Svona kemst norræni vinnumarkaðurinn út úr kreppunni

12.06.20 | Fréttir
cykeluthyrare på Gotland
Photographer
Fredrik Sandberg/TT/Ritzau Scanpix
Á fáeinum mánuðum breyttist traustur norrænn vinnumarkaður í vinnumarkað þar sem ríkir kreppa, tugþúsundum hefur verið sagt upp og gjaldþrot orðið. Leiðin tilbaka liggur um aðgerðir í menntamálum og uppbyggilegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins að mati norrænu atvinnumálaráðherranna.

Atvinnumálaráðherrar Norðurlanda hittust á sérstökum fundi á föstudaginn, í boði dönsku formennskunnar, til þess að bera saman bækur sínar um stöðu vinnumarkaðarins nú þegar norrænu ríkin eru að opnast hægt og hægt. Aðilar vinnumarkaðarins tóku einnig þátt í þessum fjarfundi. 

„Við þessar aðstæður er mikilvægt að við stöndum vörð um sameiginlegan norrænan vinnumarkað okkar, að við samræmum stefnumörkun landa okkar þegar hjól atvinnulífsins fara að snúast að nýju og komumst hjá hugsanlegum hindrunum sem upp geta komið,“ segir Eva Nordmark, atvinnumálaráðherra Svíþjóðar.

Ráðherrarnir ræddu helstu áskoranir á þessum tímapunkti, þegar búist er við að vinnumarkaðurinn komist í gang að nýju.

Ísland opnast fyrir ferðamönnum

Á Íslandi, sem kannski er stærsta ferðamannaland Norðurlandanna, fimmfaldaðist atvinnuleysi á fáeinum vikum þegar faraldurinn stöðvaði flugfélögin og ferðaskrifstofurnar fóru að aflýsa ferðum.

 Nú er landið farið að opnast fyrir ferðamönnum að nýju.

 

„Ferðamennskan skiptir sköpum á Íslandi og við leggjum megináherslu á að koma henni aftur á skrið. Um leið verðum við að gæta þess að þetta gerist á kerfisbundinn hátt. Þess vegna eru sameiginlegar norrænar lausnir varðandi opnun mikilvægar, segir Ásmundur Einar Daðason, atvinnumálaráðherra Íslands.

Aðilar gerðu samkomulag

Í öllum norrænu ríkjunum hafa á methraða verið lagðir fram efnahagslegir aðgerðapakkar til þess að styðja við heimilinn og koma til móts við margs konar fyrirtæki.

Norrænir vinnumarkaðsfræðingar eru strax farnir að benda á að hraðir og breiðir samningar í kreppunni hafi auk þess sýnt fram á að norræna líkanið sé skilvirkt.

Í Danmörku var til dæmis gert samkomulag þriggja aðila um að stór hópur starfsfólks sem ekki átti þess kost að fara í vinnuna héldi launum sínum.

Nú snúast aðgerðir um að takmarka efnahagslegar og félagslegar afleiðingar til lengri tíma litið.

Fjárfest í menntun

Þarna gegna aðgerðir í menntamálum lykilhlutverki að mati Peter Hummelgaard, atvinnumálaráðherra Danmerkur sem stýrði fundinum.

 

„Við vitum frá fyrri kreppum að kreppur á vinnumarkaði bitna verst á þeim sem minnstu menntunina hafa. Þess vegna er menntun og færniþróun svarið við þessari kreppu því slík úrræði gagnast öllum, atvinnulausum, fólki í vinnu og fyrirtækjum. Við vorum að kynna umbótaáætlun um færniþróun sem gerir ráð fyrir að fólk án atvinnu geti bætt við sig menntun á sviðum þar sem er skortur á vinnuafli og fengið um leið 10 prósent umfram venjulegar lágmarksbætur. Við munum bæta við fleiri svipuðum aðgerðum síðar. Þetta snýst um að svarið við kreppunni sé að fjárfesta í fólki,“ segir Peter Hummelgaard.

Leggjast gegn lágmarkslaunum ESB

Á fundinum var einnig rætt um frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB um lágmarkslaun, frumkvæði sem hefur vakið viðbrögð um alla Evrópu.

Framkvæmdastjórn ESB lítur á kórónuveirufaraldurinn sem enn frekari ástæðu til þess að halda áfram að vinna að áætlun um evrópsk lágmarkslaun til þess að draga úr launabili og fátækt.

Fyrr á þessu ári skrifuðu norrænu atvinnumálaráðherrarnir í bréfi til framkvæmdastjórnar ESB að hugsanleg evrópsk lágmarkslaun mættu ekki brjóta í bága við norræna líkanið.

 

„ESB verður að styðja við samfélagslega umræðu og ákvörðun launa með kjarasamningum en ekki setja lög um lágmarklaun sem ná til landa sem þegar eru með kjarasamningakerfi sem virkar. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt áherslu á að tillagan muni ekki hafa áhrif á kerfi þeirra landa sem byggja á kjarasamningum. Það er mikilvægt að eftir þessu verði farið, einnig í þeim undirbúningi sem framundan er,“ segir Tuula Haatainen, atvinnumálaráðherra Finnlands.

Sameiginleg norræn greining

Norræna samstarfið stendur nú að sameiginlegri greiningu á því hvaða atvinnugreinar og hópar fólks hafi orðið harðast úti vegna gjaldþrota og uppsagna - og hversu gagnlegir aðgerðapakkarnir hafa verið.

Í greiningunni er lögð sérstök áhersla á að skoða hvort kreppan hafi bitnað með ólíkum hætti á konum og körlum og hvort að í aðgerðapökkunum hafa verið tekið tillit til þess að vinnumarkaður Norðurlandanna er kynskiptur. Einnig á að leita svara við því hvort atvinnuleysi hafi bitnað harðar á tilteknum aldurshópum eða á fólki með minni menntun eða erlendum uppruna.

Greiningin á að vera tilbúin fyrir áramót.