Sendu inn tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023
Framleiðsla og notkun á textílefnum hefur í för með sér mikil og neikvæð áhrif á umhverfið og loftslagið. Með þema ársins vill dómnefndin vekja athygli á því að Norðurlönd geti verið í fararbroddi í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru í virðiskeðju textílefna í heild sinni.
„Ósjálfbær umgengni við textíl er vandamál á heimsvísu en okkur á Norðurlöndum ber sérstaklega skylda til að breyta okkar nálgun. Hér á sér stað gríðarlega mikil notkun sem hefur áhrif langt út fyrir landamæri okkar. Í stuttu máli kaupum við of mikið, notum það sem við kaupum of lítið og auk þess endurnýtum við ekki nógu mikið,“ segir Cilia Indahl, formaður dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.
Í ár fjallar þema verðlaunanna um líftíma textíls, allt frá framleiðslu á hráefni til hönnunar, sölu og endurnýtingar.
„Við erum í þeirri stöðu að þurfa að draga úr notkun, lengja líftíma textílefna og taka upp viðskiptalíkön í anda hringrásarhagkerfis. Við vonum að umhverfisverðlaunin geti átt þátt í að sýna fram á að textíliðnaðurinn geti verið sjálfbær og að nú þegar séu til góð fordæmi sem sækja megi innblástur til,“ segir Cilia Indahl.
Hér má lesa nánar um þema ársins:
Textíliðnaðurinn stendur frammi fyrir margs konar úrlausnarefnum, bæði félagslegum og í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál. Sjálfbær framleiðsla á textíl og aukin meðvitund um notkun hans á Norðurlöndum getur stuðlað að framþróun á heimsvísu.
Það viðskiptalíkan sem er allsráðandi við framleiðslu og notkun á textíl byggist jafnan á hraðtísku, vörum sem eru af lágum gæðum og aukinni neyslu. Mannréttindi eru oft fótum troðin við textílframleiðslu og vinnuafl illa launað. Einkum og sér í lagi hafa siðferðileg álitamál í seinni tíð, svo sem barnaþrælkun og nauðungarvinna, haft áhrif á innkaupastefnu fyrirtækja.
Þar sem fata- og textíliðnaðurinn er hluti af flóknu alþjóðlegu kerfi er mikilvægt að líta ekki aðeins til félagslegra áhrifa aðfangakeðjunnar heldur einnig umhverfisáhrifa. Á hverri sekúndu er eitt bílhlass af textílúrgangi brennt eða það urðað. Textíliðnaðurinn ber ábyrgð á 4 prósentum af allri vatnsnotkun í heiminum og leggur undir sig landbúnaðarland sem annars myndi nýtast til matvælaframleiðslu. Einkum krefst bómullarframleiðsla mikillar vatns- og landnotkunar. Jafnframt eru 10 prósent af allri koldíoxíðslosun frá iðnaði, 16 prósent af allri notkun á skordýraeitri, 20 prósent af allri vatnsmengun og 35 prósent alls örplasts í hafinu rakin til textíliðnaðar.
Hin margþættu og kerfisbundnu vandamál textíl- og fataiðnaðarins kalla á margvíslegar breytingar, og það frá mörgum hlutaðeigandi.
Virðiskeðja textíliðnaðarins samanstendur af:
- Framleiðslu og öflun á hráefni
- Framleiðslu á textílefni
- Hönnun
- Framleiðslu á vörum
- Sölu
- Notkun
- Innsöfnun
- Viðgerðum
- Flokkun
- Förgun
Til þess að þetta kerfi geti verið sjálfbært þarf meðal annars að nota ný, lífgrunduð, endurunnin og endurvinnanleg textílefni. Vöruhönnun þarf að vera í anda hringrásarhagkerfis sem tryggir félagslega sjálfbærni og veitir marghliða upplýsingar um vöru- og fyrirtækjaábyrgð. Jafnframt er þörf á viðskiptalíkönum í kringum útlán, leigu, samnýtingu, viðgerðir, endurkaup og endurvinnslu á vörum. Mikilvægt er að lengja endingartíma textílefnis til að draga úr notkun.
Ábyrgð innan kerfisins þarf að vera jafnt á alþjóðavísu sem heima fyrir. Allir hlutar og aðilar keðjunnar hafa áhrif á aðra innan hennar. Norrænn textíliðnaður, fataverslun, tískuhönnun og neytendur geta verið öðrum fyrirmynd og haft áhrif á alla afhendingarkeðjuna með vali sínu og textílnotkun.
Umhverfisverðlaunin 2023 verða veitt aðila sem stuðlar að breytingum innan textíliðnaðarins, textílþjónustu (service-design) og notkun á fatnaði í þágu sjálfbærrar þróunar. Þema verðlaunanna styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer 12, 9 og 17.
Við vonum að umhverfisverðlaunin geti átt þátt í að sýna fram á að textíliðnaðurinn geti verið sjálfbær og að nú þegar séu til góð fordæmi sem sækja megi innblástur til.
Öllum er frjálst að senda inn tillögur.
Umhverfisverðlaunin eru þau einu af verðlaunum Norðurlandaráðs þar sem almenningi gefst færi á að senda inn tillögur að tilnefningum.
Frestur til að senda inn tillögur er þriðjudagurinn 9. maí.
Hver geta hlotið tilnefningu?
Verðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem með fyrirmyndarvinnubrögðum hefur gert tillit til náttúru og umhverfis að föstum þætti í rekstri sínum eða starfi, eða sem á annan hátt hefur unnið stórvirki fyrir náttúru og umhverfi. Verðlaunahafinn þarf að búa yfir norrænu sjónarhorni og starfa á Norðurlöndum og/eða í tengslum við aðila utan Norðurlanda.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Norðurlandaráð veitir einnig bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun.