í heiminum. Norræna ráðherranefndin vinnur að því snúa þessu við og gera Norðurlönd að sjálfbærasta svæði heims.

„Ár eftir ár eru norrænu löndin efst á alþjóðlegum listum í tengslum við heimsmarkmiðin. En betur má ef duga skal. Það á ekki síst við um grænu heimsmarkmiðin. Lífsstíll okkar, sérstaklega neysluvenjur, hefur mikil neikvæð áhrif á umhverfið og loftslagið. Ekki bara í okkar heimshluta heldur einnig annars staðar vegna ýmiss konar smitáhrifa, sagði Jonas Wendel, skrifstofustjóri á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar við upphaf umræðnanna.

Loftslagsvandinn var grunnurinn að því að norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu framtíðarsýnina um að Norðurlönd ættu að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Heimsmarkmiðin og Parísarsamningurinn eiga að vísa veginn en Norðurlönd eiga að vinna hraðar og af meiri metnaði en aðrir.

Hvernig gengur Norðurlöndum?

Norðurlönd er komin lengst í því að uppfylla mörg heimsmarkmiðanna. Finnland, Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru öll í topp fimm samkvæmt nýjasta alþjóðlega samanburðinum (sjálfbærniskýrsla Sustainable Development Solutions Network, júlí 2022). En Norðurlönd eru á eftir þegar kemur að grænu sjálfbærnimarkmiðunum, 12, 13, 14 og 15. Þar leika neysluvenjur og framleiðsla á Norðurlöndum stórt hlutverk.

„Við neytum allt, allt, allt of mikið í norrænu löndunum. Ef allir notuðu auðlindir með sama hætti og Danir myndum við þurfa fjórar nýjar jarðir á hverju ári, segir Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.

Of mikil neysla á Norðurlöndum stendur í vegi fyrir sjálfbærni

Í samanburði við önnur svæði í heiminum veldur framleiðsla og neysla Norðurlandabúa mikilli losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun.

„Norrænn iðnaður er mjög alþjóðlega tengdur. Það þýðir að með því að einblína bara á það sem við gerum á Norðurlöndum sjáum við ekki heildarmyndina. Við verðum að taka tillit til afhendingarkeðjunnar sem er alþjóðleg. Þess vegna þykir mér það málinu ekki alveg viðkomandi að spyrja hversu sjálfbær Norðurlönd séu. Spurningin er ekki hversu sjálfbær við erum sem heimshluti heldur hvernig við stuðlum að sjálfbærri jörð,“ segir Per Mickwitz, prófessor við háskólann í Lundi.

Stór hluti norrænu framleiðslukeðjunnar teygir sig út fyrir heimshlutann. Eigi Norðurlönd að verða sjálfbær þarf því að líta á neysluna út frá hnattrænu sjónarhorni.

„Megnið af losun Svía vegna neyslu á sér stað utan Svíþjóðar. Þar er það innflutningur á matvælum, byggingarefni og jarðefnaeldsneyti sem veldur mestri losun í öðrum heimshlutum,“ segir Katarina Axelsson, aðstoðarprófessor við Stockholm Environment Institute.

Réttar neysluvenjur eiga að vera léttar

Grænu umskiptin eru það markmið sem Norðurlönd eiga í mestum vandræðum með. Norræna ráðherranefndin vinnur að því með virkum hætti að leysa þetta, ekki síst eftir að framtíðarsýnin um sjálfbær og samþætt Norðurlönd árið 2030 var samþykkt.

Mikil einkaneysla er vandamál sem öll norrænu löndin standa frammi fyrir. Til þess að uppfylla framtíðarsýn sína og ná heimsmarkmiðunum vinnur ráðherranefndin meðal annars að því að gera það einfaldara og eftirsóknarverðara að neyta og framleiða með sjálfbærum hætti.

Áætlunin Sjálfbær lífsstíll á Norðurlöndum, sem ýtt var úr vör árið 2021, samanstendur af sex verkefnum þar sem áhersla er á allt frá umhverfismerkingum til jafnréttis í tengslum við norrænan lífsstíl. Markmiðið er að það verði auðveldara og sjálfsagðara að lifa sjálfbærum lífsstíl á Norðurlöndum.

Hér má sjá umræðurnar frá sjálfbærnivikunni:

Hér má lesa nánar um vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar: