Sátt um norrænu fjárhagsáætlunina

02.11.21 | Fréttir
Nordiska rådets flagga
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg
Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir árið 2022 þriðjudaginn 2. nóvember og hún hefur einnig verið afgreidd í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Fjárhagsáætlunin er unnin í samræmi við viðmið Framtíðarsýnar 2030 en í þeim felst aukin áhersla á græn umskipti á Norðurlöndum. Hin endanlega fjárhagsáætlun er niðurstaða samninga við Norðurlandaráð. Fé sem ekki var nýtt á fyrra ári er veitt til menningar- og menntasviðs vegna aðgerða fyrir ungt fólk og tungumál og til undirbúnings þess að koma á fót sjóði vegna loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni.

Fjárlögin voru rædd á opinberum vettvangi áður en þau voru samþykkt af því að áhyggjur voru uppi vegna niðurskurðar á fjármagni til menningar- og menntasamstarfs.

„Markmið forsætisráðherranna fyrir starfið er að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Það krefst aukins fjármagns til loftslags- og sjálfbærnimála í áætluninni fyrir 2022 og til úrræða sem auka samþættingu á svæðinu en sú þörf verður áfram fyrir hendi næstu árin,“ segir Thomas Blomqvist frá Finnlandi sem stýrði fundi samstarfsráðherranna. „Um leið hefur mikilvægi norrænnar listar og menningar og samheldni fyrir Norðurlandabúa orðið ljóst í heimsfaraldrinum. Þess vegna er ég ánægður með að við höfum komið upp sérstakri eins árs áætlun á sviði menningar og menntunar með því að ráðstafa ónýttu fé frá fyrra ári,“ segir hann.

Í lok fjárhagsáætlunarferlisins fóru að venju fram samningaviðræður milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Samkomulagið vegna fjárhagsáætlunarinnar nemur 15,1 milljón króna alls.  

Bertel Haarder forseti Norðurlandaráðs er afar ánægður með að menning og menntun njóti forgangs í starfseminni, einnig á árinu 2022.

„Það er afar mikilvægt fyrir Norðurlandaráð að menning og menntun skuli ekki verða fyrir enn einu áfallinu eftir alla erfiðleikana sem hlutust af heimsfaraldrinum,“ segir hann. „Græn umskipti eru vitanlega mikilvæg að okkar mati en menningarsamstarfið er hornsteinn samstarfs okkar,“ segir hann.

Forsetinn lagði að loknum samningaviðræðunum einnig áherslu á þörfina fyrir enn nánara samstarf milli ráðsins og ráðherranefndarinnar - bæði á sviði stefnumótunar og stjórnunar.

„Við höfum alltaf sagt að við séum sterkust saman og það á svo sannarlega við hér,“ segir Bertel Haarder.

 

Í samkomulaginu vegna fjárhagsáætlunarinnar felst meðal annars aukning fjármagns vegna nokkurra styrkjakerfa til menningarmála og norrænna menningarstofnana, tungumálasamstarfsins og Norðurlanda í skólanum og einnig til norrænu bókmenntavikunnar.

Kjell-Arne Ottosson, formanni Norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar, er afar létt.

„Við óttuðumst mikinn niðurskurð á sviði sem þegar hefur orðið fyrir miklu höggi en þessi fjárhagsáætlun veitir rými til áframhaldandi öflugs menningarsamstarfs,“ segir hann.

Í nefndaráliti sínu um samkomulagið vegna fjárhagsáætlunarinnar leggur Norðurlandaráð fram ósk um að komið verði á fót ráðherranefnd um samgöngumál eins fljótt og auðið er. Forsætisnefnd ráðsins er sammála um þetta og óskin er einnig liður í því samkomulagi sem Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa gert með sér.

„Það er algerlega í takti við áhersluna bæði á samþættingu og græn umskipti, að koma á fót ráðherranefnd um samgöngumál,“ segir Annette Lind, varaformaður Norðurlandaráðs. Við lítum svo á að samstarfið sem þegar er fyrir hendi verði skilvirkara ef umgjörð þess verður fastmótaðri,“ segir hún.

Fjárhagsáætlun komandi árs byggir á markvissum breytingum á norrænu fjárhagsáætluninni sem tekin er í smáum skrefum og er í takti við fjögurra ára aðgerðaáætlun sem Norræna ráðherranefndin samþykkti eftir samráð við Norðurlandaráð í nóvember 2020.

„Norðurlönd standa frammi fyrir því langtímaverkefni að vera áfram í fremstu röð í grænum umskiptum,“ segir Thomas Blomqvist ráðherra. „Við erum ánægð með mikinn stuðning Norðurlandabúa við fyrirhugaða áherslu á loftslagssamstarf. Skoðanakönnun sem ráðherranefndin og ráðið létu gera og var birt í síðustu viku staðfestir þennan stuðning,“ segir hann.

Umræðurnar um fjárhagsáætlunargerð næstu ára hefjast strax í desember á þessu ári þegar fulltúar núverandi og verðandi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hitta núverandi og verðandi formennsku Norðurlandaráðs til fyrstu yfirferðar á málinu.

NOKKRAR STAÐREYNDIR

-Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfstofnun norrænu ríkisstjórnanna. Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykkja fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar. Fjárhagsáætlunin er lögð fyrir Norðurlandaráð á árlegu þingi þess.

-Norðurlandaráð er opinber samstarfsstofnun norrænu þjóðþinganna. Norðurlandaráð greiðir á þinginu atkvæði um samkomulagið vegna fjárhagsáætlunarinnar sem gert hefur verið milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Samkomulagið vegna fjárhagsáætlunarinnar er í heild sinni skrifað inn í áætlunina sjálfa.

-Fjárhagsáætlun ársins 2022 nemur alls 969 milljónum danskra króna. Fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs 2022 nemur um 37 milljónum danskra króna.

Hér má lesa bakgrunnsupplýsingar um fjárhagsáætlunina: