Jens-Kjeld Jensen frá Færeyjum hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020

27.10.20 | Fréttir
Miljøpris vinder 2020

Miljøprisen overrækkes til Jens-Kjeld Jensen af Rókur Tummasarson til et arrangement i Nordens Hus i Tórshavn på Færøerne i forbindelse med uddelingen af Nordisk Råds priser 2020.

Photographer
Jens Kristian Vang

Rókur Tummasarson afhendir Jens-Kjeld Jensen umhverfisverðlaunin við athöfn í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum í tengslum við verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs 2020.

Heiðursdoktorinn, rithöfundurinn, kokkurinn og náttúruunnandinn Jens-Kjeld Jensen hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir viðleitni sína til að rannsaka og miðla upplýsingum um þróun líffræðilegrar fjölbreytni í Færeyjum. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að hann sé fyrirmyndardæmi um það hverju sannur eldhugi geti komið til leiðar.

Jens-Kjeld Jensen hefur skrifað fimm bækur og meira en 500 greinar um líffræðilega fjölbreytni í Færeyjum, þar af yfir 200 fræðigreinar og fræðigreinar fyrir almenning. Því er varla hægt að kalla starf hans tómstundaiðju. Það gerir hann reyndar sjálfur, þrátt fyrir að hafa verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Færeyjum. Jensen hlaut verðlaun Norðurlandaráðs fyrir ötullegt starf til meira en 40 ára þar sem hann hefur meðal annars lagt áherslu á fjölbreytileika færeyskrar náttúru.

Tveir grænlenskir loftslagsaðgerðasinnar, Kira Lennert Olsen og Nuiana Hardenber, afhentu Jens-Kjeld Jensen verðlaunin á stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. Stafræna verðlaunahátíðin kom í stað viðburðar sem fara átti fram á Íslandi, en honum varð að aflýsa vegna COVID-19.

Rökstuðningur dómnefndar

Jens-Kjeld Jensen hlýtur verðlaunin fyrir viðleitni sína til að vekja athygli á fjölbreytileikanum í færeyskri náttúru. Í meira en fjörutíu ár hefur Jens-Kjeld sankað að sér þekkingu og skrásett fróðleik um allt frá flóm, músum og fuglum til steingervinga, sveppa og runnagróðurs í færeysku fjalllendi.

Sem sjálflærður rannsakandi og miðlari hefur hann ritað bækur og mörg hundruð greinar sem birst hafa bæði í vísindatímaritum og tímaritum sem fjalla um vísindi á mannamáli. Þannig hefur hann upplýst færeyskan almenning og fagfólk, og – þegar þess hefur gerst þörf – varað við skaðlegum áhrifum ágengra tegunda og inngripa á hina viðkvæmu náttúru Færeyja.

Jens-Kjeld á í samstarfi við náttúruvísindafólk um allan heim og hefur komið að kortlagningu á yfir 350 nýjum tegundum í Færeyjum. Störf hans hafa aflað honum virðingar bæði Færeyinga og vísindafólks víða um heim og einnig hefur tegund náttfiðrilda verið nefnd í höfuðið á honum.Fjöldi færeyskra barna og fullorðinna hefur fengið innsýn í hinn undursamlega heim náttúrunnar í vettvangsferðum leik- og grunnskóla á heimili Jens-Kjelds á eynni Nólsey. Því finnst sömu börnum oft nærtækt að hugsa og leita til hans þegar þau sjá eitthvað spennandi úti í náttúrunni síðar á ævinni.

Framlag Jens-Kjelds Jensen til þess að auka skilning á fjölbreytileika færeyskrar náttúru og stuðla að varðveislu hennar er ómetanlegt og hann er fyrirmyndardæmi um það hverju sannur eldhugi getur komið til leiðar fyrir auðugri náttúru til framtíðar.

Það er því niðurstaða dómnefndar að Jens-Kjeld Jensen eigi að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020.

Verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Verðlaunahafinn hlýtur að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 350 þúsund danskar krónur og eru verðlaunin afhent í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs. COVID-19 kom í veg fyrir að verðlaunaafhendingin færi fram á Íslandi 2020. Þess í stað var haldin stafræn verðlaunahátíð þar sem tilkynnt var um vinningshafa í verðlaunaflokkunum fimm.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020 renna til aðila á Norðurlöndum sem hefur lagt eitthvað sérstakt af mörkum til verndar fjölbreytni í náttúru okkar. Líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur tilveru okkar og undirstaða velferðar. Þemað styður við 14. og 15. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um líf í hafi og á landi. Í ár veitir Norðurlandaráð umhverfisverðlaunin í 26. sinn.