Stjórnsýsluhindranaráðið: Góð tíðindi að Noregur styrki þau sem sækja vinnu yfir landamæri fjárhagslega

10.03.21 | Fréttir
Flagga
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Erlent starfsfólk sem sækir vinnu yfir landamæri mun fá bætur vegna þess tíma sem það hefur ekki getað sótt vinnu sína í Noregi. Stjórnsýsluhindranaráðið fagnar þessum fréttum en ráðið hefur unnið að lausn málsins.

Þann 29. janúar var nánast allt starfsfólk frá Finnlandi og Svíþjóð stöðvað við landamæri Noregs. Rétt eins og starfsfólk frá Danmörku fékk fólkið ekki að sækja vinnu sína hinum megin landamæranna vegna harðra aðgerða Norðmanna vegna kórónuveirunnar.

Fyrir vikið þurftu mörg þúsund starfsmenn að vera án launa og atvinnuleysisbóta til 1. mars þegar landamærin voru á ný opnuð fyrir finnsku og sænsku starfsfólki.

Á þriðjudaginn sendi skrifstofa forsætisráðherra Noregs frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að bætur yrðu greiddar til erlends starfsfólks og þeirra sem ferðast yfir landamæri til vinnu og búsettir eru innan EES-svæðisins. Samkvæmt tillögunni fær það starfsfólk sem þetta á við um bætur frá 29. janúar.

Stjórnsýsluhindranaráðið hefur beitt sér

„Það eru svo sannarlega góð tíðindi að norska ríkisstjórnin taki ábyrgð á því starfsfólki sem lent hefur í vanda og hefur lengi verið án launa eða bóta. Stjórnsýsluhindranaráðið hefur átt í viðræðum við yfirvöld um stöðu þessa fólks og við erum mjög ánægð með að Noregur hafi ákveðið að greiða þeim bætur sem lent hafa í þessari aðstöðu,“ segir Vibeke Hammer Madsen, norskur meðlimur stjórnsýsluhindranaráðsins.

Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur að frjálsri för um öll Norðurlönd og hefur þrýst á um lausn á málum þeirra sem ferðast á milli landa til vinnu. Meðal annars hefur ráðið sent atvinnumálaráðherrum allra Norðurlandanna bréf þar sem þeir eru hvattir til að finna lausn.

Mörg vandamál óleyst

Mörg vandamál er tengjast lokuðum landamærum og takmörkunum á Norðurlöndum eru enn óleyst. Til að mynda geta starfsmenn frá Noregi og Svíþjóð enn ekki sótt vinnu yfir landamærin til Finnlands nema starf þeirra sé skilgreint sem nauðsynlegt. Þetta starfsfólk fær hvorki laun né aðrar bætur.

Eins fær fólk sem ferðast frá Danmörku til Noregs til vinnu ekki enn að sækja vinnu sína. Hið sama á við um þá sem ferðast vikulega til Noregs vegna vinnu frá Svíþjóð og Finnlandi.

Stjórnsýsluhindranaráðið þrýstir áfram á um lausn þessara vandamála.

„Þetta útspil norsku ríkisstjórnarinnar sýnir að löndin vilja leysa þau vandamál sem skapast hafa. Þó er margt óleyst enn sem við höldum áfram að vinna að,“ segir Kimmo Sasi, formaður stjórnsýsluhindranaráðsins 2021.