Norðurlandaráð vill sjá nánara samstarf um almannavarnir

Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnirnar fylgi eftir tillögum Enestam-skýrslunnar svo fljótt sem auðið er. Í framhaldinu vill ráðið auk þess raða tillögum Enestams eftir mikilvægi.
Í skýrslunni eru settar fram tólf tillögur og Norðurlandaráð telur að fara skuli lengra með ellefu þeirra.
Í tilmælum Norðurlandaráðs sem samþykkt voru einróma á þingfundi er meðal annars lagt til að norrænu samstarfsráðherrunum verði falin ábyrgð á samstarfi á sviði almannavarna. Þá er lagt til að stofnuð verði norræn almannavarnasveit, að tilraunaverkefni verði hafið um sameiginlegt útboð á bóluefni og að möguleikinn á sameiginlegum viðbúnaðarbirgðum verði kannaður.
„Samvinna er besta leiðin til að takast á við krísur“
„Í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu á Enestam-skýrslan enn meira erindi en áður. Við sjáum nú þegar afleiðingar stríðsins hjá okkur þótt auðvitað séu þær með engu móti sambærilegar við þær hörmungar sem almenningur í Úkraínu þarf að þola. Besta leiðin til að takast á við krísur felst í að löndin starfi saman. Norrænu löndin eiga sér langa hefð um samstarf á mörgum sviðum og nú þurfum við að sjá til þess að okkur gangi líka vel að vinna saman á krísutímum. Enestam-skýrslan skapar góðan grunn til þess,“ segir Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs.
Enestam-skýrslan var einnig til umræðu í fyrirspurnatíma með norrænu samstarfsráðherrunum sem fram fór undir stjórn formanns þeirra árið 2022, Anne Beathe Kristiansen frá Noregi. Í umræðunni lögðu fulltrúar Norðurlandaráðs áherslu á að þeir vilji sjá beinar aðgerðir af hálfu ráðherranna til að fylgja skýrslunni frá Enestam eftir.
Við umræðurnar kom Enestam með eina tillögu til viðbótar. Hann minnti á að um þessar mundir eru 60 ár liðin frá undirritun Helsingforssamningsins, sem kalla má norrænan „stofnsáttmála“, og að hans mati er tímabært að endurskoða samninginn.
Enestam-skýrslan var kynnt á þinginu 2021
Það var Jan-Erik Enestam, fyrrverandi ráðherra í Finnlandi, sem vann skýrsluna að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Hann kynnti ráðleggingar sínar á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2021 og á fundi forsætisnefndar í desember sama ár.
Skýrsla Enestam er að miklu leyti í samræmi við stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi frá árinu 2019. Stefnan felur í sér ýmsar tillögur um viðbúnaðarmál og hún hefur verið grundvöllur þess þrýstings sem Norðurlandaráð hefur beitt ríkisstjórnir landanna undanfarin ár um að efla almannavarnir.